Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Einhvern veginn fannst mér áðan að hæstv. félmrh. hefði misskilið lítillega þá gagnrýni sem ég setti fram. Ég vil taka fram að ég tel það til bóta að hjálpa fólki sem á í erfiðleikum og að það sé auðvitað skylda stjórnvalda að hjálpa fólki sem er í þann veginn að missa eigur sínar. Ég er alveg sammála því. En almenna húsbréfakerfinu held ég að ætti að koma fyrir í bankakerfinu í framtíðinni og ekki að vera að hafa einhver sérstök kerfi á vegum ríkisins fyrir það sem á að geta gengið eðlilega fyrir sig í almennu bankakerfi.
    En af hverju, hæstv. forseti, á allt þetta fólk í erfiðleikum? Af hverju er alltaf verið að velta á undan sér erfiðleikum hér í þjóðfélaginu og af hverju eru vextir háir? Ég var í þessu sambandi að reyna að koma aðeins að hinu almenna fjármagnskerfi. Hæstv. forsrh., sem er nú svo vænn að vera hér hjá okkur núna, sagði einhvern tímann að frjálshyggjan væri ófreskja. En er það ekki bara akkúrat ríkisstjórn Íslands og hann sjálfur, hæstv. forsrh., sem er ófreskjan sem býr allan þennan háa fjármagnsmarkað til? Það held ég. Á fólk ekki líka í erfiðleikum vegna þess að búið er að hækka skatta og hækka skatta og hækka skatta sl. þrjú ár? Er það ekki líka hluti af erfiðleikunum? Og lífskjör skert hér stórlega, 20 -- 30%. Er það ekki hluti af skýringunni að fólk á í erfiðleikum og getur ekki borgað sín lán? Ég hefði haldið það. Hvernig hefði nú farið, eins og ég sagði hér áðan, ef þessi hæstv. ríkisstjórn hefði ekki fengið þá guðsgjöf að sjávarafurðir hækkuðu í verði um allt að 30% á árinu? Samt ná þeir ekki endum saman þrátt fyrir aukið innstreymi fjármagns í milljörðum króna.
    Það sem ég á við, hæstv. félmrh., er að ég vil að fólk fái raunverulega hjálp. Ég vil að gæði þeirrar aðstoðar sem verið er að veita fólki séu varanleg. Að það sé ekki verið að skapa vanda með annarri hendinni um leið og það er verið að leysa hann með hinni. Það var það sem ég var að reyna að segja. Annaðhvort hefur hæstv. félmrh. ekki skilið það sem ég var að segja eða þá að hæstv. ráðherrann vill ekki ræða þessa staðreynd. Það er bara tvennt til og læt ég henni eftir hvort hún vill koma hér í pontu og velja annan hvorn kostinn.
    Ég held að fólk á Íslandi um þessar mundir sé fyllilega sátt við hið almenna húsbréfakerfi. Ég er sannfærður um það sjálfur að fólk væri sátt við að bíða eftir láni, ekki bara í hálfan mánuð heldur í 6 -- 12 mánuði, ef það mundi hjálpa til við að lækka raunvexti. Ég er alveg sannfærður um það. Venjulegt fólk skilur að það eru ekki til takmarkalausir peningar þó hæstv. ráðherrar virðist alls ekki skilja það. Þeir láta alltaf eins og það sé allt í lagi bara að prenta og prenta og fara á yfirdrátt í Seðlabankanum, sem er að mínu mati kolólöglegt og hinn mesti sóðaskapur í fjármálum sem ég hef séð á ævinni, þ.e. hvernig ríkissjóður umgengst grundvallaratriði.
    Ef ég man rétt var frétt í Tímanum í dag um að ástandinu mætti líkja við einhvers konar rörasprengju.

En ég vil segja að það er þá hæstv. félmrh. helst sem heldur á hvellhettunni í dag. Ef þessi rörasprengja springur og verðlagið fer allt á fljúgandi ferð, hvar stendur þá þetta fólk sem verið er að tala um að hjálpa? Hvar stendur það fólk sem við erum að tala um að reyna að hjálpa? Þá stendur það gjaldþrota, endanlega. Þess vegna var ég að tala um bjarnargreiða áðan. Kjarni þess sem ég er að reyna að segja er að það á að nota í dag þá fjármuni sem fara í hið almenna lánakerfi húsnæðismála til að borga hallann á ríkissjóði, borga klúðrið sem þessi hæstv. ríkisstjórn er búin að búa til. Fólk sem þarf á húsnæðislánum að halda er örugglega til í að bíða. Það er frekar til í að bíða en hætta á að verðbólgan fari af stað. Það er ég sannfærður um.