Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil láta í ljósi stuðning minn við þessa till. Ég undirstrika sérstaklega það að sjálfsákvörðunarréttur þjóða með lýðræðislega kjörin þing er grundvöllur frjálsra samskipta þjóða í milli og stuðlar að heimsfriði og ég er ánægður með að Alþingi leggur áherslu á að afar mikilvægt er að jákvæð niðurstaða fáist í sérstökum viðræðum Eystrasaltsríkjanna við stjórn Sovétríkjanna.
    Það er eðlilegt að Íslendingar aðstoði við friðsamlega lausn þessarar deilu þar sem þeir mega því við koma og ég hygg að hér sé einmitt rétt tækifæri og skynsamlega á málum tekið. Ég átti þess kost fyrir nokkrum dögum að ferðast um þessi ríki og ég tel að hér sé um ákaflega vandasamt mál að ræða og þeir sem í þessari sjálfstæðisbaráttu standa séu alls stuðnings verðir sem við megum veita þeim til þess að deilan megi leysast með friðsamlegum hætti og aðgengilegum fyrir alla aðila. Þarna er um mjög mikil vandamál að ræða, ekki bara stjórnarfarsleg eða á stjórnmálasviði heldur einnig efnahagslega, og ég tel að við Norðurlandabúar eigum og okkur beri skylda til að reyna að verða þeim til aðstoðar á sem allra flestum sviðum þar sem við megum því við koma og Norðurlandaráð er tilbúið til að aðstoða þessar þjóðir efnahagslega eða eftir því sem aðstæður okkar leyfa.