Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að utanrmn. skuli hafa sameinast um þessa till., enda ekki nokkur vandkvæði á því að við gætum sameinast um þetta, svo sammála sem við höfum verið um að styðja sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Ísland hefur verið í fararbroddi að því er varðar þetta mál og hafa íslenskir stjórnmálamenn, bæði hæstv. ráðherrar og þingmenn þar sem þeir hafa getað, bæði hér heima og erlendis, látið í ljós stuðning við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna og Alþingi ályktaði hér eins og fram hefur komið þegar Litáen lýsti yfir sjálfstæði sínu á sínum tíma.
    Ísland er smáríki og þurfti lengi að heyja baráttu fyrir sjálfstæði sínu og hefur því sérstakar skyldur gagnvart smáríkjum eins og Eystrasaltsríkjunum að sýna þeim stuðning í sjálfstæðisbaráttu sinni. Ég er alveg sannfærð um það að allir landsmenn styðja þeirra sjálfstæðisbaráttu og eru sammála því sem við erum hér að gera á Alþingi Íslendinga. Ég vona að Alþingi auðnist að samþykkja þessa till. samhljóða því að slík samstaða er mjög mikilvæg, og ekki séu neinar efasemdarraddir um að rétt sé að styðja sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna á þann hátt sem við erum hér að gera.