Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa orðið nokkrar umræður um húsnæðismál almennt og það frumvarp sem hér er til umræðu og áhrif þeirra ákvæða sem þar eru lögð til að því er varðar ýmis atriði. T.d. kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl. að það mundi leiða til þenslu og spennu á markaðnum að samþykkja ákvæði þessa frumvarps. Ég bið hv. þm. líka að skoða málið í því ljósi að það er allstór hópur fólks í þessu þjóðfélagi sem á í mjög miklum greiðsluerfiðleikum. Við því fólki blasir ekkert annað en að missa sínar eigur á uppboð ef ekki kæmi til slík aðstoð eins og við erum hér að fjalla um. Þetta fólk er margt hvert með það miklar skuldir að sú hefðbundna fyrirgreiðsla sem verið hefur gegnum Húsnæðisstofnun, og þau greiðsluerfiðleikalán sem þar hafa verið, nægir ekki til þess að aðstoða það. Ef ekki kæmi til þessi aðstoð mundi fólk missa sínar eigur á uppboð. En það gæti líka átt kost á þeirri leið að koma með þessum hefðbundna hætti inn í húsbréfakerfið, sem væri mun dýrara og leiddi þá kannski til meiri útgáfu á húsbréfum en ella væri. Í mörgum tilfellum mundu kannski 1 -- 1,5 millj. kr. nægja til þess að bjarga þessu fólki þannig að það gæti haldið sínum íbúðum, en ef það missti þær á uppboð gæti það hugsanlega farið þessa hefðbundnu leið sem þýddi þá stærri hlut sem það þyrfti gegnum húsbréfakerfið.
    Reyndar er það svo að það hefur verið mjög mikill kostnaður hjá þessu fólki við að framlengja sífellt þessum skammtímalánum sem það hefur þurft að fleyta sér á í bönkum. Fjármagnskostnaður við framlengingar, lögfræðikostnaður og annað hefur mjög aukið á skuldabyrði þess. Ég tel að sú leið sem við ræðum hér gæti hjálpað mörgum, ef það fengi lán til langs tíma eins og hér er verið að ræða um og fengi sínum skammtímaskuldum þannig breytt í lengritímalán. Á þetta bið ég hv. þm. að líta einnig þegar hann ræðir um þensluáhrif af þeim ákvæðum sem þetta frv. kveður á um.
    Hv. 17. þm. Reykv. ræddi nokkuð almennt um húsnæðismál og hvaða afstöðu stjórnarflokkarnir hefðu, bæði til stöðu byggingarsjóðanna og framtíðar 86 - lánakerfisins. Því er til að svara að alllengi hafa verið til umfjöllunar hjá stjórnarflokkunum ýmsar tillögur sem ég hef lagt fram og óskað eftir að þingflokkarnir tækju afstöðu til. Það á bæði við um Byggingarsjóð ríkisins og afstöðuna til 86 - kerfisins og eins til Byggingarsjóðs verkamanna og þeirra tillagna sem liggja fyrir um að Byggingarsjóði verkamanna verði gert kleift að veita heimildir til 500 nýrra félagslegra íbúða á næsta ári og þá hvernig þær yrðu fjármagnaðar.
    Ég hef óskað eftir því að þingflokkarnir tækju afstöðu til þess hvort það ætti að loka 86 - kerfinu og hvernig ætti að mæta uppsafnaðri skuldastöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Ég hef einnig óskað eftir því að ef stjórnarflokkarnir væru ekki tilbúnir til þess að loka 86 - kerfinu þá kæmu fram tillögur þeirra um það hvernig ætti að halda því kerfi gangandi og hvernig

ætti að fjármagna það.
    Það hefur nokkuð dregist að fá fram afstöðu þingflokkanna til þeirra tillagna og valkosta sem ég hef lagt fyrir þá, m.a. vegna þess að það þurfti að athuga ýmis atriði ef stjórnarflokkarnir vildu fara út í vaxtabreytingar til þess að bæta skuldastöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Það þurfti að athuga áhrif laga um greiðslujöfnun, hvaða áhrif það hefði til þess að bæta greiðslustöðu sjóðsins út af þeim ákvæðum sem þar eru sem kveða á um það að ef það verður raunvaxtahækkun þá bætist það á höfuðstól skuldarinnar og greiðist við lok lánstímans og bætir því ekki greiðslustöðu sjóðsins fyrr en síðar.
    Fyrir nokkru síðan lá fyrir lögfræðilegt álit á því hvaða leiðir væru færar í því efni og þær tillögur og leiðir sem færar eru í því efni hafa um nokkurt skeið legið fyrir stjórnarflokkunum. Það verður að segjast eins og er að ég hef enn ekki fengið nægjanlega skýr svör um afstöðu stjórnarflokkanna til þeirra hugmynda og tillagna sem hafa verið lagðar fram og staðan er með þeim hætti nú. Ég hef lagt alla áherslu á það að fá fram afstöðu flokkanna áður en við ljúkum afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Byggingarsjóðirnir eru auðvitað óhjákvæmilega tengdir afgreiðslu fjárlaga eins og aðrir sjóðir sem að hluta til eru háðir framlagi á fjárlögum. Ég vænti þess að þetta skýrist áður en gengið verður frá fjárlögunum á þessum og næsta sólarhring þannig að hægt verði við 3. umr. fjárlaga að ræða stöðu byggingarsjóðanna og þá nánar að svara þeirri fyrirspurn sem fram kom hjá hv. 17. þm. Reykv.