Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Hér eru gefnar ýmsar yfirlýsingar af hálfu stjórnarliðsins þó þær séu kannski ekki í samræmi við óskir þingmanna um skýr svör af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um stefnuna í húsnæðismálum. Fyrr í dag flutti foringi framsóknarmanna í fjh.- og viðskiptamálefnum frv. fyrir þessari hv. deild til þess að koma í veg fyrir að hæstv. fjmrh. gæti selt hlutabréf sem hann hefur þegar selt. Og nú kemur aðaltalsmaður Framsfl. í húsnæðismálum og lýsir því yfir að hann telji rétt að stjfrv. um þau efni verði stungið undir stól og frestað. Ég hygg að fátt lýsi betur ástandinu á stjórnarheimilinu en vinnubrögð af þessu tagi sem koma nú upp í hverju málinu á fætur öðru.
    Það er ástæða til þess að ítreka enn spurningar. Hæstv. ríkisstjórn hefur verið innt eftir svörum um það hvernig hún bregst við tilmælum hæstv. félmrh. um að loka húsnæðiskerfinu frá 1986. Hæstv. samgrh. hefur svarað því af hálfu Alþb., svo sem hann best getur, eins og hann sjálfur tók fram. En af hálfu Framsfl. hafa ekki komið við þessu skýr svör þrátt fyrir ræðu hæstv. forsrh. Með því að aðaltalsmaður framsóknarmanna í húsnæðismálum, hv. 1. þm. Vesturl., er kominn í þingsalinn, þá er ástæða til þess að inna hann eftir því hver afstaða Framsfl. er í þessu efni og hvort Framsfl. muni svara jákvætt tillögum hæstv. félmrh. í þessu efni. Það er nauðsynlegt að óska eftir því að hv. þm. geri grein fyrir afstöðu flokksins í þessu efni.
    En í tilefni af svörum hæstv. samgrh., sem greindi frá því að Alþb. væri ekki reiðubúið til þess að loka húsnæðiskerfinu með þeim hætti sem hæstv. félmrh. hefur lagt til, er ástæða til að rifja það upp að í umræðunni fyrr í kvöld greindi hæstv. félmrh. frá því að hann hefði ekki einasta óskað eftir afstöðu samstarfsflokkanna til þessarar spurningar heldur einnig, ef þau svör yrðu neikvæð, eftir skýrum tillögum um það hvernig
þeir flokkar sem segja nei við tillögu hans um að loka kerfinu ætluðu að standa að fjárhagslegum skuldbindingum húsnæðislánakerfisins. Nú þegar hæstv. samgrh. hefur upplýst að Alþb. geti ekki staðið að lokun kerfisins með þeim hætti sem hæstv. félmrh. hefur greint frá er að gefnu tilefni, vegna ræðu hæstv. félmrh. hér fyrr í kvöld, ástæða til þess að krefja Alþb. sagna um hvernig það ætlar að svara óskum hæstv. félmrh. um það hverjar tillögur Alþb. eru um að standa við fjárhagslegar skuldbindingar kerfisins sem þeir eru ekki reiðubúnir að loka að svo stöddu. Það er ekki seinna vænna að Alþb. svari þessari spurningu með því að 3. umr. fjárlaga er ráðgerð hér á morgun. Og með því að ég veit að hæstv. ráðherra er reiðubúinn að svara svo sem best hann getur þá reikna ég með að hann gefi þingdeildinni skýr svör við þessari spurningu um leið og hv. 1. þm. Vesturl. svarar af hálfu Framsfl. hver afstaða þess flokks er til lokunar húsnæðiskerfisins frá 1986.