Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Út af þessum orðum sem hér hafa fallið þá vil ég ítreka það að ég tel mjög eðlilegt að um þetta sé fjallað nánar í þingnefnd og síðan unnið áfram í þinginu. Stundum er því haldið fram að framkvæmdarvaldið gangi inn á verksvið löggjafarvaldsins. Hér er hins vegar dæmi um mál þar sem löggjafarvaldið fær alveg frjálsar hendur til þess að fjalla um málið og leggja sínar línur.
    Að öðru leyti vil ég segja þetta um það sem kom fram í máli hv. 8. þm. Reykv. um að ríkisvaldið væri að reyna að velta af sér fjárhagsbyrðum. Það má út af fyrir sig segja það. Það er verið að leita leiða, eins og ég hygg að fordæmi séu nú nokkur fyrir í okkar sögu, að leitað sé á önnur mið en einungis í ríkissjóð þegar um mikilsverð þjóðþrifamál er að ræða eins og óneitanlega það er að halda hér uppi dýrum, vel búnum þyrluflota sem skiptir þessa þjóð mjög miklu máli og ekki síst þá atvinnugrein í þessu landi sem allt okkar líf að öðru leyti byggist á. Mér finnst líka eðlilegt að þingið fái í svona máli tækifæri til þess að búa svo um hnútana sem það telur best og í sem mestum friði fyrir framkvæmdarvaldinu. Þess vegna legg ég á það áherslu, hæstv. forseti, að málið fái hér þinglega meðferð og vandaða.