Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé kannski ekki alveg eðlilegt að spyrja nefndarmenn í þingnefndum að því hvernig framkvæmd laga skuli vera í einstökum smáatriðum. Eins og þetta kemur mér fyrir sjónir og ég held okkur flestum í félmn. ef ekki öllum þá er það svo að við ákváðum sl. vor að íbúðir í félagslega íbúðakerfinu skyldu vera stimpilgjaldsfrjálsar. Það sem við erum að gera núna er að leiðrétta það misræmi sem upp kom þar sem láðist að taka inn framkvæmdalán vegna þessara íbúða í félagslega íbúðakerfinu sem síðan breytast í lán til einstaklinga við lokafrágang lánsskjala og þá er í raun búið að ganga gegn lögum að vissu leyti, þ.e. það er búið að borga stimpilgjald af framkvæmdaláninu sem hækkar íbúðarverðið og kemur ekki til endurgreiðslu. Þetta er verið að leiðrétta með þessu.
    Hvað skeður þegar íbúðir breytast á byggingartíma eða í lok byggingartíma og færast þá úr hinu almenna lánakerfi yfir til félagslega íbúðakerfisins? Ég reikna með og segi það með öllum fyrirvörum að það hlýtur að ráðast af því á hvað forsendum framkvæmdalánið er veitt til framkvæmdaaðila á hverjum tíma hvort það er undanþegið stimpilgjaldi eða ekki. Ef það er veitt á þeirri forsendu að það sé verið að byggja íbúðir í félagslega kerfinu verður það undanþegið stimpilgjaldi að mínu viti. Ef ekki er búið að staðfesta að þetta verði félagslegar íbúðir og um framkvæmdalán til félagslegra íbúða sé að ræða þegar lánin eru veitt hljóta þetta að vera lán eftir hinu almenna íbúðakerfi og verður þá að greiða af þeim stimpilgjöld. Að sjálfsögðu má svo um það deila hvort borga eigi stimpilgjöld almennt af lánum í einum hluta byggingarkerfisins og ekki hinum. En Alþingi hefur tekið ákvörðun um að lán til íbúða í félagslega íbúðakerfinu skuli undanþegin stimpilgjaldi. Hvort þetta svarar hv. 2. þm. Norðurl. e. skal ég ekki fullyrða en í stuttu máli er þetta skoðun mín og hv. félmn. á þessu.