Tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er því miður allt of seint fram komið. Mörg atriði sem ekki hefur gefist færi á að skoða jafnvel þótt hv. fjh.- viðskn. hafi tvívegis komið saman og rætt frv., annars vegar með embættismönnum og hins vegar með aðilum úr atvinnulífinu. Ég vek athygli á því að ráðgert er að þingi ljúki fyrir jól, nk. föstudag. Í dag er þriðjudagur og enn hefur málinu ekki verið formlega vísað til nefndar í þeirri deild. Þetta sýnir að það kann að vera erfitt, jafnvel þótt fullur vilji sé til þess hjá öllum aðilum, að lögfesta svo veigamikla breytingu sem frv. hefur að geyma fyrir áramót nema þingið sé tilbúið til þess að koma saman á milli jóla og nýárs og dugir jafnvel sá tími ekki til.
    Þetta seinlæti getur ekki skrifast á reikning stjórnarandstöðunnar, enda gáfu orð hæstv. ráðherra ekki tilefni til þess að skilja það á þann veg. Það hlýtur að skrifast á reikning hæstv. ríkisstjórnar, sem eins og fyrr hefur komið fram í dag, hefur ekki komið sér saman um orðalag frv. þannig að fullt samkomulag sé á meðal stjórnarliða.
    Þetta frv. er, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, samið af nefnd sem sett var á laggirnar á sl. sumri. Þessi nefnd er embættismannanefnd. Hæstv. fjmrh. skipar nefndina. Frv. var kynnt í bæklingi sem fyrstu tillögur nefndarinnar um miðjan sl. mánuð. Það er kannski ekki úr vegi að rifja það upp hvert sé meginverkefni þeirrar nefndar. Það er að gera tillögur um breytingar á skattlagningu fyrirtækja hér á landi í samræmi við þær breytingar sem hafa orðið og eru smám saman að verða í öðrum löndum. Þannig er ætlunin að búa fyrirtækin undir vaxandi samkeppni frá útlöndum. Nefndin kaus að nálgast þetta frá þremur sjónarhornum eins og lýst er í skýrslu nefndarinnar. Í fyrsta lagi með því að skoða leiðir til þess að jafna starfsskilyrði einstakra atvinnugreina hér á landi í skattalegu tilliti. Frv. sem hér er til umræðu er auðvitað hluti af því. Í öðru lagi ætlar nefndin sér að samræma skattlagningu milli félagaforma og í þriðja lagi er hugmyndin að færa skattlagninguna í svipað horf og tíðkast í helstu viðskiptalöndunum.
    Þarna er um stórverkefni að ræða og vissulega má taka undir það að nauðsynlegt er fyrir okkur að undirbúa atvinnulífið sem mest undir vaxandi samkeppni annars staðar frá ef og þegar við tengjumst viðskiptaheildum í Evrópu öðrum en þeim sem við erum nú aðilar að. Um það er auðvitað ekkert hægt að segja á þessu stigi en ljóst er að það breytir engu hvort ákvörðun er tekin um það að ganga í Evrópubandalagið eða að sitja utan þess. Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir okkur að haga leikreglum okkar með þeim hætti sem bestan árangur gefur. Ég vek athygli á því í því sambandi að á undanförnum tveimur árum hefur það gerst að þjóðir sem áður bjuggu austan járntjalds hafa risið upp gegn sínum kúgurum, kastað frá sér þeim leikaðferðum sem þar voru notaðar í atvinnulífi sem og á öðrum sviðum þjóðfélagsins en tóku upp vestrænar leikaðferðir sem eiga að sjálfsögðu við hér á landi eins og alls staðar þar sem menn leggja upp úr því að ná árangri í efnahags- og atvinnulífi.
    Ég kýs að minna á þetta af því sérstaka tilefni að sú hæstv. ríkisstjórn sem hér situr nú um stundir lýsti því í fyrstu stefnuræðu hæstv. forsrh. að hér á landi ættu slíkar leikaðferðir ekki við. Verður aldrei of oft sagt frá því hve nauðsynlegt það er að hæstv. ríkisstjórn hverfi frá þeirri villu sem þar kom fram og verð ég að fara viðurkenningarorðum um a.m.k. suma hæstv. ráðherra sem hafa kostað kapps um það að leiðrétta þá skekkju sem kom fram hjá hæstv. forsrh. þegar hann í upphafi tók kúrsinn fyrir hæstv. ríkisstjórn.
    Ein breyting er gerð á frv., sem telst nokkuð veruleg, frá þeim búningi sem frv. var í þegar viðkomandi nefnd skilaði því af sér. Það er upphæðin eða prósentufjárhæðin í öðrum gjaldflokknum sem var breytt úr 5,5% í 6%. Það þýðir, og vegna þess að gjaldið nær til fleiri aðila, að ríkissjóður mun afla tekna á næsta ári sem nema um 500 millj. kr. ef frv. fer í gegn í tíma og gjaldið verður lagt á allt næsta ár. Reyndar þýðir þetta að árið sem nú er að líða er skattlaust í sama skilningi og árið var skattlaust þegar kerfisbreytingin átti sér stað á tekjuskattinum. Væri nú þess virði að rifja upp ýmsar ræður hæstv. fjmrh. í því sambandi og þau orð sem hann viðhafði um það hvers konar della það væri að tala um skattleysisár í því sambandi. Nú er hæstv. ráðherra mættur í félagsskapinn og farinn að tala um skattlaust ár. Þótt lítið beri á því í hans eigin orðum þá kemur það fram í þeim gögnum sem við erum hér að fjalla um. Svona breytast nú menn í tímans rás eins og gengur.
    Það vekur athygli sem hæstv. ráðherra staðfesti í sinni ræðu að hæstv. ríkisstjórn hefur horfið frá því ráði að breyta aðstöðugjaldinu. Það virðist hafa gerst að hæstv. ríkisstjórn hafi uppgötvað að það þarf að tala við sveitarstjórnirnar áður en hægt er að ganga frá þeirri breytingu jafnvel þótt færa megi ærin rök fyrir því að aðstöðugjald sé ákaflega óheppilegur skattur fyrir atvinnulífið, enda kemur hann mjög misjafnlega niður á mismunandi atvinnugreinum. Í reynd má kannski segja að hann komi mismunandi niður á byggðarlögum, ekki síst í landi eins og Íslandi þar sem samgöngur og viðskipti eru með þeim hætti að þær miðast fyrst og fremst við höfuðborgina. Það verður að segjast eins og er, og ég skal viðurkenna það þótt ég sé þingmaður fyrir Reykvíkinga, að vissulega má færa rök fyrir því að aðstöðugjaldið færi tekjur til Reykvíkinga á kostnað annarra sveitarfélaga, ekki síst á meðan sú villa hefur verið uppi að aðstöðugjaldið er ekki lagt með sama hætti á allar atvinnugreinar. Má kannski segja að sú afstaða að leggja ekki aðstöðugjald á sumar grundvallaratvinnugreinarnar, sem fyrst og fremst eru stundaðar utan Reykjavíkur, hafi gert það að verkum að sveitarstjórnirnar þar hafa átt í miklum erfiðleikum. Í stað þess að leggja sams konar aðstöðugjald á þær greinar og laga það annars staðar í hagkerfinu, t.d. með genginu, þá hefur það ekki verið gert með þeirri niðurstöðu að sveitarfélögin úti á landi hafa mörg hver verið miklu háðari ríkisvaldinu og samstarfi við það en ella. Þetta er auðvitað eitt af þeim atriðum sem menn verða að hugleiða þegar þeir horfa fram í tímann og reyna að átta sig á því hvernig þeir vilja að skattkerfið líti út, ekki einungis það kerfi sem ríkið notast við heldur einnig sveitarfélögin.
    Nú hefur verið horfið frá því ráði að endurskoða og breyta aðstöðugjaldinu. Sett hefur verið á stofn nefnd og sú nefnd á ekki að skila áliti fyrr en þessi hæstv. ríkisstjórn sem nú situr er öll. Þannig er því máli vísað yfir á næstu ríkisstjórn. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að ágreiningur hefur risið á milli stjórnarliðsins um það hvernig eða í hvaða búningi þetta frv. eigi að vera þegar það er lagt fram á hinu háa Alþingi.
    Ég bendi á í því sambandi að verði þetta frv. að lögum og líði tvö ár þannig að gjaldið verði eitt og hið sama fyrir allar greinar, eða 4,25%, má búast við því að verð á landbúnaðarvörum eða sauðfjárafurðum komi til með að hækka um 2% því að launaliður bóndans er svo hár í þeim búskap. Það er þess vegna eðlilegt að bændur vilji tengja saman niðurfellingu aðstöðugjaldsins og þessa kerfisbreytingu vegna þess að þeir telja að aðstöðugjald ofan á aðstöðugjald eða uppsöfnun í aðstöðugjaldinu nemi jafnvel um 6% a.m.k., í vissum greinum landbúnaðarins. Þess vegna er skiljanlegt að ýmsir fulltrúar bændastéttarinnar, bæði innan þings og utan, hugsi sig tvisvar um áður en þeir samþykkja meginstefnu þessara laga og hafa ekki fulla tryggingu fyrir því hvernig leysa eigi úr ágreiningnum um aðstöðugjaldið. Ekki meira um það að sinni.
    Það var vissulega sérkennilegt að horfa á þá uppákomu sem varð hér fyrst á þessum fundi og byrjaði reyndar í morgun á fundi fjh.- og viðskn. Það kennir hæstv. ríkisstjórn væntanlega að vanda betur frv. sín áður en þau eru lögð fram og tryggja a.m.k. að stjórnarflokkarnir allir séu tilbúnir að ræða frv. í þeim búningi sem það er lagt fram. Málið kemur vissulega seint inn á Alþingi, eins og ég hef sagt, en það vekur kannski ekki minnsta athygli þegar um þetta mál er fjallað að þar með hefur hæstv. ríkisstjórn nánast upplýst hvernig hún ætlar að standa að gerð fjárlaga fyrir næsta ár. Þegar tekjuhlið fjárlaga er skoðuð ásamt útgjaldahliðinni kemur í ljós að verði þetta eina tekjufrv. sem samþykkt verður, hvort sem það gerist nú fyrir jól eða fljótt á næsta ári, þá nást u.þ.b. 500 millj. til viðbótar af þessum gjöldum með tryggingagjaldinu. En skv. fjárlagafrv. var gert ráð fyrir því að tryggingagjald skilaði 1.600 millj. kr. Því hefur jafnframt verið lýst yfir að hafnamálagjald, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., falli niður. Í raun er því tekjuáætlun fjárlaganna, eins og hún stendur nú, of há um 1.660 millj. kr.
    Ég minni á að við 2. umr. fjárlaga
gerðist það að útgjöldin hækkuðu um hátt í 900 millj., ef ég man rétt. Hér hefur því hallinn aukist um 2,5 milljarða sem bætast við þá 3,5 sem eru í frv. Hallinn er þegar orðinn 6 milljarðar og er þó eftir að

ræða frv. við 3. umr. þar sem gera má ráð fyrir verulegum útgjaldaauka. Það skal þó tekið fram til þess að skýra málið að hugsanlega getur tekjuáætlunin breyst eitthvað þótt ekki megi gera ráð fyrir að um verulegar breytingar sé að ræða. Þetta þýðir að hallinn á næsta ári gæti orðið 6 -- 7 milljarðar. Verður það nánast met í halla eins og hann er sýndur við fjárlagagerðina. Reynslan hefur kennt okkur að hallinn er venjulega vanmetinn, vanáætlaður og hefur það komið berlega í ljós á undanförnum árum.
    Þetta þýðir auðvitað að í framtíðinni verða næstu ríkisstjórnir að fást við þennan vanda, annaðhvort með mun duglegri niðurskurði en ella hefði þurft eða með því að hækka skatta langt umfram það sem þurft hefði ef menn hefðu tekið á þessu máli fyrr. Auðvitað verður að fjármagna þennan halla. Það hyggst hæstv. ríkisstjórn gera á fjármagnsmarkaði innan lands sem þýðir það að ríkið í skjóli styrks síns mun auðvitað ná þeim peningum sem það vantar til þess að halda úti sinni starfsemi. Það mun auðvitað leiða til þrýstings á vextina og þeir væntanlega hækka nema ætlunin sé að prenta peninga eins og reyndar efnahagssérfræðingar hafa bent á að hæstv. ríkisstjórn hafi gert með aðild Seðlabankans. Eins og hæstv. viðskrh. viðurkenndi hér um daginn virðist Seðlabankinn samkvæmt lögskýringu hans, sem hann las hér upp reyndar beint upp úr lögunum, eiga að gegna efnahagsstefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma, en hæstv. viðskrh. hefur praktíserað það með þeim hætti að hann hefur heimtað að Seðlabankinn breyti áætlunum og spádómum sínum, eins og frægt er orðið. Er þá verið að rifja upp síðustu afskipti viðskrh. af málefnum Seðlabankans.
    Þetta þarf að liggja fyrir, virðulegi forseti, þegar menn eru að fjalla um þessi mál. Þetta sýnir kannski betur en allt annað að nú rétt fyrir jól hefur hæstv. ríkisstjórn gefist upp. Hún hefur gefist upp við það að hækka skattana sem var þó helsta keppikefli hæstv. fjmrh. og forsrh. Allir sem horfa á sjónvarp á annað borð muna eftir því þegar hæstv. forsrh. stóð í ræðustól á þingi Framsfl. og sagði við þingfulltrúa: Haldið þið ykkur nú! --- og kom síðan með þá yfirlýsingu að auðvitað ætti að hækka skattana og opnaði þar með kosningabaráttu Framsfl. Þar mun vera í 1. gr. að hækka skuli skattana á Íslendingum.
    Nú er tekið fyrsta skrefið. Það gerist með því að gefast upp við að leggja fram nokkur frv., þar á meðal að setja upp hafnamálagjald. Það er gefist upp við að ná inn tekjum af tryggingagjaldi. Það er gefist upp við aðstöðugjaldið en eftir sitja 500 millj. í tryggingagjaldinu og þá stendur formaður þingflokks Framsfl. upp og mótmælir því að þetta frv. komi fram, sem skilja mátti á þann veg að hann vildi ekki að frv. yrði samþykkt, og þá hefðu þessar 500 millj. líka fallið um sjálfar sig. Þannig er komið fyrir þessum kjarnorkukjarkmönnum sem lýstu því yfir við upphaf kosningabaráttunnar að þeir teldu það sterkast sér til framdráttar að hækka skatta á fyrirtækjum og einstaklingum.
    Hæstv. ráðherra sagði frá því réttilega að yrði þetta frv. að lögum yrði nauðsynlegt að leggja fram frv. um

réttindi og skyldur manna gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég tel í raun að það þurfi að ganga lengra. Það frv. þurfi að vera tilbúið um leið og þetta frv. er afgreitt. Hér er um það að ræða að nú á að taka gjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs af öllum þeim sem þiggja laun eða launaígildi skv. lagafrv. Skattstofninn er breikkaður og gerður sá sami og tekjuskattsstofninn, sem þýðir að hlunnindagreiðslur, bifreiðastyrkir og dagpeningar eru að nokkru leyti taldir til launa og reiknuð laun þannig að allir launamenn í víðtækustu merkingu orðsins munu greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þetta þýðir að einyrkjar eins og bændur munu greiða slíkt gjald og þá er tekin upp stefna sem ég veit ekki að sé til nokkurs staðar annars staðar og það er að bændur séu slíkir launamenn að þeir megi búast við að fá atvinnuleysisbætur ef þeir verða atvinnulausir. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. hefur hugsað þetta út í hörgul en ég vek athygli á þessu því ég hygg að svo sé ekki í nágrannalöndunum.
    Þess vegna held ég, virðulegur forseti, að það þurfi að liggja fyrir um leið og þetta frv. er afgreitt frv. um réttindi og skyldur gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég bendi á í því sambandi að hv. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde hefur lagt fram á þskj. 329, 229. mál þingsins, lagafrv. um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem hann leggur til að orðalagi laganna sé breytt þannig að í stað orðanna ,,félagsmenn í stéttarfélögum`` komi ,,launamenn``. Ég vek athygli á þessu starfi því það mætti hugsanlega nota þetta frv. og breyta því ef ástæða er til og láta það fara fram með nefndarstarfinu. Ég vek athygli á þessu því þá getur hæstv. ráðherra hugsanlega stytt sér leið og látið sína embættismenn skoða það frv. og kanna hvort ekki sé ástæða til þess að það fari fram með, ég ætlaði að segja stjfrv. og vona að það sé ekki ofmælt þótt ég kalli þetta frv. stjfrv. Ég er ekki þar með að segja að þetta sé sjálfsagður hlutur. Ég vek t.d. athygli á því að vörubílstjórar hafa allar götur verið í launþegafélagi en eru þó með meiri háttar atvinnurekendum og með dýr tæki sem kosta jafnvel tugi milljóna. En þeir eru í launþegafélagi og hafa þess vegna aðgang að atvinnuleysisbótum en víðast mun það vera svo að þeir teljast til atvinnurekenda rétt eins og bændur sem eru með sín býli sem mörg eru ekkert dýrari en stórir vörubílar. En einyrkjar eins og bændur njóta ekki atvinnuleysisbóta. Þetta mál þarf að kanna mjög rækilega um leið og þetta frv. verður til umræðu í hv. nefnd.
    Ef litið er á frv. sjálft langar mig til að fara um það nokkrum orðum. Ég bendi á að í 2. gr. frv. er sú meginstefna, sem allt frv. gengur út á, að tryggingagjaldið skuli nema 4,25% af gjaldstofni. Um þetta hefur styrrinn staðið. Framsfl. virðist ekki hafa samþykkt þetta og telur að þarna eigi að standa: Tryggingagjald skal nema 2,5% og 6% af gjaldstofninum. Þetta atriði skiptir auðvitað meginmáli því að tillöguflutningurinn er tilgangslaus nema menn sjái fyrir sér lokatakmarkið. Ella gæti hæstv. ríkisstjórn einungis lagt til að hækka launaskattinn og ná inn 500 millj. kr. ef það

væri eina markmiðið með framlagningu þessa frv.
    Þá vil ég vekja athygli hæstv. ráðherra á því að í 19. og 20. gr. er talað um lagabreytingar eða brottfall lagaákvæða í öðrum lögum og ekki aldeilis hægt að fallast á það hvernig það virðist vera gert. Þarna þarf auðvitað að vísa til þeirra greina sem við eiga og nægir engan veginn að láta 19. gr. standa eins og hún stendur í frv. Þetta þarf auðvitað að laga við meðferð málsins í nefnd.
    Það er alveg ljóst, virðulegur forseti, af greinargerðinni, af athugasemdunum, að það er markmið frv. að jafna tryggingagjaldið á atvinnugreinunum. Það er þess vegna augljóst að öllum þeim sem hafa komið nálægt samningu frv. hefur verið ljóst að þetta er aðalstefnumið frv. Það þarf auðvitað að skoða hve mikið breikkunin á skattinum gefur í ríkissjóð, og eins flýtingin, því nú er ætlunin að þetta sé heimt inn með staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars. Þetta þarf að liggja fyrir í nákvæmara horfi en sést á fylgiskjölum með frv.
    Ég vek athygli á því að í fylgiskjali sem heitir Samræming launagjalda, töflu nr. 7, er því lýst hvernig greiðslur verða frá mismunandi atvinnugreinum eftir breytinguna, þ.e. á næsta ári, árið 1991. Það kemur í ljós að allar greinarnar, hvort sem það eru landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður, byggingarstarfsemi, verslun og veitingastarfsemi, samgöngur, bankar, tryggingafélög eða önnur starfsemi, koma til með að greiða hærri skatta á næsta ári, þ.e. hærri gjöld á næsta ári en þau mundu gera að óbreyttum lögum. Þessi upphæð er 425 millj. á verðlagi yfirstandandi árs sem mun vera 500 millj. á verðlagi næsta árs og verðlagi því sem fjárlagafrv. er á til að mynda. Á þessu vil ég vekja athygli því að þetta sýnir okkur að einn megintilgangur frv., þó það sé ekki yfirlýst markmið, er að ná inn 500 millj. upp í þann mikla skuldahala sem er á fjárlögum.
    Við sjálfstæðismenn höfum tekið þátt í því að flýta fyrir nefndarstarfinu. Það er ákaflega óvenjulegt að slíkt sé gert. Það er óvenjulegt að mál sé tekið fyrir í nefnd og rætt við fólk úti í bæ áður en það er lagt fram á Alþingi. Við vildum taka þátt í þessu starfi af því að við vildum gera það sem í okkar valdi stóð til þess að þetta mál fengi eðlilega afgreiðslu. Mér sýnist hins vegar eftir síðustu atburði og eftir þá lýsingu sem hér var gefin á hugmyndum, t.a.m. framsóknarmanna, að litlar líkur og nánast engar séu á því að þetta frv. geti fengið afgreiðslu fyrir jól. Ekki vegna þess að ég sé að lýsa andstöðu við þær hugmyndir sem koma fram í frv. heldur vegna hins að það þarf að vinna mjög mikið verk í nefndinni áður en hægt er að afgreiða málið úr nefnd. Það verður ekki hægt að kenna stjórnarandstöðunni um það hvernig því verki kemur til með að miða. Hæstv. ríkisstjórn verður að bíta í það súra epli að frv. kemur allt of seint fram. Og auðvitað er það alveg rétt sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að sjálfsagt hefðu prentararnir í Gutenberg skilað þessu frv. miklu fyrr ef þeir einir hefðu fengið að ráða. ( Gripið fram í: Og betur.) Já, örugglega betur. Þeir hefðu ekki þurft að senda þetta

í fjóra eða fimm staði og fá blessun. Síðan þegar búið var að blessa frv. á öllum þessum stöðum og það sent heim til nokkurra útvaldra þingmanna á sunnudegi eða laugardagskvöldi kom í ljós að sumir höfðu alls ekki lesið frv. og það kom þeim á óvart á þriðjudagsmorgni hvernig það leit út. Þessi vinnubrögð sem viðgangast hjá stjórnarflokkunum og hafa opinberast í dag eru auðvitað ekki fyrirmyndar og síst til þess fallin að þeir aðilar sem þurfa að búa við þessi lög og skila inn hækkuðum skatti á næsta ári uni sínum hlut og telji eðlilegt að á tveimur dögum verði þessu máli húrrað í gegnum þingið.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að fram kæmi hér við 1. umr. málsins en jafnframt lýsa því yfir að við munum að sjálfsögðu vinna að þessu máli eins og öðrum þeim málum sem liggja fyrir nefndinni sem mest við megum þar til þingi lýkur fyrir jólaleyfi.