Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í orðum frsm. þá óskaði ég eftir því að utanrmn. fjallaði um þetta mál og var það gert og vil ég fagna því að í nefndinni hefur náðst samstaða um þá till. til þál. sem hér liggur fyrir. Mér þykir jafnframt rétt að gera með örfáum orðum grein fyrir því hvers vegna ég óskaði eftir þessum fundi.
    Stuðningur okkar Íslendinga við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna hefur ekki farið fram hjá neinum og víða vakið athygli. Fyrst var það gert með ályktun Alþingis á vormánuðum 1990 þar sem fagnað var sjálfstæðisyfirlýsingu Litáens og stuðningur við hana veittur. Þessu hefur síðan verið fram haldið í ræðum bæði utanrrh. og mínum erlendis og í október, 8. okt. ef ég man rétt, kom forseti Litáens, Landsbergis, hingað í heimsókn. Í þeirri heimsókn gafst mjög gott tækifæri til að ræða við forseta Litáens ítarlega um öll málefni þar. M.a. kom fram á þeim fundi að Eystrasaltslöndin lögðu mikla áherslu á að árangur gæti orðið í þeim viðræðum sem að tillögu Sovétríkjanna voru hafnar. Og það kom fram í orðum forsetans að að sjálfsögðu væri nauðsynlegt fyrir sjálfstæða nágranna að hafa með sér eðlileg samskipti og samninga á fjölmörgum sviðum.
    Ég gerði þetta að megináherslu í ræðu minni sem ég flutti á leiðtogafundinum í París í nóvembermánuði sl. Það skal tekið fram hér að það voru vonbrigði að þeir voru heldur fáir sem þar nefndu Eystrasaltslöndin. Ég hygg að það hafi aðeins verið fjórir eða fimm.
    Nú nýlega hafði Landsbergis forseti samband við mig og spurði nánast að því hvort við gætum ítrekað þau ýmsu orð sem við hefðum látið falla um sjálfstæðisbaráttu þeirra og um þá samninga sem þeir stæðu í. Taldi hann að af því gæti orðið töluverður stuðningur fyrir þá því að þeim þættu viðræður ganga æði seint og reyndar vera á ákaflega viðkvæmu stigi núna og óttuðust að þær kynnu jafnvel að fara algjörlega í strand.
    Á þessum viðræðuferli varð síðan breyting. Það var frestað fundi sem átti að vera sl. föstudag í Mosvku þannig að ég hafði aftur samband við forsetann og spurði hvort nokkur breyting væri á þessum óskum en hann ítrekaði að þeir mundu meta það mikils ef svona efnisleg stuðningsyfirlýsing kæmi fram. Mér var að sjálfsögðu kunnugt um að í hv. utanrmn. lá tillaga frá hv. sjálfstæðismönnum um Eystrasaltslöndin og þótti mér, bæði með tilvísun til þess að Alþingi ályktaði um þetta mál fyrst íslenskra stofnana 12. mars 1990 og síðan með tilliti til þess að þessi till. lá þar fyrir, eðlilegt að málið yrði lagt fyrir utanrmn. og nefndin beðin að taka það til meðferðar. Ég tel að úr þeirri meðferð hafi komið það samkomulag, sem ég hlýt að fagna, þar sem bæði er áréttað það sem áður hefur verið gert og skýrt tekið fram að viðurkenning okkar á sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litáens er óslitin frá 1922 sem að mínu mati er afar mikilvægt að leggja áherslu á.

    Þarna er einnig ályktað um sjálfsákvörðunarrétt þjóða sem við Íslendingar höfum ætíð og í öllum tilfellum lagt höfuðáherslu á og mikilvægt að það komi enn einu sinni fram. Hér kemur jafnframt fram áhersla á að þeir samningar sem þessi lönd hafa gengið til að ósk Sovétríkjanna leiði til jákvæðrar niðurstöðu sem þau hafa bundið miklar vonir við.
    Það er vissulega rétt sem hér kemur fram að meðan þessi deila ríkir þarna, þá hefur ekki náðst sá friður í Evrópu sem menn hafa gert sér vonir um og vissulega stefnir til, skulum við vona, á flestum sviðum.
    Hér er lýst yfir því sem við Íslendingar höfum ætíð undirstrikað að svona deilumál verður að leysa á friðsamlegan hátt með friðsamlegum aðgerðum og jafnframt ítrekað sem hefur komið fram frá ríkisstjórn að ef það mætti verða til að liðka fyrir málum, þá er það af Alþingis hálfu samþykkt að Reykjavík geti orðið fundarstaður. Loks er ríkisstjórninni falið að beita sér fyrir þessum málum. Það er að ýmsu leyti mikilvægt því að hæstv. utanrrh. mun á morgun eiga fund með utanríkisráðherrum Norðurlanda og utanríkisráðherrum Eystrasaltslandanna og hefur þá þessa þál. með sér sem starfandi utanrrh. mun að sjálfsögðu fjalla þá nánar um hér á eftir. En það er einmitt með tilliti til þess sem var eðlilegt að afgreiða þessa till. í dag.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mörg fleiri orð. Það þarf ekki að taka það fram að hér er um ákaflega viðkvæmt mál að ræða og vissulega veldur það nokkurri undrun hversu litlar undirtektir þessi sjálfstæðisbarátta hefur víða fengið, t.d. hjá stórveldunum sem hafa ekki hreyft sig mikið í þessu sambandi. En þarna vegur að sjálfsögðu þungt að í Sovétríkjunum sjálfum er að verða að því er virðist afar róttæk breyting, mjög róttæk, sem menn sjá alls ekki fyrir endann á enn og eflaust eru svona mál erfið í meðferð í þeirri óvissu sem þar ríkir. Reyndar er það þetta sem komið hefur fram þegar ég hef haft tækifæri til að ræða málið við aðra leiðtoga sem meginástæðan fyrir því að þeir hafa talið æskilegt eins og þeir orða það, ekkert síður Eystrasaltslandanna vegna heldur en með tilliti til Sovétríkjanna, að fara rólega í þetta mál og ég held að við hljótum að sjálfsögðu að hafa það einnig í huga.
    Mér þykir með þessari þáltill. farinn góður meðalvegur að þessu leyti, kurteislega ályktað en undirstrikuð þau áhersluatriði sem við Íslendingar höfum aldrei farið leynt með og alltaf haldið á loft og ég lýsi þeirri von minni að þetta geti orðið til að styðja við þessa baráttu og um leið hvetja fleiri þjóðir til að gera það sama, en á engan máta að spilla fyrir nauðsynlegri og góðri sambúð á milli Eystrasaltsríkjanna og Sovétríkjanna. Endurtek ég svo ánægju mína með þetta samkomulag í utanrmn.