Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég hlýt að spyrja frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. hvaða sérstök rök liggi til þess að hann leggi til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Þetta mál er ekki nýtt af nálinni hér á Alþingi. Ég tók þetta mál upp í fyrirspurnatíma í Sþ. fyrir réttu ári. Það er nánast upp á dag ár síðan málið kom til umræðu í Sþ. og þá lýsti hæstv. fjmrh., sá sami og nú situr, því yfir að hann hefði ekki heimildir til þess að endurgreiða lántökugjaldið nema sérstakar lagaheimildir kæmu til. Ég tók þetta mál upp líka hér í deildinni á sl. ári og spurði hæstv. fjmrh. hvort hann væri enn sömu skoðunar, að hann skorti lagaheimildir til þess að geta endurgreitt lántökugjaldið. Ég held að það sé alveg ljóst að þau lög sem veittu slíkar heimildir eru fallin úr gildi og slíkar heimildir eru því ekki lengur fyrir hendi.
    Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að fella gjaldið niður þegar sú ákvörðun var tekin að endurgreiða lántökugjald vegna erlendra lána sem tekin voru vegna viðhalds eða meiri háttar endurbóta sem unnar voru í íslenskum skipasmíðastöðvum. Var þá fyrst og fremst um að ræða lánveitingar sem höfðu gengið gegnum Byggðasjóð af því sérstaka fé sem veitt hefur verið síðan Sverrir Hermannsson var iðnrh. til þeirra fyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa sótt þjónustu til íslenskra skipasmíðastöðva. Framkvæmd þeirra mála hefur verið í höndum Byggðastofnunar og ég veit ekki betur en embættismenn Byggðastofnunar hafi annast þá framkvæmd með þeim hætti að ekki hefur komið upp gagnrýni á störf þeirra. Það lántökugjald sem kom til af þeim sökum var endurgreitt, sumpart úr ríkissjóði. Ég hygg þó að Byggðasjóður hafi setið uppi með lítilfjörlegt tap af þeim sökum sem ekki er tiltökumál. Það voru lágar fjárhæðir sem skiptu ekki máli.
    Eins og þetta mál liggur nú fyrir eru einungis þrjú fyrirtæki skattlögð samkvæmt þessu sérstaka lántökugjaldi. Þessar greiðslur féllu til á tímabilinu frá 10. mars 1988 til 1. júní 1989. Þetta sérstaka lántökugjald vegna nýsmíða á téðu tímabili. Það er best að ég lesi allt bréfið upp, herra forseti, til að ekki valdi misskilningi. Bréfið er dags. 6. mars 1990 frá Sambandi málm - og skipasmiðja til fjh. - og viðskn. Ed. Alþingis og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samband málm - og skipasmiðja hefur móttekið bréf nefndarinnar, dags. 8. febr. sl., þar sem óskað er upplýsinga um lántökugjald vegna erlendra lána til skipasmíða innan lands á tímabilinu 10. mars 1988 til 1. júní 1989.
    Samkvæmt upplýsingum sem Samband málm - og skipasmiðja hefur aflað sér frá skipasmíðastöðvunum nemur umrætt lántökugjald vegna nýsmíða á téðu tímabili samtals 8.097.396 kr. sem skiptast á eftirfarandi hátt:
    Slippstöðin hf., Akureyri, 5.800.828 kr., Skipasmíðastöð Marsellíusar hf., Ísafirði, 1.736.651 kr., Vélsmiðja Seyðisfjarðar 559.917 kr. Samtals 8.097.396

kr.``
    Í bréfinu kemur fram að upphæð gjaldsins er skráð á verðlagi hvers tíma frá 8. mars 1988 til 2. maí 1989. Inni í þessari tölu eru að sjálfsögðu ekki vextir reiknaðir né verðbætur né neitt slíkt. Þetta sérstaka lántökugjald er í raun skattur á þessi fyrirtæki. Ég átti sæti í stjórn Slippstöðvarinnar á Akureyri þegar ákvörðun var tekin um það að hún réðist í smíði fiskiskips til þess að hægt væri að halda starfsemi stöðvarinnar áfram yfir veturinn. Ekki hefur tekist að selja þetta skip. Að vísu voru kaupendur fyrir hendi fyrir rúmu einu ári sem vildu kaupa skipið en þar sem ekki reyndist áhugi fyrir því í ríkisstjórninni að slík kaup færu fram og ekki stóðu þær yfirlýsingar sem gefnar voru um þau efni af einstökum ráðherrum, bæði skriflegar yfirlýsingar, munnlegar hér í þinginu og í einkasamtölum, fór svo að ekki varð úr sölu skipsins. Þessi fjárhæð, 5 millj. 800 þús. kr., fellur á Slippstöðina hf. á Akureyri með vöxtum og vaxtavöxtum.
        Skipasmíðastöð Marsellíusar hf., Ísafirði, hefur greitt 1 millj. 736 þús. Þessi fjárhæð fellur á Skipasmíðastöð Marsellíusar hf., Ísafirði, með vöxtum og vaxtavöxtum. Vélsmiðju Seyðisfjarðar hf. er gert að greiða 560 þús. kr.
    Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé siðlaust. Við vorum að fá upplýsingar um það í fjh. - og viðskn. fyrir tveim dögum að samkomulag hefði tekist um það erlendis að lækka nokkuð þann opinbera styrk sem veittur væri í löndum Evrópubandalagsins til skipasmíðastöðva. En engan veginn er fallið frá styrknum í heild sinni heldur er hann bundinn, ef ég man rétt, við 15 -- 20% þannig að samkeppnisaðilar þessara stöðva njóta enn ríkisstyrkja. Ef við förum til annarra landa, ég tala nú ekki um í Austur - Evrópu eða landa sem fjær eru, er þessi styrkur enn þá meiri og við þekkjum exportfinans-lánin í Noregi sem urðu til þess að létta mjög samkeppnisstöðu norsks skipasmíðaiðnaðar gagnvart íslenskum.
    Þegar ég lagði þetta frv. fram fyrir réttu ári hafði ég gert mér vonir um að ýmsir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hér í þessari deild mundu vilja leggjast á sveif með mér og létta þessum rangláta skatti af þessum fyrirtækjum. Ég hafði raunar orð einstakra þingmanna fyrir því að vilji hæstv. iðnrh. stæði til þess að það yrði gert. En af einhverjum undarlegum ástæðum snerist málið þannig í meiri hlutanum á Alþingi að honum fannst málið flóknara ef sérstök lagabreyting yrði til að koma heldur en ef heimildin til endurgreiðslunnar rúmaðist innan þeirra laga sem nú eru í gildi.
    Af sama toga er yfirlýsing fjh. - og viðskn. nú að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Það er einhver von um það að málið leysist af sjálfu sér og atbeini Alþingis þurfi ekki til að koma. Nú er það misskilningur. Það mál hefur verið athugað til fulls. Neitun fjmrh. liggur fyrir, staðföst. Það er búið að leita heimilda og þær eru ekki til í lögum. Þess vegna er spurningin núna: Hugsa menn sér að fella þetta frv. enn einu sinni? Hugsa menn sér að láta Slippstöðina hf. á

Akureyri sitja uppi með --- ja, hvað ætli þessi skuld sé í dag --- 8 -- 10 millj.? Halda menn að hinar skipasmíðastöðvarnar tvær sem eru minni í sniðum eigi léttar með að borga, önnur kannski 3 millj. og hin 1 millj.? Vélsmiðja Seyðisfjarðar er auðvitað minna fyrirtæki en Slippstöðin. Þess vegna eru 600 þús. kr. fyrir þá stöð líka stórkostlegir fjármunir.
    Ég átti tal við forstjóra Skipasmíðastöðvar Marsellíusar hf. á Ísafirði í sumar. Hann sagði mér frá því að nú væri svo komið fyrir þeirri stöð að hún ætti fullt í fangi með að geta haldið þeim fjölda iðnaðarmanna sem væri lágmark þess að hægt væri að veita þeim togurum sem í land kæmu lágmarksþjónustu þannig að þeir leituðu ekki annað til að fá lagfæringu, viðhald og annað þvílíkt sem ævinlega þarf að gera þegar togarar leita hafnar og menn þekkja.
    Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort þingmenn taka þetta mál nokkuð alvarlega. Ég held að mörgum stjórnarsinnum finnist þetta mál léttvægt. Ég held að þeim sé bara andskotans sama hvort þessi fyrirtæki greiði þessa peninga, það sé gott á þá, eitthvað svoleiðis. En mér finnst málið ekki liggja þannig fyrir. Fyrir mér er þetta mikið alvörumál. Þetta er ekki einungis spurning um þessi fyrirtæki. Þetta er líka spurning um það hvaða viðhorf Alþingi hefur til járniðnaðarins og skipasmíðaiðnaðarins í landinu í heild.
    Við vitum nú um þá miklu erfiðleika sem steðja að skipasmíðastöðinni á Akranesi og við vitum um þá miklu erfiðleika sem hafa steðjað að ýmsum öðrum skipasmíðastöðvum. Við vitum að svo er nú komið að æ færri leita eftir því að leggja járnsmíði fyrir sig í framhaldsskólum vegna þeirrar miklu óvissu sem er í kringum þá atvinnugrein. Við vitum að ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til þess að banna innflutning á fiskiskipum þó svo að fyrir liggi að skipastóllinn sé allt of stór. Eins og hæstv. iðnrh. sagði á sínum tíma: Það er sjálfsagt að útgerðarmenn notfæri sér það, á meðan þjónusta skipasmíðastöðva erlendis er greidd niður fyrir þá, að sigla en leita ekki til íslenskra aðila. Það er af þeim toga sem þessi árátta er, að halda dauðahaldi í þennan nauðungarskatt á þessum þrem skipasmíðastöðvum, einni á Vestfjörðum, einni á Austfjörðum, einni í Norðurl. e., láta þá þessar stöðvar blæða, og þá væntanlega í fullvissu þess að atvinnulífið standi svo vel á þessum sérstöku stöðum að hægt sé að leggja sérstakar byrðar á þau en á hinn bóginn sé rétt að hlífa fyrirtækjunum hér í Reykjavík og láta þau ekki taka sinn þátt í byrðinni ef á annað borð þykir nauðsynlegt að leggja þetta smáræði á þau fyrirtæki sem veita fiskiskipastólnum þjónustu hér á landi.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég þykist vita að stjórnarþingmennirnir greiði atkvæði samkvæmt línunni. Það er nú svo skrýtið að þó að losnað hafi um rauðu línuna í höfði þeirra hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. hefur sú skýra lína orðið þeim mun skýrari sem liggur á milli einstakra stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar þegar að því kemur að þyngja skatta og viðhalda óréttlátum sköttum í þessu þjóðfélagi.
    Herra forseti. Ég beindi ákveðinni fyrirspurn til formanns fjh. - og viðskn. Hann var hér inni þegar ég beindi fyrirspurninni til hans og ég óska eftir því að hann a.m.k. komi þá upp í ræðustólinn til að segja að hann hafi ekkert að segja, þannig að hann hafi tækifæri til að taka til máls við umræðuna.
    Herra forseti. Það er venja þegar frsm. mælir fyrir nál. og tillögu að hann svari einstökum fyrirspurnum sem fram koma. Ég vakti athygli á því hér áðan að hæstv. fjmrh. hefði lýst því yfir á síðasta þingi, ekki aðeins í Sþ. heldur líka þrásinnis hér í þessari deild að hann teldi sig ekki hafa heimildir til þess að endurgreiða þennan skatt með lögum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm.: Hvaða hugsun er á bak við það að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar? Hver er meiningin?
    Ég vil að þessu gefna tilefni óska eftir því að fá að ræða við hæstv. fjmrh. ( Forseti: Hæstv. fjmrh. er ekki hér í salnum.) Þá óska ég eftir því að þessari umræðu verði frestað þangað til færi gefst til að ræða við fjmrh. þó svo það verði síðar. Mér er þá meira í mun að málið megi þá dragast fremur en að fjmrh. sé ekki viðstaddur umræðuna.