Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að mæla fyrir brtt. sem ég hef flutt á þskj. 351 og er væntanlega ekki þingmönnum ókunnug því að sambærilegt ákvæði hefur verið flutt í sérstöku frv. á þskj. 109.
    Hér er um að ræða þann gamla kunningja sem margræddur hefur verið hér í þessum sal, þ.e. leiðréttingu á afturvirkni skattalaga sem sá sem hér stendur hefur krafist ítrekað að gerð verði. Núv. ríkisstjórn beitti sér fyrir tvenns konar afturvirkum ákvæðum sem komu niður á tveimur hópum manna á síðasta ári en komu í flestum tilfellum ekki í ljós fyrr en við skattaálagningu á þessu ári vegna síðasta árs. Ríkisstjórnin hefur viðurkennt skömm sína í þessu máli að hluta til með því að taka orðrétt upp í þetta frv. sem hér er til afgreiðslu eina grein úr frv. mínu til laga um leiðréttingu á afturvirkum ákvæðum. En þar er aðeins stigið hálft skref og þó það sé þakkarvert í sjálfu sér og viðurkenning á því að ég hafi haft rétt fyrir mér í þessu máli þá tel ég nauðsynlegt að stíga skrefið til fulls og láta leiðréttinguna ná til allra sem hlut eiga að máli, þ.e. líka þeirra sem urðu fyrir barðinu á því að ákvæðum um húsnæðisbætur var skyndilega breytt fyrirvaralaust með afturvirkum hætti. Ríkisstjórnin sjálf stingur hér upp á því að hennar eigin ákvæði um að breyta skilgreiningu vaxtagjalda fyrirvaralaust með afturvirkum hætti verði afturkölluð. Og það er auðvitað eðlilegt og fullt samræmi þar á milli að sú afturköllun nái einnig til þeirra sem urðu fyrir barðinu á afturvirkni húsnæðisbótaákvæðanna.
    Ég lét það koma fram við 1. umr., herra forseti, að ég fagnaði því að ríkisstjórnin hefði ekki séð annan leik í þessari stöðu en þann að taka upp orðrétt ákvæði úr frv. sem ég hef flutt og viðurkenna þar með skömm sína og háðung, og fagnaði því að hún vildi með þeim hætti leiðrétta sín eigin verk. Allir eiga leiðréttingu orða sinna og gerða svo fremi að þær verði aftur teknar.
    En brtt. á þskj. 351, virðulegi forseti, gengur sem sagt út á þetta og er í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í frv. um að taka það ákvæði sem er í frv. mínu, um leiðréttingu á afturvirkum ákvæðum, inn í bráðabirgðaákvæði þannig að fullt samræmi sé á milli þessara hluta og ríkisstjórnin þar með fríuð af þeirri ósvinnu að hafa íþyngt fólki með afturvirkum hætti í skattalögum.
    Verði þessi brtt. samþykkt þá hefur ríkisstjórnin náð að reka af sér slyðruorðið í þessu máli og hnekkja eigin misgjörðum að öllu leyti í þessum efnum. En verði brtt. felld þá er sýnt að einungis hópur manna en ekki allir fá leiðréttingu. Það er kannski í samræmi við þetta mál frá upphafi að hafa það bara þannig? Að velja úr einn hóp og skilja annan eftir. Það er fullt samræmi á milli þess og annars sem þessi ríkisstjórn er að gera.
    En í trausti þess að einhverjir fyrirfinnist nú í stjórnarliðinu sem vilji hafa samræmi í hlutunum og leiðrétta misgjörðir sínar til fulls er þessi brtt. flutt og

ég vænti þess fastlega að hún hljóti hér samþykki.