Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Með tilliti til þeirrar ræðu sem hæstv. félmrh. flutti tel ég nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. ellegar þá varaformaður Alþb., hæstv. samgrh., verði viðstaddur þessa umræðu. Það kom mjög skýrt fram í ræðu hæstv. félmrh. að ráðherrann hefur, eftir því sem hann sagði hér, lagt fyrir fjöldann allan af tillögum og fyrirspurnum til samstarfsflokkanna í ríkisstjórn án þess að fá við þeim svör og án þess að fá gagntillögur í þeim tilvikum þar sem neikvæð svör hafa borist frá samstarfsflokkunum. Það kom jafnframt fram í ræðu hæstv. félmrh. að nauðsynlegt væri að ákvarðanir lægju fyrir í þessum efnum fyrir 3. umr. fjárlaga. Þarf raunar engan að undra að hæstv. félmrh. skuli taka þannig til orða. Hér er verið að fjalla um mjög veigamikil atriði sem hafa mikil áhrif á gerð fjárlaga og lánsfjárlaga og hafa almenn áhrif á fjármálastjórn ríkisins og peningamálastjórn landsins nú eins og endranær. Það liggur í augum uppi að hæstv. ríkisstjórn þarf að svara þeim spurningum sem hér voru bornar fram og hæstv. félmrh. upplýsti að af hans hálfu hafi verið bornar fram við samstarfsflokkana án þess að niðurstaða hafi fengist.
    Hæstv. forsrh. kom hér og flutti almenna hugleiðingu um þessi viðfangsefni. Lýsti því hvað væri kostur og galli í einstökum tilvikum, hvað væri erfitt og hvað auðvelt varðandi þær breytingar og ákvarðanir sem hér þarf að taka. Allt voru það hugleiðingar sem hv. alþm. eru kunnar. Menn gera sér mætavel grein fyrir því að það kann að vera erfitt að hækka vexti. Menn gera sér mætavel grein fyrir því að það kunna að vera vandamál því samfara að leggja niður húsnæðiskerfið frá 1986. Og menn gera sér auðvitað grein fyrir því að það kunna að vera vandamál því samfara að standa við lágmarksfjárskuldbindingar sem ríkið hefur tekið á sig og snúa að ríkissjóði. Ekkert af þessu þurfti að minna hv. þm. á.
    Það sem hæstv. forsrh. þurfti hins vegar að gera var að gefa svör við þeim spurningum sem hér hafa komið fram, ekki einasta frá talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna heldur frá hæstv. félmrh. og sem hæstv. félmrh. hefur sagt hér í kvöld að þurfi að gefa svör við nú þegar og eigi síðar eða alveg strax og undir eins, eins og Bastían bæjarfógeti sagði, því 3. umr. fjárlaga er á morgun. Það liggur því í augum uppi að það verður að ítreka þær spurningar sem hér voru bornar fram og ætlast til þess að þeim verði svarað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þegar ákvarðanir verða teknar á morgun um fjárlög þurfa menn að vita hvort leggja á niður húsnæðislánakerfið frá 1986 eða ekki því það hlýtur að verða forsenda þeirra ákvarðana sem menn taka, bæði að því er varðar lánsfjárlög og fjárlög. Þær ákvarðanir er einfaldlega ekki hægt að taka nema menn hafi svarað þessari spurningu. Og því fremur sem það er sá ráðherra sem ber ábyrgð á húsnæðismálum sem hefur krafið ríkisstjórnina svara í þessu efni hlýtur skylda hennar að vera ríkari. Það hlýtur að vera eðlilegt að á sama tímapunkti svari menn til um það hverjir vextirnir eigi að vera

því að fjárskuldbindingar ríkissjóðs á næsta ári og á næstu árum ráðast af því. Það hlýtur að vera eðlilegt á þessu stigi að gerð verði grein fyrir því hver áætluð eru framlög ríkissjóðs á næsta ári.
    Ég vil því skora á hæstv. forsrh. í stað þess að koma hér með almennar hugleiðingar um þau vandamál sem uppi eru varðandi þessar ákvarðanir sem öllum eru ljósar að skýra hér frá niðurstöðum því hæstv. ríkisstjórn getur ekki skotið sér undan því lengur að kynna niðurstöðurnar.
    Ég vil jafnframt óska eftir því að varaformaður Alþb., hæstv. samgrh., svari því fyrir hönd Alþb. hvort það hefur fallist eða muni fallast á tillögur um að loka húsnæðiskerfinu frá 1986, sem sett var á stofn með sérstökum samningum við verkalýðshreyfinguna, og hver afstaða þess flokks er til vaxtaákvarðana í húsnæðislánakerfinu. Með hliðsjón af öllum gangi mála er eðlilegt að ætlast til þess að hver ríkisstjórnarflokkur fyrir sig svari þessum spurningum ella fæst ekki heildarmynd af stöðu mála innan hæstv. ríkisstjórnar eins og nú er komið.
    Það frv. sem hér um ræðir er brotabrot af heildarlöggjöf um húsnæðismál. Það hefur verið háttur þessarar hæstv. ríkisstjórnar að flytja húsnæðismálin í brotabrotum inn á Alþingi. Stefna hæstv. ríkisstjórnar er eins konar brotabrotastefna í húsnæðismálum og þetta frv. er enn ein sönnun þess. Það hefur verið vakin hér athygli á því að bráðabirgðaákvæði þessa frv. eitt kallar á um einn milljarð. Það hlýtur að hafa talsverð áhrif á fjármagnsmarkaðinn á næsta ári og næstu árum. Það hlýtur að hafa nokkur áhrif á fyrirsjáanlega þróun vaxta. Af því tilefni er eðlilegt og nauðsynlegt að ræða þessi mál í heild sinni. Þótt hæstv. ríkisstjórn, vegna innri sundrungar, geti ekki fjallað um og flutt stefnu sína hér í húsnæðismálum nema í brotabrotum, þá er það krafa Alþingis að um þau sé fjallað í heild sinni vegna þess að hagsmunir þeirra sem í hlut eiga, húsbyggjendanna, krefjast þess.
    Ég vil því, herra forseti, ítreka spurningar mínar til þessara tveggja hæstv. ráðherra. Með vísan til þess að hæstv. félmrh. hefur lagt á það alla áherslu og talið það vera forsendu fyrir afgreiðslu fjárlaga að samstarfsflokkarnir svari þeim spurningum, sem hér hafa verið bornar fram, þá ítreka ég þessar spurningar og óska eftir að fá við þeim skýr svör.