Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Herra forseti. Hv. 6. þm. Vesturl. hefur eiginlega tekið af mér ómakið því hún kom inn á þau atriði sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á í umræðum um þetta frv. Frá mínu sjónarmiði fer ekki á milli mála að hér er sett fram merkileg hugmynd um fjáröflun til styrktar öryggismálum og ekki fer á milli mála að því fé er vel varið sem varið er til kaupa á björgunarþyrlu.
    Það er ákaflega þýðingarmikið í öllum öryggismálum þjóðarinnar að hafa sem samhæfðasta stjórn þeirra mála. Ég vek athygli á því að ég ásamt fleirum hv. þm. hef lagt fram á þessu þingi þáltill. um samhæfingu á yfirstjórn öryggismála í landinu. Það er mjög víðtækt mál og það sem hér er um að ræða snertir það þó að efni til. Með því að svo er vildi ég gera líka að minni fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvernig standi á því að Slysavarnafélag Íslands og Landssamband hjálparsveita skáta eru ekki með í þessu frv. Þetta er sama spurning og hv. 6. þm. Vesturl. lagði fyrir ráðherra. Ég vildi bæta við spurningu og hún er á þessa leið: Hafði hæstv. ráðherra ekkert samband við þessa frumvarpsgerð við þessa aðila, Slysavarnafélag Íslands og Landssamband hjálparsveita skáta?
    Ef svo hefur ekki verið þykja mér það harla einkennileg vinnubrögð og kalla á það að nefnd sú sem fær þetta mál til meðferðar athugi sérstaklega hvort þessi samtök, Slysavarnafélag Íslands og Landssamband hjálparsveita skáta, hafi áhuga á því að vera með í þeim aðgerðum sem frv. þetta gerir ráð fyrir. En jafnvel þó að hæstv. ráðherra hafi fyrir fram talað við þessi sérstöku samtök, Slysavarnafélag Íslands og Landssamband hjálparsveita skáta, áður en þetta frv. var lagt fram og við undirbúning að frv. þessu, þá tel ég það nauðsynlegt, eins og málið hefur hér birst, að sú nefnd sem tekur það til meðferðar athugi sérstaklega það sem ég hef hér bent á. Ég vildi þegar við 1. umr. koma þessu hér á framfæri vegna þess að ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem málið kemur til.