Ferðakostnaður sjúklinga
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur hér borið fram fsp. og gert grein fyrir henni og nefndi reyndar í lok máls síns að ráðuneytið vildi hugsanlega ekki taka undir rýmri og sanngjarnari reglur og hvort það væri ástæðan fyrir því að ekki hefur verið staðfest þessi reglugerð eða drög að reglugerð um ferðakostnað sjúklinga sem legið hefur fyrir í ráðuneytinu samkvæmt tillögum frá Tryggingastofnun.
    En það er svo að þau lagaákvæði sem kveða á um greiðslu ferðakostnaðar sem hér um ræðir er að finna í 43. gr. laga um almannatryggingar, í j - lið, en þar segir svo, með leyfi forseta:
    [Greiða skal] ,,Óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum og eftir reglum, sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir, fyrir sjúklinga sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi, með eða án innlagnar.``
    Hér er að vísu um nokkuð takmarkaða lagaheimild að ræða og fjallar aðeins um meðferð hjá lækni eða í sjúkrahúsi. Nú er það svo að þær reglur sem hafa verið í gildi allt frá því 1. mars 1982 hafa reyndar verið nokkuð rýmri heldur en þetta lagaákvæði kannski kveður strangast á um. Nýlega svaraði ég fsp. frá hv. þm. Málmfríði Sigurðardóttur þar sem ég gerði grein fyrir viðhorfum ráðuneytisins til ákveðinna þátta varðandi þá þjónustu sem við teldum að bæri að greiða eða taka þátt í ferðakostnaði vegna einnig, svo að ráðuneytið hefur nú þegar litið svo á að það væri rétt að túlka þetta nokkuð rýmra heldur en lögin strangast kveða á um þó það sé auðvitað spurning hvort það er réttlætanlegt. Og ef ætti að setja nýjar reglur, eins og ég kem hér að nánar á eftir, þá reikna ég með því að það verði að skoða þennan lagatexta.
    En í júlímánuði sl. bárust ráðuneytinu frá Tryggingastofnun ríkisins drög að reglum um ferðakostnað sjúklinga og aðstandenda þeirra innan lands, sem samdar voru af tryggingaráði. Þessar reglur gera ráð fyrir verulegri rýmkun á gildandi reglum og aukningu á útgjöldum sjúkratryggingadeildar og veita meiri þjónustu en j - liður 44. gr. gerir í raun ráð fyrir. Vegna þess að hér er um að ræða verulega aukningu á útgjöldum sjúkratryggingadeildar fram yfir það sem áætlanir höfðu gert ráð fyrir á þessu ári taldi ég ekki eðlilegt að láta reglugerðina taka gildi hinn 1. sept., eins og þó var gert ráð fyrir í drögunum eins og tryggingaráð hafði lagt til, heldur reiknaði með því að hún tæki gildi núna um áramótin eða 1. jan. nk.
    Sjúkratryggingadeildin hefur ekki gert áætlun um kostnaðaraukningu af þeim breytingum á reglugerðinni sem lagðar eru til þannig að ekki liggur fyrir enn hver sé hugsanlegur útgjaldaauki hjá stofnuninni í reynd ef þessar breytingar verða samþykktar og staðfestar.
    Ég vil bara árétta það að ég álít að þetta sé bæði rétt og nauðsynlegt að gera. Það þarf að endurskoða þessar reglur. Í fyrsta lagi þarf náttúrlega að endurskoða lögin. Sú endurskoðun fer nú væntanlega fram af hálfu þingsins eftir að það kemur saman aftur á nýju ári, þá verður hægt að leggja hér inn heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar.
    Ég vil líka ítreka þá skoðun mína, sem kom hér fram í þingi fyrir nokkru þegar ég svaraði þeirri fsp. sem ég nefndi áðan frá hv. þm. Málmfríði Sigurðardóttur, að það þurfi að rýmka þessar reglur. En menn verða þá líka að vera alveg meðvitaðir um það að það kostar aukna fjármuni og ég beini því til hv. fyrirspyrjanda þessarar fsp. nú, sem á reyndar einnig sæti í hv. fjvn. Alþingis, að venjulega er það svo að það er ákaflega auðvelt að bera fram óskir um það að bæta réttindi þeirra einstaklinga sem þurfa að sækja stuðning til almannatryggingalöggjafarinnar, þar með á vissan hátt til samfélagsins og eiga lögum samkvæmt rétt á því, en það kostar allt saman töluvert mikla peninga og menn hreyfa sig ekki mikið innan þessarar almannatryggingalöggjafar öðruvísi en þar sé um að ræða stóraukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
    Það væri afar auðvelt fyrir mig að vera hér stöðugt að flytja tillögur um það að bæta og lagfæra þann rétt sem tryggingalöggjöfin á að veita þeim sem þangað þurfa að sækja rétt sinn. Þetta er auðvitað einn liðurinn í því efni og ég vona að okkur takist að koma hér fram lagfæringum, nauðsynlegum lagfæringum á tiltölulega gömlum reglum og þá séu menn líka reiðubúnir að horfast í augu við að það kostar viðbótarfjárveitingar til þessarar annars ágætu stofnunar.