Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þegar virðisaukaskattur var hér til umræðu á síðasta þingi fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um það að virðisaukaskattur yrði felldur af bókum frá 1. sept. Við færðum þau einföldu rök fyrir því að skólabörn kæmu þá saman og okkur þætti ósiðlegt að vera að nota síðustu daga virðisaukaskatts af bókum til þess að reyna að ná sumarpeningunum af skólakrökkunum, af unglingunum sem voru að fara í framhaldsskólana og af því fólki sem var að reyna að mennta sig í háskólum og Kvennalistinn studdi okkur mjög dyggilega í þessu máli eða við Kvennalistann, hvernig sem við horfum á það mál, því að við vorum algerlega samstiga í því.
    Það var svo ekki okkur að kenna að þeir sem skipa meiri hluta hér í Alþingi greiddu atkvæði gegn okkar tillögum, felldu það að virðisaukaskattur skyldi falla niður af bókum hinn 1. sept. í staðinn fyrir 16. nóv. Það orkar auðvitað tvímælis að það sé í samræmi við rétt lög í landinu að síðan sé hlaupið til og gefin út bráðabirgðalög um sumarið til þess að breyta ákvörðun Alþingis. Það lá fyrir jákvæður vilji meiri hluta Alþingis um það að þingmennirnir sem skipa meiri hlutann vildu láta unglingana greiða virðisaukaskattinn af bókunum. Það lá alveg skýrt fyrir. Það voru greidd atkvæði um það bæði í Ed. og í Nd. Það er síðan af einhverjum öðrum ástæðum sem hæstv. fjmrh. snerist hugur og kom í bakið á þeim stuðningsmönnum sínum hér á Alþingi. Ég er ekkert viss um að þetta standist stjórnarskrána. Þetta er a.m.k. afskræming á stjórnarskránni og alveg ljóst að þau ákvæði um brýna nauðsyn sem eru í aðdraganda bráðabirgðalaga eiga ekki við þetta tilvik. Við sjálfstæðismenn á hinn bóginn munum að sjálfsögðu greiða þessu atkvæði eigi að síður. Þessi breyting er orðin. Þess vegna mætti þetta frv. daga uppi gagnvart virðisaukaskatti af bókum. Það mundi engum efnisatriðum breyta. Það er á hinn bóginn siðlaust af meiri hluta Alþingis að haga sér með þessum hætti.
    Þau áhrif sem þessi lækkun á bókaverði hafði á vísitöluna eru áætluð 16%.
    Síðari hluti frv. felur það í sér að virðisaukaskattur verði endurgreiddur af vinnu við viðhald og endurbætur íbúðarhúsa. Sú breyting er einnig í samræmi við skoðun okkar sjálfstæðismanna og tillögur á síðasta þingi. Ég hef að vísu ekki sannfæringu fyrir því að rétt sé að flækja málið með því að eigendur íbúðarhúsa þurfi að ómaka sig til hins opinbera til þess að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan. Það hefur auðvitað í för með sér skriffinnsku, ónæði og amstur og er í ætt við forsjárhyggjuflokka að haga sér með þeim hætti. Hvort sem forsjárflokkurinn heitir Alþb., Alþfl., Framsfl. eða Borgfl., þá skiptir það nú ekki öllu máli. Það er um að gera að gera íbúunum ómak og ónæði ef hægt er. Auðvitað væri einfaldara að hafa þetta eins og áður var að undanþiggja þessa vinnu virðisaukaskattinum eins og var um söluskattinn þannig að endanlegan reikning væri hægt að gera upp

við iðnaðarmanninn og ekki kæmi til endurgreiðslu. Áætluð áhrif af þessu eru 0,4% og það er gert ráð fyrir því að þetta tvennt valdi 0,56% lækkun á verðbólgu, bæti sem sagt kjör almennings um þá hlutfallstölu.
    Við sjálfstæðismenn styðjum vitaskuld efnisatriði þessa frv. Við gerðum það á síðasta þingi. Okkur hefði fundist óþarfi að senda málið hingað inn aftur. Nær hefði verið að ríkisstjórnin hefði byrjað að hugsa fyrst en það má þó segja að í þetta skipti hafi henni tekist þótt hægt færi að komast að réttri niðurstöðu sem er engan veginn alltaf.