Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Eitt er það frv. hér á Alþingi sem ég hef sérstaka ánægju af að mæla fyrir. Það er frv. sem ég mæli fyrir nú. Ástæðan er sú að þetta er eina frv. sem ég á sameiginlegt með þeim fyrirrennurum mínum Tómasi Árnasyni, núv. seðlabankastjóra, Sighvati Björgvinssyni, núv. formanni fjvn., Ragnari Arnalds, hv. þm., Albert Guðmundssyni, núv. sendiherra, Þorsteini Pálssyni, hv. þm., og Jóni Baldvini Hannibalssyni, núv. hæstv. utanrrh.
    Þetta er frv. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem hefur verið árviss gestur hér í þingsölum síðan 1978 og mikið verið um rætt. Ég mæli hér fyrir því að skatturinn verði í óbreyttu formi á næsta ári, að hann haldi gildi sínu miðað við það sem hann var í ár.
    Þetta frv. er hv. þm. gjörkunnugt, hefur verið afgreitt til þessarar deildar frá fyrri deild og mælist ég til þess að að lokinni 1. umr. verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn.