Útflutningsráð Íslands
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er hverju orði sannara sem fram kom hjá hv. 1. þm. Vestf. að þetta mál kemur býsna seint fram. Ég segi nú eingöngu um það mál: Hér stend ég og get ekki annað. Málið var síðbúið í undirbúningi hjá þeirri nefnd sem um það hefur fjallað. Það tók líka nokkurn tíma að ná samkomulagi um það. Ég bið um að það fái skilning hér í þinginu að það þurfi að ljúka málinu til að tryggja tekjur Útflutningsráðs frá upphafi nýja ársins. Ég tek undir það með hv. 1. þm. Vestf. að æskilegt hefði verið að þinginu hefði gefist betra tóm til að ræða og kanna starfsemina sem þarna fer fram sem þessum tekjustofni er ætlað að standa undir. Ég get ekki annað en lýst mig sammála þessum skoðunum en bið þó um það að menn virði viljann fyrir verkið og hjálpi þessu máli hér í gegnum þingið.
    Vegna fyrirspurnar hv. 2. þm. Austurl. þá er það rétt að hugmyndin um það að taka samgrn. og ferðamálin inn í þetta samstarf á vettvangi Útflutningsráðs kom nokkuð seint fram. Ég vildi þó skýra frá því að sú tillaga sem er kynnt í frv. er afrakstur samvinnu utanrrn., iðnrn. og viðskrn. og samgrn. sem við kvöddum sérstaklega til samstarfs um málið á síðustu dögum verksins. Ég hygg að þeir muni hafa haft milligöngu um það að ræða málið og kynna fyrir þeim sem eiga að taka þátt í þessu. Ég vil nú ekki kalla þá þolendur málsins heldur þvert á móti njótendur þess líka vegna þess að þarna held ég að sé komin sú samstilling í útflutningsstarfsemi og kynning á Íslandi út á við sem þurfi að vera milli samgöngugreinanna, ferðaþjónustunnar og vöruútflutningsgreinanna. Af því að ég þekki til starfa hv. 2. þm. Austurl. á sviði ferðamála, þá býst ég við að efnislega sé hann mér sammála um þetta eins og reyndar kom hér fram í ræðu hans.
    Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég sagði hér áðan að ég vona að þótt málið komi svo seint fyrir sem raun ber vitni muni þingmenn skilja að þörf sé á að ljúka því fyrir jól.