Útflutningsráð Íslands
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það kemur fram hér í athugasemd með þessu frv. og raunar í ræðu hæstv. ráðherra, er hann mælti fyrir þessu, hver ástæðan er fyrir því að þetta frv. er nú flutt og óskað afgreiðslu á því. Þar eð
ákveðnar tekjur sem Útflutningsráð byggir á falla nú niður. Hér eru tillögur skv. 3. gr. þessa frv. um tekjur Útflutningsráðsins sem ákveðið hlutfall af aðstöðugjaldsstofni fiskveiða, fiskvinnslu, iðnaðar og byggingarstarfsemi og 0,01% af aðstöðugjaldsstofni veitinga - og hótelrekstrar, flutninga á sjó, þó ekki strandflutninga, og flugrekstrar. Einnig fleira sem tiltekið er undir tölul. c, d og e.
    Það kom mér dálítið á óvart þegar ég sá þetta frv. á undirbúningsstigi nú fyrir örskömmu síðan að sjá að gert væri ráð fyrir að aðilar í ferðaþjónustu, þ.e. veitinga - og hótelþjónustu, legðu fram ákveðið hlutfall af sínum tekjum, aðstöðugjaldsstofni til Útflutningsráðs, ekki vegna þess að það þurfi neitt óeðlilegt að vera að það komi framlög þaðan heldur vegna þess að þar til fyrir skemmstu hefur verið starfandi nefnd sem hefur undirbúið frv. til laga um ferðaþjónustu sem nú er komið á borð þingmanna. Við fengum ekki neinar fregnir af þessu máli í þeirri nefnd, sem var að fjalla um tekjur m.a. til Ferðamálaráðs og tengsl Ferðamálaráðs og Útflutningsráðs. Mér finnst skorta nokkuð á samhengi í vinnu innan Stjórnarráðsins að það sé ekki reynt að tengja svona mál saman á undirbúningsstigi þannig að menn viti hver af öðrum sem eru að vinna að málum sem tengjast með þeim hætti sem hér liggur fyrir. Ég tel út af fyrir sig góðra gjalda vert og vissulega vel koma til greina að Ferðamálaráð verði aðili að stjórn Útflutningsráðs eins og hér er gert ráð fyrir. Í frv. til laga um ferðaþjónustu, sem væntanlega verður mælt fyrir fljótlega, er gert ráð fyrir ákveðnum tengslum þessara aðila samkvæmt tiltekinni grein í því frv. þannig að samráð sé tryggt. En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því með hvaða hætti þessi tekjuöflun hafi verið kynnt aðilum í ferðaþjónustunni og þá væntanlega að fyrir liggi að samráð hafi verið haft við þá aðila sem ætlað er að leggja þarna til nokkuð af sínum tekjum inn í Útflutningsráð því að það er held ég mjög þýðingarmikið að þannig sé staðið að málum sem varða atvinnugreinarnar að þeir sem þar eru í forsvari séu með á nótunum og séu þátttakendur í því sem verið er að gera. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti upplýst um þetta.