Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að það er afar nauðsynlegt að greiða úr þeirri miklu flækju sem húsnæðiskerfið hefur í gegnum árin komist í. Það hefur tekið nokkur ár og hefur ekki verið leyst. Að þessu hefur verið unnið mjög mikið í tíð þessarar ríkisstjórnar, sérstaklega að sjálfsögðu á vegum hæstv. félmrh., sem hefur látið gera ítarlega úttekt á húsnæðiskerfinu, bæði á því frá 1986, á félagslega kerfinu og sömuleiðis á húsbréfakerfinu. Jafnframt hefur nefnd trúnaðarmanna frá öllum stjórnarflokkunum farið ítarlega í gegnum kerfið og skilað skýrslu. Niðurstaða þeirrar nefndar varð sú að það bæri að leggja niður kerfið frá 1986 og það bæri að lagfæra stöðu Byggingarsjóðs ríkisins með því að hækka vexti fyrst og fremst. Jafnframt er alveg ljóst að það verður að hækka framlög úr ríkissjóði til að endar nái þar saman.
    Um vextina hefur síðan verið ítarlega fjallað. Ég veit að það hefur ekki farið fram hjá hv. þm. að það eru ýmis vankvæði á því að hækka vexti aftur í tímann, m.a. vegna laga um greiðslujöfnun. Á vegum hæstv. félmrh. hefur jafnframt farið fram athugun á því hvernig mál verði leyst. Ég get ekki sagt að það hafi orðið lokaafgreiðsla í ríkisstjórninni á því máli en það nálgast að svo verði á grundvelli þeirra tillagna sem félmrh. hefur lagt fram. Ég vil þó segja að það er áreiðanlega miklum erfiðleikum bundið að hækka vexti, þótt heimilt sé, á þeim bréfum sem voru gefin út 1984, það er áreiðanlega erfiðleikum háð að hækka vexti á þeim eins og nú er ástatt. ( FrS: Af hverju?) Ja, það verður að segjast eins og er að það er ekki samstaða um það. Það er mjög mikil andstaða hjá aðilum vinnumarkaðarins, sérstaklega hjá verkalýðshreyfingunni. Og a.m.k. enn þá hafa stjórnarflokkarnir ekki tekið ákvörðun um að hækka þá vexti. Það eru meiri líkur til þess að hallast verði að því að hækka vexti við eigendaskipti að íbúðum. En ég vil taka það skýrt fram að þetta er nú til meðferðar hjá stjórnarflokkunum og ég er að lýsa því sem ég tel líklegasta niðurstöðu að þessu leyti.
    Um að leggja niður kerfið frá 1986 hefur mikið verið rætt að sjálfsögðu. Ýmsir benda á það að í húsbréfakerfinu sé ekki mikið svigrúm til að mæta sérstökum þörfum í þjóðfélaginu, eins og t.d. þeirra sem byggja í fyrsta sinn, ef menn vilja veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu. Ég hef að vísu komist að þeirri niðurstöðu að það sé rangt að vera með tvö kerfi og það beri að leggja niður kerfið frá 1986 og hef gert tillögu um það að nú verði yfir það sest hvernig megi þá fullnægja slíkum sérþörfum og þær betur skilgreindar. Því miður get ég ekki lofað hv. þm. því að niðurstaða í þessi mjög flóknu mál fáist í dag eða á morgun. Mér skildist að það hefði verið talað um að það yrði fyrir 3. umr. fjárlaga. Það næst ekki. En það er búið að vinna afar mikið í þessu máli og því miðar mjög vel í þá átt að fyrir liggi endanlegar niðurstöður í næsta mánuði eða svo.