Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Suðurl. beindi til mín spurningum sem ég er að vísu ekki sérlega vel undirbúinn að svara af því ég heyrði ekki fyrri hluta ræðu hans. En það er sjálfsagt mál að reyna að greiða fyrir framgangi mála hér og umræðum og gefa þau svör sem ég get gefið hér og nú á stundinni og reyna þá að svara fyrir afstöðu míns flokks eins og hún stendur í augnablikinu eftir allmiklar umræður um húsnæðismál undanfarna daga og undanfarnar vikur.
    Eins og hv. þm. kemur væntanlega ekki á óvart hafa menn í tengslum við upplýsingar sem fram hafa verið að koma um afkomu byggingarsjóðanna og stöðu húsnæðismála rætt þau mikið.
Þær hugmyndir sem helst hafa verið uppi í þessum efnum varða annars vegar afdrif húsnæðislánakerfisins frá því á vormánuðum 1986 og hins vegar meðferð vaxta á útlán byggingarsjóðanna. Eins og kunnugt er eru heimildir til þess í skuldabréfum útlána að breyta vöxtum aftur til ársins 1984, ef ég man rétt. Því er til að svara að varðandi ákvarðanir um hvort loka beri nú að fullu og öllu húsnæðislánakerfinu frá 1986 þá var það ekki útrætt mál í þingflokki Alþb. Mönnum er ljóst að það hýtur að þurfa að grípa þarna til mjög róttækra ráðstafana. En menn hafa viljað tengja hina endanlegu ákvörðun um það hvort loka beri kerfinu að fullu og öllu upplýsingum um það hvað við eigi að taka hjá einstökum hópum þeirra sem eru að afla sér húsnæðis. Þá hefur sérstaklega verið rætt um tekjulægri hópa, sem þó eiga ekki aðgang að félagslega íbúðarlánakerfinu, sem eru að eignast sína fyrstu íbúð. Hvernig fyrir þeirra málum yrði þá séð, annaðhvort í gegnum húsbréfakerfi eða e.t.v. með endurskoðun á félagslega hluta íbúðalánakerfisins, um það vilja menn gjarnan hafa upplýsingar eða a.m.k. hafa fyrir sér ákvarðanir um vinnu að endurskipulagningu þeirra mála áður en endanleg ákvörðun er tekin um það hvort lánakerfinu frá 1986 verði lokað að fullu og öllu. Það er sem sagt spurning um það hvernig orðalag verður eða hvernig staðið verður að ákvörðuninni og hvað henni tengist í formi ákvarðana um endurskoðun þessara mála að öðu leyti sem hefur verið rætt undanfarna daga í þingflokki Alþb. og er ekki útrætt. ( FrS: Verður það klárað fyrir 3. umr. fjárlaga?) Ég get ekki gefið hv. frammíkallanda nein loforð af því tagi en að sjálfsögðu er verið að ræða þessi mál milli stjórnarflokkanna og innan þingflokka stjórnarliðsins. Ég vænti þess að samkomulag um afgreiðslu þessa máls takist innan skamms.
    Í öðru lagi er því til að svara um vaxtaákvarðanir að ég hygg að við það sé stuðningur í þingflokki Alþb. að hækka vexti á lánum í almenna útlánakerfinu við eigendaskipti. Þegar íbúðir koma til eigendaskipta á markaðnum verði lánssamningum breytt. Því fylgja ýmsir kostir að fara frekar þá leið en að hækka vexti afturvirkt gagnvart fólki sem tekið hefur tilteknar ákvarðanir um fjárfestingu í húsnæði. Ef sú aðferð er valin að hækka einungis vextina þegar eigendaskipti verða á íbúðum þá er þó í öllu falli ekki raskað högum manna án þess að þeir fái sjálfir vörnum við komið. Þá ganga menn að því þegar þeir taka nýjar ákvarðanir um byggingu eða húsnæðiskaup að vextir munu breytast.
    Ég vona að þetta svari í einhverju spurningum hv. þm., a.m.k. er ég búinn að gera mitt besta.