Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Fjh. - og viðskn. deildarinnar hefur haft til athugunar frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt með breytingu á 5. gr. frv. sem flutt er á sérstöku þskj. Meiri hl. nefndarinnar telur rétt að láta koma fram að í lögum um virðisaukaskatt eru heimildir sem gera mögulegt að veita undanþágu frá notkun sjóðvéla í þeim tilvikum sem ekki er aðstaða til að koma þeim fyrir.
    Hér er um að ræða frv. sem að meginefni til er til að bæta úr því ófremdarástandi sem verið hefur varðandi notkun sjóðvéla, sem lögboðið er að nota. Niðurstöður könnunar sem skattrannsóknarstjóri hefur gert eru þær að þó að staðan hafi batnað frá fyrri rannsóknum, þá skortir mikið á að reglum um sjóðvélar sé framfylgt og tíunda hvert sjóðvélaskylt fyrirtæki reyndist ekki hafa sjóðvél. Hjá meiri hluta þeirra er höfðu slíkar vélar var búnaði eða notkun á einhvern hátt ábótavant. Einungis um þriðjungur þeirra fyrirtækja sem skylt er að hafa sjóðvélar reyndist hafa þær í fullkomnu lagi.
    Með frv. fá skattayfirvöld úrræði til að taka í taumana með skjótum hætti og skylda fyrirtæki til að koma sér upp lögformlegum sjóðvélum. Við teljum hins vegar að sá frestur sem lagður er til í frv., 20 dagar, sé óþarflega skammur, geti verið óþægilegur fyrir viðkomandi fyrirtæki og leggjum til að hann verði lengdur í 45 daga.