Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Þetta frv. lætur lítið yfir sér, það er einungis tvær greinar. En samt sem áður er þetta frv. mjög --- ég vil segja hættulegt vegna þess að bæði með þessu frv. og með afgreiðslu lánsfjárlaga og fjárlaga fyrir einu ári var farið inn á mjög nýja stefnu í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er svo að til þess að Lánasjóður ísl. námsmanna geti staðið við sínar skuldbindingar og ekki komi upp það sem kallað er uppsafnaður vandi í Lánasjóði ísl. námsmanna, er nauðsynlegt að ríkisframlag á hverju ári nemi 60% af ráðstöfunarfé sjóðsins en lánsfé sé um 40%. Ef tekið er meðaltal af árunum 1980 -- 1989 var framlag úr ríkissjóði til Lánasjóðs ísl. námsmanna 60 -- 62% á ári.
    Á sl. ári var með fjárlögum ákveðið að lækka þetta framlag úr ríkissjóði svo að þá var gert ráð fyrir 55% ríkisframlagi en 45% lántöku. Með því að hér er lagt til að fjármagna sjóðinn með 450 millj. kr. lántöku til viðbótar hefur þetta hlutfall lækkað niður í 50% og á þessu ári er svo komið að hlutföllin hafa snúist við, eingöngu 40% af ráðstöfunarfé sjóðsins er fjármagnað með framlagi úr ríkissjóði en 60% eru tekin að láni. Hér er með öðrum orðum verið að byggja upp enn eitt vandamálið. Það er verið að taka lán til framtíðarinnar og ef við horfum fram í tímann sjáum við að ekki líður á löngu áður en fjárreiður Lánasjóðs ísl. námsmanna verða komnar í sama óefnið og nú er með lífeyrissjóðina og Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Þeir þingmenn sem sérstaka ábyrgð bera á þessu auk hæstv. fjmrh. og hafa lagt blessun sína yfir þessa þróun með nál. á þskj. 347 eru Jóhann Einvarðsson, hv. 8. þm. Reykn., Skúli Alexandersson, hv. 4. þm. Vesturl., og Eiður Guðnason, hv. 3. þm. Vesturl.
    Það væri fróðlegt ef einhver þessara þremenninga mundi kveðja sér hljóðs hér við umræðuna og skýra afstöðu sína til Lánasjóðsins, hvort þeir telji þessa þróun góða eða æskilega. Þetta ríkisframlag, 60%, samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir því að það dugi til að standa undir vöxtum og lánsfjárkostnaði á komandi tímum. Hér er verið að skekkja hlutfallið, með því er verið að taka lán til framtíðarinnar, þarna er dulinn ríkissjóðshalli sem þessu nemur og á vitaskuld að bætast við hinn botnlausa halla sem ríkissjóður er í undir forustu hæstv. fjmrh.
    Ef við tökum hina klassísku sjóði, Byggingarsjóð ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna, lífeyrissjóðina og Lánasjóðinn, þetta sem svo oft hefur verið talað um hér í þinginu, þá sjáum við að á öllum þessum stöðum er fjmrh. mjög óábyrgur í afstöðu sinni og geispar af leiðindum þegar hann er spurður að því hvernig koma megi þessum sjóðum til hjálpar.
    Ég hlýt, herra forseti, að vekja sérstaka athygli á því að það dróst um viku nú fyrir jólin að hægt yrði að afgreiða lán til námsmanna erlendis. Það var um 2000 manns að ræða, um 200 millj. kr. Þetta var auðvitað mjög bagalegt fyrir ýmsa þá sem búa við erfiðar aðstæður. Þeir sem eiga sterka að bjargast auðvitað þó ein vika líði en það eru hinir sem eru einir eða

eiga ekki mjög sterka að sem geta lent í erfiðleikum erlendis. Það er auðvitað mjög mikill ábyrgðarhluti og nánast óafsakanlegt af ríkisstjórn að halda þannig á málum að greiðslur Lánasjóðsins til stúdenta erlendis standist ekki. Námsmenn hafa gert samninga bæði í sambandi við húsaleigu, í sínum bönkum og annars staðar sem þeir þurfa að standa við, þannig að það er mjög ámælisvert hvernig fyrir þessum afgreiðslum fór.
    Við spurðum að því í fjh.- og viðskn. hvernig á þessu stæði og fengum þau svör frá fulltrúum Lánasjóðs ísl. námsmanna að allar áætlanir Lánasjóðsins hefðu staðist en á hinn bóginn hefði komið í ljós að krot Hagsýslunnar í þessar áætlanir hefði ekki reynst á rökum reist. Það gleymdist að áætla fyrir 500 námsmönnum. Auk þess kom það til sem auðvitað hefði verið hægt að segja sér fyrir fram að tekjur námsmanna á sl. sumri voru minni en áður og minni en menn höfðu gert ráð fyrir.
    Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Þetta frv. sýnir okkur að ríkisfjármálin hafa farið úr böndunum á þessu ári, hið sérstaka dæmi um Lánasjóð ísl. námsmanna sýnir okkur hversu óvandvirk vinnan við fjárlagagerðina er og kemur auðvitað mjög til álita hvort ekki sé nauðsynlegt að setja ríkisreikning upp með öðrum hætti þannig að alþingismenn eigi auðveldar með að sjá þegar ráðherrar beita kúnstum eins og þessum til að fela eigin vesaldóm. Við sjálfstæðismenn getum auðvitað ekki annað en látið afgreiðslu þessa frv. afskiptalausa. Við erum hér að fjalla um orðinn hlut og það fer best á því að þeir sem bera ábyrgðina rétti upp höndina til þess að samþykkja þessar nýju lántökur ríkissjóði til handa.