Röð mála á dagskrá
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Ég hef oftar en einu sinni vakið máls á því hér á þinginu og lagt fram tvö mál þar sem gert er ráð fyrir því að þingmál séu afgreidd í þeirri röð sem þau berast. Hér í dag eru mál tekin fram yfir í röðinni. Hér er verið að óska eftir afbrigðum til þess að taka til 3. umr. mál sem eru með miklu hærri númer en mál sem ekki hafa enn þá verið tekin á dagskrá. Til þess að leggja áherslu á þá kröfu að farið verði eftir röð, að þingmál einstakra þingmanna verði ekki stöðugt látin víkja fyrir þingmálum ríkisstjórnarinnar, mun ég ekki taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu.