Tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um tryggingagjald. Það hefur nú þegar fengið nokkuð ítarlega umfjöllun, bæði að efni og formi, en ég tel rétt að láta koma fram viðhorf mitt til þessa frv. Það er þegar ljóst að það frv. sem fyrir liggur, þ.e. sú skattlagning sem um er að ræða fyrir árið 1991, er nokkru lægri en gert er ráð fyrir að tryggingagjaldið skili í því fjárlagafrv. sem þegar er til umfjöllunar á þinginu. Þar er gert ráð fyrir að þetta tryggingagjald skili um 1600 millj. kr. en samkvæmt því frv. sem nú liggur fyrir mun það ekki skila nema 425 millj. kr. Hér er því ekki um mjög miklar breytingar að ræða á þessum gjöldum en nokkuð verulega lækkun frá því sem fyrir liggur í fjárlagafrv.
    Þótt um fremur litla breytingu sé að ræða er óhætt að segja að afleiðingar þessa frv. geta verið nokkuð margvíslegar. Fyrst er þar til að taka að um er að ræða sameiningu gjalda og samræmingu innheimtu. Það hygg ég að sé af hinu góða. En mikilvægustu þættir þessa frv., og fjalla ég þá eingöngu um málið eins og það liggur fyrir fyrir árið 1991 en ekki þá framtíðarsýn sem fjmrh. hefur lýst hér með samræmingu fram í tímann eða fram á árið 1993, eru samræming milli félagaforma annars vegar og hins vegar milli atvinnugreina. Það er alveg ljóst þó ekki sé í miklum mæli að um er að ræða íþyngingu
á útflutningsgreinum og samkeppnisgreinum umfram þjónustugreinar og verslun og aðrar greinar ýmsar. Nokkur hækkun er á skattlagningu til landbúnaðar og sjávarútvegs og það er út af fyrir sig umhugsunarefni á þeim tíma þegar raungengi íslensku krónunnar fer nokkuð hækkandi. Eigi að síður er það sjónarmið eðlilegt og á rétt á sér að samræma þessa gjaldtöku á milli greina.
    En jafnframt er um að ræða það sem kallað er á fínu máli samræming á milli félagaforma, þ.e. samræming gjalda milli hinna ýmsu rekstrarforma, hlutafélaga og sameignarfélaga annars vegar og hins vegar einkareksturs. Það er alveg ljóst að með þessu frv. þyngist nokkuð skattlagning á því sem við mundum kalla einkarekstur eða atvinnurekstur einyrkja og sjálfstæðra atvinnurekenda. Ég hygg að þar komi menn að nokkrum stórum spurningarmerkjum, hvort menn eru að freista þess að samrýma það sem ósamrýmanlegt er. Það er alveg ljóst að skattlagning félagaforma er mjög mismunandi. Einfaldast er auðvitað að benda á mismuninn á tekjuskattsprósentu einkareksturs og félagaforma sem er mikill. Þarna eru menn að tala um að samræma tiltölulega einföld og lág gjöld. En ég hygg að menn komist aldrei fram hjá þeim mun sem um er að ræða þegar að félagaformunum kemur, að í einkarekstri bera menn ábyrgð á öllu sem þeir gera eða öllu sem þeir eiga. Þar er grundvallarmunur eða á til að mynda hlutafélagaforminu.
    Umræður hafa nokkuð snúist um aðstöðugjaldið og margir ræðumenn, þar á meðal fjmrh. og forsrh., hafa gert það að umræðuefni að fella aðstöðugjaldið niður með samningum við sveitarfélögin og það sé markmið sem keppa beri að. Ég er því sammála. Ég hygg að aðstöðugjaldið sé ljóslega ranglátur skattur þar sem um er að ræða veltuskatt. Fram hjá því verður hins vegar ekki horft að aðstöðugjaldið er veigamikill tekjustofn sveitarfélaganna og þar verða auðvitað að fara fram ítarlegar viðræður við sveitarfélögin. Hér er um viðamikla kerfisbreytingu að ræða ef menn ætla að hverfa frá aðstöðugjaldinu.
    Ég hygg jafnframt að aðstöðugjaldstekjustofninn sé nokkuð mismunandi eftir því hvaða sveitarfélög um er að ræða. Breyting á aðstöðugjaldi eða afnám þess mun snerta Reykjavíkurborg mjög verulega fram yfir ýmis önnur sveitarfélg. En þegar menn tala um að eðlilegt sé að afnema aðstöðugjald vegna þess að það sé brúttó- eða veltuskattur, þá þurfa menn jafnframt að hafa í huga að auðvitað er launaskattur, eða tryggingagjald sem hér er um að ræða, brúttóskattur. Þar er um að ræða skatt á laun. Og allir hlutir orka tvímælis þá gerðir eru. Ljóst er að jafnframt því sem aðstöðugjald mismunar greinum mjög eftir veltu, þá mismunar launaskattur eða tryggingagjald hinum ýmsu atvinnugreinum og fyrirtækjum mjög eftir því hve vægi launa í rekstri er mikið. Launadreifing hinna ýmsu greina í atvinnulífinu er mjög mismunandi og hár launaskattur refsar fyrst og fremst þeim greinum sem eru með marga í vinnu og greiða mikil laun.
    Annar megingallinn við launaskattinn er auðvitað sá að hann safnast upp í kerfinu eins og söluskatturinn gerði áður og menn fá uppsafnaðan söluskatt eftir því sem lengra kemur í virðisaukanum og uppsafnaðan launaskatt eftir því sem lengra kemur. Launaskattur er því út af fyrir sig umhugsunarefni eins og reyndar allir skattar.
    En auk þessara atriða og þeirra áhrifa sem hér er um að ræða hefur verið vakin athygli í þessari umræðu á atvinnuleysistryggingagjaldinu. Þegar um er að ræða samræmingu þar þurfa menn að horfa til þess að nokkurt jafnvægi sé annars vegar í gjöldum eða gjaldtöku og hins vegar þeim ávinningi sem einstakir aðilar hljóta. Það er ljóst að ýmsir einyrkjar og sjálfstæðir atvinnurekendur og jafnvel fleiri sem þetta atvinnuleysistryggingagjald er nú lagt á njóta ekki atvinnuleysisbóta. Það er boðað að það mál verði tekið til athugunar og hefði verið fróðlegt að sjá slíkt frv. samhliða því frv. sem hér er um tryggingagjald. Vonandi verður það unnið af samviskusemi og sér dagsins ljós innan stutts tíma.
    Hér er um að ræða nokkra breikkun á skattstofni með þessu tryggingagjaldi. Annars vegar er launaskatturinn færður út og lagður á hlunnindi sem ekki hefur verið lagt á áður og hins vegar eru gjöld felld á aðila sem ekki greiddu þau áður. Það er auðvitað ljóst að þar sem um er að ræða samræmingu til staðgreiðslu á þessum gjöldum, þá er um einhverja hækkun að ræða á sumum þessara gjalda vegna verðbólgu og þess að þau voru venjulega greidd árið á eftir. Ég hygg að hér sé þó ekki um mikið mál að ræða. Umhugsunarefni í þessu öllu er auðvitað sú samræming skattlagningar sem margir hafa gert að umræðuefni við Evrópubandalagið eða hið Evrópska efnahagssvæði. Hygg ég að þeim mun harðari sem samkeppnin verður og opnara efnahagssvæðið verður, því erfiðara verði að leggja hærri skatta á fyrirtækin hér en almennt gerist innan þess svæðis.
    Margt horfir til bóta með því frv. sem hér er lagt fram þó að margt veki auðvitað spurningar og sé umhugsunarefni jafnframt. Ég kemst ekki hjá því í umræðum um þetta frv. að ræða örlítið almennt um ríkisreksturinn og vil þá ekki síst beina orðum mínum til fjmrh. sem af stakri samviskusemi situr hér undir öllum þessum umræðum sem þó kunna að vera nokkuð misjafnar að mikilvægi.
     Það er alveg ljóst eftir 2. umr. fjárlaga að halli á ríkissjóði í þeim frv. sem nú liggja fyrir er um 4,5 milljarðar kr. Það er líka ljóst eftir þær umræður sem hér hafa farið fram að miðað við það sem þessu tryggingagjaldi er ætlað að skila og því að menn virðast almennt horfnir frá hafnamálagjaldi sem gert er ráð fyrir í frv., þá verða tekjur frv. um 1,6 milljörðum minni en þar er gert ráð fyrir. Samanlagt mundi þetta tvennt valda halla á ríkissjóði sem næmi rúmlega 6 milljörðum kr. Þá á að vísu eftir að fara fram nokkurt endurmat á tekjum frv. sem úr því muni draga aftur og vafalaust færa þennan halla niður í kringum 5 milljarða. En 5 milljarða kr. halli er gríðarlega há upphæð þó að sú tala skeri sig ekki úr þeim halla sem ríkissjóður hefur verið með á undanförnum árum og jafnvel hefur hann verið hærri. Hér er þó um að ræða frv. og til þess að menn hafi dálítinn samanburð þá hygg ég að 5 milljarðar svari til 200 -- 300 einbýlishúsa eða húsabyggðar í dálitlu þorpi. Hér er því um mjög verulega fjármuni að ræða og þeir eru mér og vafalaust mörgum fleiri mikið áhyggjuefni. Ég held að fjmrh. geri sér fyllilega grein fyrir því að þessi halli verður ekki jafnaður með tekjuaukningu einvörðungu. Hann er meiri en svo. Hann er að verða það langbundinn inni í ríkissjóði að ekki verður hjá því komist að horfa miklu fastar á gjaldahliðina en gert hefur verið. Það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að skoða ríkiskerfið með víðtækan uppskurð og hagræðingu í huga. Þeim orðum vil ég mjög beina til fjmrh. að hann beini athygli sinni að gjaldahliðinni og þeim liðum.
    Ég vil í því sambandi vekja enn á ný athygli á till. til þál. sem fjórir þingmenn Framsfl. lögðu fram á síðasta þingi en ekki náði afgreiðslu. Þar var bæði í tillögugrein og greinargerð vakin ítrekað athygli á því að auknar tekjur verða ekki sóttar til fyrirtækja og almennings í þeim mæli að unnt sé að ná jöfnuði í fjármálum ríkisins. Það er þess vegna ekki verjandi annað en að hefja kerfisbundinn uppskurð ríkiskerfisins. Í það verður að leggja mikla vinnu. Það er engan veginn einfalt mál en það er mál sem er óhjákvæmilegt að takast á við.
    Tillögumenn þeirrar þáltill. sem ég hef nú nefnt lögðu áherslu á ein sjö atriði sem ég vil í örstuttu máli vekja athygli á.
    Í fyrsta lagi að starfsmarkmið ríkisstofnana verði endurmetin og þau markmið sem lögð eru til grundvallar við reksturinn verði þannig skilgreind að nýju

og afnumin sjálfvirkni í útgjöldum. Þarna er auðvitað um að ræða atriði sem verður að vinnast í samvinnu við forstöðumenn viðkomandi stofnana og hér er um að ræða vandasamt verkefni. Við lögðum jafnframt áherslu á að skoðað verði í hve miklum mæli megi sameina stofnanir, einfalda starfsemi og koma hagræðingu við og að leggja megi niður stofnanir og fyrirtæki innan ríkisins þar sem fella má starfsemina undir aðrar stofnanir. Við lögðum áherslu á að sem flestar ríkisstofnanir fái sem sjálfstæðastan fjárhag og stjórnendur beri ábyrgð á að halda stofnunum innan fjárlagarammans. Fjmrh. hefur þegar lagt fram frv. sem miðar nokkuð í þessa átt, þ.e. heimilar einstökum stofnunum að gera kjarasamninga, og hygg ég að það sé skref sem fer mjög í rétta átt.
    Við flm. þessarar þáltill. lögðum jafnframt áherslu á að gerð yrði úttekt á ýmsum þáttum í rekstri ríkisstofnana sem bjóða mætti út og haldið verði áfram að huga að sölu á ríkisfyrirtækjum. Við lögðum áherslu á að reyna að koma því við að verkaskipting starfsmanna verði ekki eins afmörkuð og nú er. Þar gæti ég trúað að einmitt það frv. sem ég vitnaði til að fjmrh. hefur lagt fram gæti haft veruleg áhrif.
    Við lögðum áherslu á að stjórnkerfi ríkisstofnana verði gert virkara og við það miðað að stjórnendur geti auðveldlega lagað reksturinn að fjárlögum. Jafnframt lögðum við áherslu á að þess yrði freistað að fara svipaða leið og Danir hafa í sínum þrengingum verið að leggja til, þ.e. að ríkisstarfsmönnum verði fækkað um 1,5 -- 2% á næstu þremur árum.
    Eins og ég sagði áðan varð þessi tillaga ekki útrædd. Hún stöðvaðist í nefnd og náði ekki afgreiðslu. Ég hygg þó að hér sé aðeins drepið á nokkur af þeim atriðum sem miklu máli skipta í þessu sambandi. Ég er alveg sannfærður um að fjmrh. hefur enn fleiri atriði í sínum huga og lætur sjálfsagt huga að enn fleiri atriðum varðandi uppskurð ríkiskerfisins. En ríkissjóður hefur á undanförnum árum verið rekinn með gríðarlega miklum halla. Ef dæma má af línuritum í fjárlagafrv. hefur hann þó heldur farið minnkandi en hitt á síðustu árum en hann er auðvitað of mikill. Við það verður ekki búið. Hér er um gríðarlega háar tölur að ræða og ég held þess vegna að eitt allra brýnasta verkefnið í efnahagslífi íslensku þjóðarinnar í dag sé einmitt uppskurður á ríkiskerfinu og það verkefni að ná tökum á halla ríkissjóðs. Kannski er einmitt þar innbyggð sú tímasprengja sem hættulegust kann að reynast í jafnvægi sem þó hefur tekist að skapa í okkar efnahagslífi á undanförnum missirum. Hér er vissulega um langtímaáætlun að ræða, að einfalda ríkiskerfið og skera það upp. En jafnframt verða alþingismenn að gera sér grein fyrir því að ekki er unnt að hengja stöðugt nýja pinkla á ríkissjóð. Menn verða að sameinast í því átaki að taka hér á.
    Ég ætla mér ekki í þessari ræðu að fara í einstaka liði eða nefna til einstök dæmi. Ég get þó nefnt það að mér hefur oft orðið það umhugsunarefni til að mynda varðandi menntakerfið að Íslendingar ljúka stúdentsprófi ári síðar en flestir erlendir jafnaldrar þeirra. Það hlýtur að beina hug okkar að því hvort

unnt sé að stytta með einhverju móti námstíma fram að stúdentsprófi á Íslandi um eitt ár. E.t.v. gæti þar leynst dálítið átak. Stundum hefur verið sagt um íslenska menntakerfið að megingalli þess sé sá að þar sé of mikið kennt en of lítið lært.
    Ég er alveg viss um það að þau átök sem menn einhenda sér í nú varðandi aukna samvirkni stóru sjúkrahúsanna, til að mynda í Reykjavík, með einhvers konar skipulagðri þróunarstjórn sem samræmir verkaskiptingu og átak á milli þeirra og nýtingu getur leitt til verulegs sparnaðar. En einmitt í framhaldi af þeirri umræðu sem hér fer fram um auknar tekjur til ríkisins, í þeim vanda sem ríkissjóður óneitanlega er, vil ég enn á ný vekja athygli fjmrh. á því að hjá því verður ekki komist að líta berum augum á gjaldahliðina og menn verða að ná samstöðu um það að einhenda sér í það að skera ríkiskerfið upp og ná þar aukinni hagræðingu.