Samvinnufélög
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það mál sem hér er á dagskrá er viðamikið og fagnaðarefni í raun að þetta frv. er komið fram. Það byggist á mikilli vinnu nefnda sem hafa starfað að þeim málum allan síðasta áratug, ef svo má segja. Það vill nú svo til að það kemur fram á dögum sem miklar og mjög veigamiklar skipulagsbreytingar eru í starfi samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi, þ.e. hjá Sambandi kaupfélaganna eða Sambandi ísl. samvinnufélaga. Þeirri starfsemi er verið að breyta í takt við kröfur tímans og í þeirri von að hún verði skilvirkari og það verði auðveldara að ná inn eigin fjármagni í samvinnuhreyfinguna og til samvinnurekstrar í landinu og gera samvinnuhreyfinguna hæfari til þess að veita eðlilega samkeppni til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Hins vegar hefur skort á að þeirri heildarlöggjöf sem er um samvinnufélög og var samþykkt árið 1937, og hefur lítilega verið breytt í smáatriðum síðan, væri breytt í samræmi við breytingar í þjóðfélaginu og þær kröfur sem gerðar eru til rekstrar.
    Þetta frv. miðar að því að viðhalda samvinnufélagsforminu og í því eru veigamikil nýmæli, einkum í VII. kafla þess sem fjallar um heimild samvinnufélaga til að setja í sínar samþykktir ákvæði um B-deild stofnsjóðs. Þetta ákvæði á að auðvelda kaupfélögunum að ná inn fjármagni í sína starfsemi en nokkuð hefur skort á að það væri mögulegt undir þeirri löggjöf sem gilti og gildir um samvinnufélögin nú.
    Það er í raun ekki ástæða til að lengja umræður mjög mikið á þessum annríku dögum þingsins áður en þetta mál fer til nefndar. Það verður að sjálfsögðu skoðað rækilega í hv. fjh.- og viðskn. en eigi að síður er málið þess eðlis að ekki er eðlilegt að það fari til nefndar án nokkurrar umræðu. Hér er verið að samræma í rauninni samvinnulögin að nokkru hlutafélagalögunum þannig að það sé jafnræði þar á milli. Hlutafélagalögunum hefur verið breytt og um þau er ný löggjöf. Sannleikurinn er sá að þróunin hefur verið sú að hlutafélagsformið hefur verið ráðandi í nýjum atvinnugreinum og rekstri í landinu og samvinnufélögin hafa í ríkum mæli verið þátttakandi í hlutafélögum með öðrum aðilum.
    Þetta frumvarp byggist á því að þarna er kostur á því að viðhalda samvinnufélagsforminu áfram og veita samkeppni undir því rekstrarformi við hlutafélög í sömu greinum. Það eru möguleikar á því að styrkja þessi félög með eigin fjármagni. Rekstur hlutafélaga er ekki nýr í samvinnuhreyfingunni. Í rauninni á rekstur hlutafélaga í stærri stíl í þeirri hreyfingu um 50 ára sögu og sá rekstur hefur ætíð verið umdeildur. Samvinnumenn vilja ekki leggja samvinnufélagsformið fyrir róða þannig að hlutafélögin verði alls ráðandi í þessari starfsemi. Þó Sambandi ísl. samvinnufélaga sé nú skipt upp í hlutafélög þá eru kaupfélögin í landinu með samvinnufélagsforminu og það er vilji þeirra sem þar eru í forsvari að það form geti ríkt í þeirra rekstri áfram. Vonandi verður þessi löggjöf samþykkt en nauðsynlegt er að hún fái samþykki til þess að svo

megi verða.
    Í frv. er gert ráð fyrir að starfsemi innlánsdeilda kaupfélaga verði breytt og það verði heimildir til þess að stofna sparisjóði og gefin til þess ákveðinn frestur sem var lengdur frá því sem nefndin sem fjallaði um málið lagði til. Ég á von á því að sú muni alveg eins verða þróunin að bankakerfið muni með samningum yfirtaka innlánsdeildir. Sú þróun hefur hafist og það er nauðsynlegt að aðlögunartími sé veittur til að sinna þessum málum, sinna þessum skipulagsbreytingum. En þessi mál eru viðkvæm og það þarf tíma til þess að koma þar á breyttu skipulagi. Ég hefði reyndar kosið að mál hefðu skipast þannig að hægt væri að reka innlánsdeildirnar áfram en ég er sannfærður um að það er hægt að koma því máli fyrir með samningum sem tryggja það fjármagn sem þarna er geymt fyrir viðskiptavini samvinnufélaganna. Þessi þáttur er mjög merkur í starfi kaupfélaganna en það er eins með þennan þátt og annað að hann er ekki óforgengilegur. Það verður að breyta honum í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.
    Ég vona að þetta frv. fái ítarlega skoðun hjá hv. fjh.- og viðskn. Ég tel að það sé nauðsynlegt og beri til þess brýna nauðsyn einmitt á þessum tímum þegar miklar breytingar eru í starfsemi samvinnufélaganna og sérstaklega hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga að fá nýja löggjöf sem gerir m.a. kaupfélögunum kleift að hefja nýja sókn undir samvinnufélagsforminu. Ég tel það þessari þjóð fyrir bestu að það form rekstrar og sú hugsjón sé við lýði áfram og það veiti eðlilega samkeppni og aðhald hér í landinu.