Ferðakostnaður sjúklinga
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 223 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbr. - og trmrh. um reglur varðandi endurgreiðslur á ferðakostnaði sjúklinga hér innan lands.
    Í Fréttabréfi Öryrkjabandalags Íslands, 3. tbl. þessa árs, segir ritstjóri sem jafnframt er fulltrúi í tryggingaráði frá því að tryggingaráð hafi samþykkt nýjar reglur um endurgreiðslu á kostnaði sjúklinga vegna ferða til læknis, sérfræðings eða á sjúkrahús fjarri sinni heimabyggð.
    Breytingin á reglunum er til verulegra hagsbóta fyrir sjúklinga og fellir úr gildi hina svokölluðu þriggja ferða reglu sem felur í sér að þá fyrst fá menn greitt þegar þeir hafa farið þrjár ferðir til læknis eða á sjúkrahús og þessar þrjár ferðir verði sjúklingurinn að fara á 12 mánaða tímabili. Þessi þriggja ferða regla hefur valdið verulegri mismunun og skapað óánægju. Það var því löngu tímabært að endurskoða reglurnar. Það var gert að frumkvæði Guðrúnar Agnarsdóttur en hún ásamt fleirum lagði svo fram tillögur til breytinga sem samþykktar voru af tryggingaráði í júní sl. og síðan eðli málsins samkvæmt sendar heilbr. - og trmrn. sem á að staðfesta reglurnar.
    Samkvæmt upplýsingum frá umboðum Tryggingastofnunar ríkisins og hjá stofnuninni sjálfri hafa þessar reglur ekki enn fengið staðfestingu ráðuneytisins sem virðist þá ekki vera tilbúið til að viðurkenna rýmri og sanngjarnari reglur. Því spyr ég hæstv. ráðherra:
    Hvað veldur því að ekki eru komnar til framkvæmda nýjar reglur um endurgreiðslur á ferðakostnaði sjúklinga innan lands sem samþykktar voru á fundi tryggingaráðs sl. sumar og áttu þá aðeins eftir að hljóta staðfestingu ráðuneytis?