Útflutningsráð Íslands
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Útflutningsráð Íslands sem ætlað er að komi í stað gildandi laga nr. 38/1986, um sama efni, sem á hafa verið gerðar reyndar nokkrar breytingar.
    Í gildandi lögum um Útflutningsráð Íslands er ákvæði þess efnis að framlag sjávarútvegs til Útflutningsráðs sé í formi tekna af útflutningsgjaldi og framlag iðnaðar sé í formi tekna af iðnlánasjóðsgjaldi. Um líkt leyti og Útflutningsráðið tók til starfa var útflutningsgjald af sjávarafurðum lagt niður. Af þeim sökum var ákveðið að framlag sjávarútvegsins til Útflutningsráðs á árunum 1987 -- 1989 skyldi verða hluti af endurgreiddum uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi. Eins og kunnugt er var söluskatturinn lagður niður um sl. áramót en virðisaukaskattur tekinn upp í hans stað. Þessi tekjustofn féll því niður og er enn óljóst nokkuð hvernig sjávarútvegurinn muni greiða framlag sitt til Útflutningsráðs á árinu sem er að líða. Það ber því brýna nauðsyn til að ákveðinn verði nýr tekjustofn til að tryggja framlag sjávarútvegsins til Útflutningsráðs.
    Það frv. sem ég mæli hér fyrir byggir í meginatriðum á tillögum nefndar sem utanrrh. skipaði sl. vor. Í nefndinni sátu fulltrúar helstu atvinnugreina sem aðild eiga að Útflutningsráði. Helstu breytingar frá gildandi lögum varða tekjustofna Útflutningsráðsins og skipun stjórnar og mun ég víkja að báðum þeim þáttum málsins í því sem ég segi hér um einstakar greinar frv. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um sérhverja grein í frv. heldur mun ég einungis nefna þær sem hafa í sér fólgnar verulegar breytingar frá gildandi lögum.
    Í 3. gr. er fjallað um fjármögnun starfsemi ráðsins. Við breytinguna falla niður tekjur af iðnlánasjóðsgjaldi og útflutningsgjaldi, eins og ég hef þegar nefnt. Reyndar hefur Útflutningsráð aldrei fengið tekjur af síðarnefnda gjaldinu, útflutningsgjaldinu. Þar sem gert er ráð fyrir að öll fyrirtæki sem starfa í útflutningsgreinum greiði ákveðinn hundraðshluta af aðstöðugjaldsstofni sínum til ráðsins er lagt til að árgjöldin verði felld niður og að öll fyrirtæki sem borga til ráðsins verði sjálfkrafa aðilar. Nýmæli er að ráðið fái tekjur af veitinga- og hótelrekstri, flutningum á sjó og flugrekstri í öðru formi en með árgjöldum, þ.e. í hlutfalli við umsvif í þessum greinum. Þetta þykir mönnum horfa til sanngirni, ekki síst af því að þessar greinar njóta verulega þjónustu af kynningu þeirri sem fram fer á vegum ráðsins á Íslandi og íslenskum málefnum.
    Á árinu 1990 eru framlög iðnaðar og sjávarútvegs til Útflutningsráðsins áætluð 60 millj. kr. en félagsgjöldin 5,2 millj. Framlög atvinnulífsins eru því samtals áætluð 65,2 millj. kr. á þessu ári. En skv. því fyrirkomulagi sem frv. gerir ráð fyrir hefðu tekjur Útflutningsráðs orðið 70,6 millj. á þessu ári, þ.e. 68 millj. frá iðnaði og sjávarútvegi en 2,6 millj. frá ferða- og flutningaþjónustu. Á árinu 1991 er gert ráð fyrir að tekjur Útflutningsráðs frá iðnaði og sjávarútvegi verði á þessum grundvelli 75 millj. kr. en tekjur frá ferða- og flutningaþjónustu tæplega 3 millj., ef þetta frv. verður að lögum.
    Ég bendi á að skv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs verði 16,3 millj., sértekjur eru áætlaðar u.þ.b. 60 millj. en þar á móti koma útgjöld vegna sýninga, kynninga og markaðsrannsókna.
    Í 5. gr. frv. er fjallað um stjórn Útflutningsráðs. Með breyttri fjármögnun þykir rétt að breyta nokkuð skipan ráðsins og stjórnar þess frá því sem nú er. Hér er lagt til að tíu menn skipi stjórnina í stað átta áður því æskilegt er að sem flest sjónarmið geti þar komið fram, enda er henni, þ.e. stjórninni, fyrst og fremst ætlað að móta í almennum greinum stefnu í starfsemi þessari.
    Þar sem fé til almennrar starfsemi kemur fyrst og fremst frá sjávarútvegi og iðnaði, svipuð fjárhæð frá hvorri grein, er lagt til að þessar greinar tilnefni hvor um sig þrjá menn í stjórn ráðsins. Einnig er lagt til að Verslunarráð Íslands skipi einn mann í stjórnina en innan Verslunarráðsins eru mörg fyrirtæki sem tengjast útflutningsstarfsemi bæði beint og óbeint. Til að tryggja samráð og samvinnu við Ferðamálaráð er hér lagt til að það tilnefni einn mann í stjórn Útflutningsráðs. Jafnframt væri æskilegt að Útflutningsráð ætti á sama hátt aðild að stjórn Ferðamálaráðs. Af hálfu stjórnvalda er hér lagt til að utanrrn. og samgrn. eigi aðild að stjórninni, en sjútvrn. og iðnrn. tilnefni varamenn sem taki þátt í störfum ráðsins á svipaðan hátt og nú er gert.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. en leyfi mér að nefna í lokin að mjög mikilvægt er að reyna að ljúka málinu sem fyrst til þess að tryggja tekjur Útflutningsráðs á næsta ári.