Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 348 frá meiri hl. fjh. - og viðskn. um frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga. Nál. er stutt og er á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og mælir meiri hl. hennar með samþykkt þess án breytinga.``
    Undir þetta rita Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Skúli Alexandersson, Eiður Guðnason og Guðrún J. Halldórsdóttir en tveir þingmenn, Eyjólfur Konráð Jónsson og Halldór Blöndal, hafa ákveðið að skila minnihlutaáliti og hljóta að gera grein fyrir því hér á eftir.
    Í þessu frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga felst einkum tvennt: Í fyrsta lagi er um að ræða endurgreiðslu til eigenda íbúðarhúsnæðis á virðisaukaskatti sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Hins vegar er um það að ræða að afnema virðisaukaskatt á bókum.
    Þessar breytingar voru ákveðnar í kjölfar þess að ótti var á að þjóðarsáttin svokallaða mundi ekki halda og hækkanir kæmu til framkvæmda með þeim hætti að hér mundi allt fara í bál og brand. Tók þá ríkisstjórnin þá ákvörðun að fresta þessum liðum eða fella þá niður til að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins. Þarna er um verulega breytingu að ræða og lækkar m.a. framfærslugrunn um 0,5% en hefur hins vegar í för með sér 200 -- 250 millj. kr. tap fyrir ríkissjóð. Þarna er um það að ræða að gera byrði þjóðfélagsþegnanna léttbærari og er ég sammála því að þessar breytingar komist til framkvæmda, sérstaklega að því er varðar fyrri liðinn um að afnuminn skuli virðisaukaskattur á bókum, enda kemur það mjög greinilega fram núna í jólaönninni að bækur eru töluvert meira keyptar heldur en áður.