Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Hér er nú hið furðulegasta mál til umræðu. Sjálfur hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir að málið sé til athugunar og ekki nema hálffrágengið eða svo. Það sé til skoðunar að fleiri aðilar kæmu að þessari fjáröflun. Sjálf fjáröflunin er mjög nýstárleg líka, þ.e. að ríkisvaldið ætlar að hafa hönd í bagga með sérstöku happdrætti í staðinn fyrir að það sé sjálfstætt á vegum einhverra tiltekinna samtaka.
    Það er alveg ljóst að það sem hér er verið að gera er að reyna að létta byrðum af ríkinu því auðvitað á ríkissjóður að kosta þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Það er augljóst mál að ef það er eitthvað sem við eigum að taka úr ríkissjóði þá er það styrking Landhelgisgæslunnar í þeirri miklu baráttu sem við eigum í í sambandi við landhelgismál enn þá. Það er eins og menn geri sér ekki grein fyrir því að við erum alls ekki búnir að sigra í landhelgismálum. Við þurfum að fara að gæta réttar okkar, bæði á Rockall-svæði, Reykjaneshrygg og víðar, og styrkja Landhelgisgæsluna.
    Það er auðvitað hægt að taka hvert einasta mál sem er þurfamál og búa til happdrætti úr því og létta öllum útgjöldum af ríkissjóði. Þetta er bara eitt af platinu sem verið er að framkvæma hér á hverjum einasta degi og oft á dag. En þetta mál er sérstakt að því leyti til að ráðherrann sjálfur sem flytur það lýsir því yfir að málið sé alls ekki tilbúið til flutnings. Ég skora þess vegna á ráðherrann ef hann getur hlustað. Getur ráðherrann nú hlustað? Það er áskorun mín að ráðherra reyni ekki að knýja á það að þetta mál fari lengra en til þessarar umræðu. Ég er ekki reiðubúinn að vísa því til neinnar nefndar eða til frekari skoðunar á þessu stigi. Það er nærri því ósvífið að ætlast til þess af okkur hv. þm. á síðustu dögum þingsins miðað við þær annir sem eru og upplausn í þinginu að taka slíkt mál yfirleitt á dagskrá. Ég var að vona að hæstv. forseti mundi alls ekki gera það. En það er komið til umræðu og ég skora nú á hæstv. ráðherra að knýja ekki á um það að málið gangi til atkvæða um að vísa því til nefndar og 2. umr. Ég a.m.k. er andvígur því. Það má vel bíða í tvær eða þrjár vikur og flytjast þá sem fullmótað frv. úr því að ráðherrann sjálfur er búinn að lýsa því yfir að það sé alls ekki mótað og þetta er í raun hið fáránlegasta atferli.