Tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ekki veit ég nú hvort á að taka alvarlega þá rispu sem hv. 1. þm. Suðurl. tók hér í stólnum og þennan skyndilega áhuga hans á kjörum kvenna. Ég vil strax leiðrétta þann misskilning að ég hafi tengt þetta frv. nokkuð hag kvenna eða lýst mig samþykka innihaldi frv. vegna þess að það væri svo kvenvinsamlegt. Það er langt því frá. En hitt er athyglisvert hver orð hann velur þegar hann kaus að kalla það ,,móralska hugleiðingu``.
Það er sérkennilegt að ef minnst er á --- og nú vil ég biðja hv. 1. þm. Suðurl. að hlýða á orð mín --- það er sérkennilegt að ef talið berst hér að konum, heimilum, fjölskyldu eða börnum, þá skuli það vera kölluð ,,mórölsk hugleiðing``. Í þeim orðum liggur viss merking. Það er svona nokkuð hlægilegt að flytja móralskar hugleiðingar, það er gjarnan þröngsýnt, vandlætingarfullt fólk sem það gerir. Við notum þessi orð a.m.k. í þeirri merkingu, og tilefni mitt til þessarar ,,mórölsku hugleiðingar`` var einmitt að ég var að lýsa söknuði yfir því að konur þessa lands, sem eru meira og minna ábyrgar fyrir heimilum og fjölskyldum þessa lands, skyldu aldrei eiga sér nokkurn málsvara þegar kemur að skattabreytingum eða öðru sem varðar kjör þeirra.
    Þó að nú komi atvinnugreinar til með að greiða launaskatt, ef þetta frv. nær fram að ganga, sem áður gerðu það ekki, þá eru það ekki nokkur rök fyrir hækkuðum eða lækkuðum eða sömu launum kvenna. Ég þekki þess engin dæmi að undanþágur sem ríkið hefur veitt af einhverju tagi hafi komið konum til góða í formi launahækkana. Ég vil minna á það að árið 1986 voru fiskvinnsla og iðnaður undanþegin þessu skatti. Það var í stjórnartíð Sjálfstfl. Voru þeir peningar sem þá losnaði um notaðir til þess að bæta laun kvenna í iðnaði og fiskvinnslu? Nei, ónei. Svo þetta er hræsnin ein og til þess eins gert að reyna að tengja með einhverjum hætti Kvennalistann við núv. ríkisstjórn. Hefur Sjálfstfl. ekkert hugsað sér að reyna stjórnarmyndun í vor? Eða vilja þeir það ekki og segja þess vegna endilega að núv. ríkisstjórn ætli að sitja áfram með hjálp Kvennalistans? Er það til þess að firra sig sjálfa þeirri ábyrgð að þurfa hugsanlega að standa að stjórnarmyndun? ( Gripið fram í: Er þetta bónorð?) Nei, ég er bara að hvetja formann Sjálfstfl. til dáða. Ég ætla að vona að hann gefist ekki upp fyrir kosningar.
    Konur eiga ekki að þurfa að eiga kjör sín undir því hvort atvinnugreinar eða fyrirtæki njóti undanþága eða ívilnana frá ríki eða hinu opinbera. Það eiga þær að fá vegna vinnu sinnar og vegna þess verðmætis sem þær skapa í þessu þjóðfélagi og það að konur hafa ekki getað sótt sér þau laun sem þeim ber, það er hugmyndafræði. Það hefur ekkert með ívilnanir að gera. Það hefur heldur ekkert með móralskar hugleiðingar að gera. Það er hugmyndafræði og það er hún sem þarf að breyta og hv. þm. ætti að taka til í eigin búi og reyna að bæta sína eigin hugmyndafræði og það strax.

    Það er athyglisvert að hv. 1. þm. Reykv. lýsti sig líka samþykkan innihaldi frv. Því vændi hv. 1. þm. Suðurl. ekki samflokksmann sinn um kvenfjandsamleg sjónarmið eða ber honum alls ekkert að bera hag kvenna fyrir brjósti? Er það allt í lagi þó karlmenn sveifli sér eins og Tarsan á milli trjánna og taki bara ekkert eftir aumingja Jane sem liggur niðri í skógarbotninum? Það er bara alls ekkert þeirra mál. En það á auðvitað að vera okkar mál. Þið komið alltaf upp um ykkur, þetta er nefnilega bara okkar kvennanna mál, þetta eru ekkert ykkar mál nema þegar þið reynið að slá ykkur upp á því í ræðustól.
    Fyrir tveimur árum síðan var efnt til mikillar hagræðingar m.a. í sjávarútvegi. Það er mál manna að sú hagræðing hafi víða tekist allvel og átt sinn þátt í því að þar hefur nú dæminu verið snúið við og afkoman miklu betri en hún var. Hvernig skilaði það sér til kvenna? Í stórlækkuðum kaupmætti. Það var nú árangurinn af þeirri hagræðingu. Ég skora á hv. þm. að koma hér í ræðustól og nefna eitt einasta dæmi um þetta, að konur hafi notið góðs af ívilnunum, undanþágu, hagræðingu, sparnaði eða hvaða nafni sem þið viljið nefna það. Hann getur ásakað mig eða hvaða þingmann Kvennalistans sem er um kvenfjandsamleg viðhorf en hann skyldi svo sannarlega standa betur fyrir máli sínu og hugsa sig vel um áður en hann gengur í þennan stól aftur.