Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Geir H. Haarde :
     Virðulegi forseti. Það fer vel á því að enn eitt frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins skuli vera hér á dagskrá í kvöld því að ef marka má þær fregnir sem þingmönnum berast á öldum ljósvakans um ástandið í herbúðum ríkisstjórnarinnar er nú um fátt meira deilt á því heimili en einmitt húsnæðismálin. Ég held að það væri nú full ástæða, virðulegi forseti, til þess að nota þetta tækifæri til þess að inna hæstv. félmrh. eftir stöðu þeirra mála og óska eftir því að ráðherra verði viðstaddur þessa umræðu því að hér er vissulega um að ræða mál sem er nátengt þeim ákvörðunum sem nú eru yfirvofandi og um það bil að bresta á, að manni skilst, af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Ég vek athygli á því að þetta frv. sem hér hefur verið mælt fyrir nál. um gerir ráð fyrir því að leggja mun meira á húsbréfakerfið en áður var og ætla því enn stærra hlutverk en nú er. Einungis ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. munu að líkindum þýða það að í gegnum húsbréfakerfið muni streyma 1 milljarði kr. meira en ella á næstu 12 mánuðum. En það vill svo til að það er um það bil sú upphæð sem núna er varið í hverjum mánuði í þessari fjármögnun.
    Hér er verið að útvíkka hlutverk húsbréfakerfisins. Þó liggur ekkert fyrir um það enn þá, virðulegi forseti, hver verður niðurstaða ríkisstjórnarinnar varðandi húsnæðislánakerfið frá 1986 sem er í þessum sömu lögum og hér eru gerðar tillögur um að breyta. Er það stefna ríkisstjórnarinnar að loka því kerfi? Ef það er svo, því er það ekki gert samtímis þessu frv.?
    Það er villandi og rangt sem hæstv. viðskrh. sagði hér úr þessum ræðustól, þegar hann var að ræða vaxtalagafrv. hv. stjórnarþingmanns Stefáns Valgeirssonar fyrir skemmstu, að almenningi stæðu til boða lán með 4,5% vöxtum úr Byggingarsjóði ríkisins. Það er bara ósköp einfaldlega rangt. Það er ekki svo vegna þess að það kerfi hefur í reynd verið lokað mánuðum saman og almenningur sem hyggst fá lán til húsnæðiskaupa á engan kost á láni á 4,5% vöxtum, eins og viðskrh. gaf ranglega í skyn og fullyrti hér í ræðu fyrir nokkrum dögum. ( Viðskrh.: Hefur lánað á þeim kjörum.) Það er ekki svo, virðulegur viðskrh., að almenningur eigi kost á lánum á 4,5% vöxtum úr Byggingarsjóði ríkisins. Það er ósköp einfalt mál og þarf ekki um að deila. Hv. þm. Stefán Valgeirsson var að fullyrða það hér að þau lán sem almenningur ætti kost á væru á 7 -- 8% vöxtum, ef ég man rétt. Til leiðréttingar því fór viðskrh. með þá röngu fullyrðingu að almenningur ætti kost á lánum með 4,5% vöxtum úr Byggingarsjóði ríkisins. Þetta er allt saman rangt. En það er ekki aðalatriðið á þessu augnabliki heldur hitt: Hvað á að gera við þetta kerfi? Getum við fengið svör við því í þessari umræðu hér í kvöld? Vill forsrh. til að mynda svara því hvað ætlunin er að gera við húsnæðislánakerfið frá 1986? Eða eigum við að halda hér áfram eins og blindir kettlingar að afgreiða frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins, breyta í sífellu þessum lögum án þess að fá botn í þetta mál? Hvað á að gera við fjármagnsþörfina í Byggingarsjóði ríkisins?

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að leysa það mál, þá fjármagnsþörf sem þar er uppi?
    Ég hef skrifað, virðulegi forseti, undir þetta nál. með fyrirvara. Það er vegna þess að ég styð meginefni frv. og tel að þau atriði sem hér er um að ræða séu til nokkurra bóta frá því sem verið hefur. Ég vek hins vegar athygli á því að frv. þetta var ekki betur úr garði gert en svo af hálfu ráðuneytisins að á því varð að gera grundvallarbreytingar í hv. Ed. eftir fyrirsögn ýmissa umsagnaraðila. Ein breytingin er sú að gildistöku ákvæða 1. gr. frv. um að veita megi húsbréfalán vegna endurbóta og viðhalds er frestað til 1. sept. nk., þ.e. þangað til eftir kosningar. Ég tel að vísu að það sé skynsamlegt að gera svo vegna þess að ég tel að ekki sé varlegt að leggja of mikið á þetta húsbréfakerfi í einu, því að eins og dæmin sanna getur það haft misjafnlega heppilegar afleiðingar fyrir almenning og eigendur þessara bréfa. Þessi breyting er til komin vegna ábendinga frá umsagnaraðilum. Tveir umsagnaraðilanna beindu því jafnframt til nefndarinnar í Ed. að það yrði kannað hvort ekki væri rétt að fresta líka ákvæðinu til bráðabirgða um sérstök húsbréf til þeirra sem eiga við greiðsluerfiðleika að stríða. Við því var ekki orðið og varð niðurstaðan í félmn. Nd. að gera ekki slíka breytingu. Þó er það vissulega umhugsunarefni að mínum dómi hvort óhætt sé að demba 1000 millj. til viðbótar út á þennan markað í þessu formi. Ég vek athygli á því og tel óhætt að skýra frá því að á nefndarfundi í félmn. komu fram nokkrar áhyggjur af hálfu forstöðumanns húsbréfadeildar einmitt vegna þessa atriðis.
    2. gr. frv. felur einnig í sér aukið framboð af húsbréfum, en þó er það nokkuð í vald ráðherra sett með hvaða hætti útfærsla er á því atriði. Þar er gert ráð fyrir að hækka megi þá fjárhæð, sem húsbréf eru gefin út fyrir, upp í allt að 75% af matsverði eignar í stað 65% áður. Hins vegar leiðir af því atriði þegar húsbréf eru gefin út fyrir hærra hlutfall af matsverði eignar að áhætta þess sem tekur á sig ábyrgðina á húsbréfunum eykst og áhættan hjá ríkissjóði sem ber ábyrgðina eykst þar af leiðandi vegna þessa. Það er alveg ljóst að með þessu ákvæði og með ákvæði til bráðabirgða aukast líkurnar á því að ríkissjóður verði að taka á sig afföll, eða afskriftir lána réttara sagt. Það muni reyna meira á ríkisábyrgðina en verið hefur og það er auðvitað umhugsunarefni hvað menn vilja ganga langt í slíku.
    Ég vil einnig vekja athygli á því, virðulegi forseti, að í síðustu viku birtust auglýsingar í dagblöðum um að farið hefði fram fyrsti útdráttur húsbréfa skv. því kerfi sem lög segja fyrir um og eigendum þeirra bréfa boðið að koma og sækja andvirði bréfanna eftir nánar tilteknum reglum. Þetta útdráttarfyrirkomulag hefur verið í þessum lögum frá upphafi en er eitt af þeim atriðum sem vissulega kemur til greina að endurskoða þegar fram í sækir vegna þess að þetta ákvæði fælir einstaklinga frá því að fjárfesta í húsbréfum, fælir einstaklinga frá því að spara í því formi.
    Nú er það auðvitað svo að ríkissjóður býður upp á ýmsa aðra valkosti og býður fólki upp á eignarskattsfrelsi og annað því um líkt þannig að úrvalið er nóg fyrir þá sem vilja spara í hópi einstaklinga. Þetta er samt sem áður gallað fyrirkomulag að mínum dómi og full ástæða til þess að endurskoða þetta útdráttarfyrirkomulag sem er ekki nema fyrir stofnanir og aðila sem taka með virkum hætti þátt í markaðnum að fylgjast með.
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að þegar þetta frv. kom til 1. umr. var kynnt að þingflokkur Framsfl. hefði gripið til þess óvenjulega ráðs að senda forsetum Alþingis fyrirspurn, erindi, þar sem óskað var eftir því að forseti sameinaðs Alþingis beitti sér fyrir því við Ríkisendurskoðun að hún gerði ákveðna úttekt á húsbréfakerfinu og því sem kallað er áform stjórnvalda um að það kerfi yfirtaki almenna húsnæðiskerfið, þ.e. Byggingarsjóð ríkisins. Þingflokkur framsóknarmanna sá ástæðu til þess að grípa til þess óvenjulega ráðs að skrifa forseta þingsins og óska eftir athugun Ríkisendurskoðunar á þeim áformum sem stjórnarflokkarnir sjálfir hér í þinginu hafa haft uppi og meira að segja þeirri tillögu, sem manni skilst á fréttum í kvöld að forsrh. hafi gert að sinni á einhverjum ríkisstjórnarfundi í gær, um að leggja beri niður lánastarfsemi Byggingarsjóðs ríkisins.
    Þetta undarlega bréf er birt í plaggi sem þingmönnum barst í dag og heitir ,,Greinargerð vegna fyrirspurnar þingflokks Framsóknarflokksins um húsbréfakerfið``. Ríkisendurskoðun hefur ekki treyst sér til þess að svara beint þeim spurningum sem beint er til hennar í þessu bréfi en skrifar þess vegna almenna greinargerð um nokkur atriði sem tengjast þessum spurningum og önnur atriði í þessu sambandi. Allt eru þetta hin undarlegustu vinnubrögð, virðulegi forseti, og til marks um það, enn eitt sönnunarmerki þess hversu glundroðinn er mikill á stjórnarheimilinu þessa dagana.
    Ég hef ekki hugsað mér að kynna þingmönnum sérstaklega þessa skýrslu sem þeir hafa fengið í hendur. En ég hlýt að vekja athygli á því að þó að þessi skýrsla sé skrifuð að miklu leyti undir rós og vafalaust í mjög nánu samstarfi við bæði félmrn. og Húsnæðisstofnun ríkisins, þá eru hér þrátt fyrir það viss viðvörunarorð, bæði að því er varðar áhættu ríkisins og fleira sem að þessu kerfi lýtur. Það er jafnframt svo, herra forseti, að ein af niðurstöðum Ríkisendurskoðunar er sú að húsbréfakerfið geti aldrei tekið yfir alla þá lánastarfsemi sem Byggingarsjóður ríkisins hefur haft með höndum. Það er reyndar eitt af því sem við sjálfstæðismenn höfum sagt að undanförnu. Enda segir hér á bls. 6 í þessari skýrslu, með leyfi forseta:
    ,,Minnt skal á að sú grundvallarhugsun býr að baki húsbréfakerfinu að aðstoð hins opinbera verði fundinn farvegur, annars vegar í gegnum skattkerfið og hins vegar í gegnum félagslega húsnæðislánakerfið. Húsbréfin sem slík eiga á hinn bóginn að lúta þeim lögmálum sem gilda á fjármagnsmarkaðinum. Þannig er gert ráð fyrir því að vextir fylgi markaðsvöxtum á hverjum tíma og innheimt verði sérstakt lántökugjald af lántakendum, er m.a. renni í varasjóð til þess að mæta útlánatöpum þannig að ekki reyni á ábyrgð ríkissjóðs af húsbréfum. Í þessu sambandi má einnig nefna hið tiltölulega stranga greiðslumat í húsbréfakerfinu og áhrif þess á val lánþega. Loks má nefna að veðkröfur í húsbréfakerfinu eru mun stífari en áður hefur þekkst því að nú ber að leggja markaðsverð veðanna til grundvallar við mat á veðhæfni þeirra.``
    ,,Markaðsverð veðanna til grundvallar við mat á veðhæfni þeirra`` stendur þar og hygg ég að ýmsir hv. stjórnarliðar af landsbyggðinni staldri eilítið við þessi tilvitnuðu orð vegna þess að allir vita hversu komið er fyrir markaðsverði fasteigna víða um land. Þannig er ljóst af þessari skýrslu, eins og reyndar var vitað, að þó að húsbréfakerfið sé gagnlegt og henti mörgum afar vel getur það aldrei orðið nein allsherjarlausn á húsnæðisvanda allra þeirra sem ekki eru innan hins félagslega kerfis. Þeir eru nú sem betur fer meiri hluti landsmanna þó að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að koma sem flestum í einhvers konar félagslegt húsnæði.
    Hitt er svo annað, virðulegi forseti, að í sambandi við það mál sem hér er til umræðu höfum við sjálfstæðismenn í félmn. ekki hugsað okkur að bregða fæti fyrir þetta frv. frekar en félagar okkar í Ed., ekki vegna þess að það sem slíkt, þau atriði sem hér eru, eru í sjálfu sér ekki þess eðlis að ástæða sé til að stöðva þau. Hins vegar er alveg ljóst að því meira sem lagt er á þetta kerfi þeim mun meiri verður áhætta ríkissjóðs. Þeim mun meiri verða afföllin á markaðnum eftir því sem útgáfa þessara bréfa verður meiri o.s.frv.
    Ég vil, virðulegi forseti, fyrst félmrh. er ekki kominn, óska eftir því að fá að gera hlé á ræðu minni og skal þá gegn því lofa forseta að tala ekki langt mál þegar ráðherrann er kominn til fundar. ( Forseti: Forseti vill geta þess að hann hefur þegar gert ráðstafanir til þess að ná í hæstv. félmrh. Það hefur ekki tekist enn þá. Félmrh. hefur ekki verið skráður hér. ( Gripið fram í: Hún er hér í húsinu.) Þá er bara félmrh. rétt að koma inn í hús og er það vel.)
    Virðulegur forseti. Þar sem hæstv. félmrh. er mættur hér til fundar vildi ég mega ítreka þær fyrirspurnir sem ég lagði hér fram fyrr í ræðu minni þar sem ég vakti athygli á því að nú bæri óneitanlega vel í veiði að enn eitt frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins skuli vera til meðferðar á þessu kvöldi þegar ekki mun um annað rætt á stjórnarheimilinu heldur en húsnæðismál og fjárframlög til þeirra.
    Ég vil spyrja: Hvaða áform eru eiginlega uppi um þessi mál? Hvað á að gera við húsnæðismálakerfið frá 1986? Er komin einhver niðurstaða í það mál af hálfu ríkisstjórnarinnar? Hvað á að gera við fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins sem liggur fyrir að þarfnast fjármagns á næsta ári? Hvernig á að leysa það dæmi og sömuleiðis fjármögnunarvanda Byggingarsjóðs verkamanna? Ef ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera einhverjar breytingar á húsnæðislánakerfinu frá 1986 hvernig stendur þá á því að við fáum ekki frv. um það hér á Alþingi? Hvernig stendur þá á því að við erum með hvert bútafrv. á fætur öðru hér í deildum þingsins? Hér er eitt frv. Í efri deild er annað frv.

um breytingar á sömu lögum. Enn ein leiðréttingin á vitleysunum sem gerðar voru á sl. vori. Það er meira að segja búið að bæta við leiðréttingum í félmn. efri deildar. Þar á meðal leiðrétta þá ósvífni sem félmrn. gerði sig sekt um þegar það lét sérprenta lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1988 með síðari breytingum. Hvernig stendur á því að við getum ekki fengið hér í einu lagi allt það sem þessi ríkisstjórn ætlar að gera varðandi breytingar á lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins? Bæði þessi húsbréfaatriði sem hér eru, stimpilgjöldin, sem eru nú til meðferðar í efri deild, leiðréttingarnar, sem þar hafa bæst við í félmn., og svo hugsanlega það sem á að gera varðandi lánakerfið frá 1986 og varðar 12. gr. laganna. Er þetta til þess að létta á störfum nefnda þingsins og auðvelda málum hér greiðan gang um deildirnar, að flytja málin í svona bútum? Eða er þetta vegna þess að það er ekki hægt að koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut á stjórnarheimilinu?
    Ég tel fulla ástæðu til þess, herra forseti, að við þessa umræðu verði upplýst hvað er að gerast, hvað er á seyði í þessum efnum. Ég vil gjarnan spyrja ráðherra að því líka hvað hann ætlar að gera við þessa greinargerð hér sem borist hefur vegna fyrirspurnar þingflokks Framsfl. um húsbréfakerfið. Reyndar sá ég nú að formaður þingflokksins skaut óvænt nefinu hér í gættina. Það væri kannski réttast að spyrja hann að því hver þeirra niðurstaða er eftir að hafa fengið svör við þessum spurningum. Kannski vill hv. 3. þm. Austurl., sem sæti á í félmn., svara því. En það má segja að félagi hans í félmn., hv. 1. þm. Vesturl., hafi lagt niður störf í nefndinni því hann mætir aldrei á nefndarfundi í þessari nefnd nú orðið og hefur ekki látið opinskátt hver hans afstaða til þessa frv. er, a.m.k. ekki í nál., þó að skilja hafi mátt á honum við önnur tækifæri að hann sé þessu máli öllu mjög andvígur, enda mun greinargerðin, sem ég er hér með í höndunum og er að vitna til, til komin vegna fyrirspurnar frá honum. En nú eru þessi svör komin og hvað ætlar Framsfl. að gera við þau? Það er spurning sem eðlilegt er að beina til Framsfl. en sömuleiðis til ráðherrans, hvort hún telur ástæðu til þess að staldra við eitthvað af því sem fram kemur í þessari greinargerð.
    Að svo mæltu ítreka ég það eingöngu varðandi frv. sem hér er til meðferðar að við munum ekki leggja stein í götu þess þó ég bendi á að það hafa verið mælt fram ýmis varnaðarorð vegna þeirra áforma sem í því felast. Vegna þess að það er verið að leggja meira á húsbréfakerfið en margir telja að góðu hófi gegni og vegna þess að þau auka áhættu ríkisins, húsbréfadeildar Byggingarsjóðs og þar með ríkissjóðs á afskriftum og útlánatöpum. Þetta vildi ég að kæmi hér fram, virðulegur forseti.