Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Mig langar í örstuttu máli að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa till. um að styðja sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkja og í leiðinni langar mig til að greina í örstuttu máli frá þeim aðgerðum og þeim verkefnum sem Norræna ráðherraskrifstofan í Kaupmannahöfn áformar til stuðnings Eystrasaltsríkjunum.
    Það hefur verið samin sérstök framkvæmdaáætlun um það með hvaða hætti Norðurlandaþjóðirnar geti komið Eystrasaltsríkjunum til stuðnings við að hjálpa þeim við að stíga sín fyrstu skref inn í samstarf vestrænna ríkja í Evrópu. Í því skyni hefur verið tekin sú ákvörðun að komið verði á fót upplýsinga - og menningarmiðstöðvum í höfuðborgum allra Eystrasaltsríkjanna sem Norræna ráðherraskrifstofan í Kaupmannahöfn hefur tekið að sér að bæði fjármagna og sjá um að komist á fót. Er þegar búið að auglýsa eftir starfsmönnum til að stjórna þessum þremur skrifstofum í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna.
    Sömuleiðis er stefnt að því að taka upp samstarf á sviði umhverfismála með Eystrasaltsríkjunum með því að veita fjármunum til sérstakra verkefna í því skyni og sömuleiðis hefur verið tekin sú ákvörðun að veita fjármunum til þess að veita námsstyrki til ungmenna frá Eystrasaltsríkjunum sem verður boðið til námsdvalar á Norðurlöndunum.
    Mér þótti rétt að geta um framlag ráðherraskrifstofunnar í þessu efni, en vil svo ítreka stuðning minn við þessa till. og fagna því að hún skuli vera hér lögð fram.