Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjh. - og viðskn. (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Herra forseti. Ég vil gera grein hér fyrir nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um þingmál 214, þ.e. þá viðbót við lánsfjárlög fyrir árið 1990 sem hér er verið að ræða um.
    Okkur furðar mjög það óraunsæi sem réði þegar verið var að áætla um fjölda þeirra námsmanna sem mundu þurfa á lánum að halda úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Á sama tíma og atvinnuleysi eykst í landinu er öruggt mál að stúdentum fjölgar vegna þess að ýmsir þeir sem annars væru úti á hinum almenna vinnumarkaði sækja inn í nám til þess bæði að bæta stöðu sína og hafa viðfangsefni og fá þá fé, annaðhvort lán eins og í þessu tilfelli eða laun fyrir. Þessu hefði ríkisstjórnin átt að gera sér grein fyrir. En í staðinn fyrir að fara eftir áætlunum sjóðsins var skorin niður áætlunin um 500 námsmenn. Þetta er mikið óraunsæi og eiginlega furðulegt þegar atvinnuástandið er eins og það nú er í landinu þó það sé ekki eins slæmt og víða annars staðar.
    Einnig furðar mig það að þær skammtímaskuldir við Seðlabankann, þessir 2 milljarðar, sem þarf að greiða nú á haustdögum 1990, skuli ekki hafa verið inni í greiðsluáætlun ríkissjóðs vegna þess að þeir geta ekki hafa gleymt 2 milljörðum, svo mikla gleymsku er ekki hægt að ætla nokkurri manneskju.
    Að öðru leyti get ég tekið undir flest það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. og fulltrúi 2. minni hl. fjh.- og viðskn. sagði í sínu máli um þessa breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1990 sem nú er til umræðu.