Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Fjh. - og viðskn. deildarinnar hefur haft til meðferðar tilgreint frv. Í því er kveðið á um nokkrar breytingar sem snerta skattlagningu einstaklinga í samræmi við það sem boðað var í fjárlagafrv. Breytingar þessar miðast við að tryggja óbreytta skattbyrði einstaklinga á milli áranna 1990 og 1991.
    Á þskj. 372 liggur fyrir álit fjh. - og viðskn. sem hefur fjallað um frv. Við fengum á fund okkar Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra og Snorra Olsen, skrifstofustjóra í fjmrn. Nefndin mælir með samþykkt frv. en tveir nefndarmanna, Matthías Bjarnason og Friðrik Sophusson, áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma. Undir þetta skrifa allir nefndarmenn en hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir með fyrirvara.