Bréfaskriftir fjármálaráðuneytis
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh.:
 ,,1. Svarar ráðuneytið bréfum sem því berast frá einstaklingum, og þá innan hvaða tímamarka?
    2. Ef svo er, má þá treysta því að sú regla sé virt án tillits til þess hver einstaklingurinn er?``
    Mér er ljóst að það getur oft verið nokkurn ís að brjóta hjá venjulegu fólki áður en það tekur sig til og skrifar ráðuneytum bréf. Þó að sum erindi af þessu tagi séu kannski ekki stór í augum þeirra sem með valdið fara má þó slá því föstu að þau eru ávallt stór í huga þess sem eftir leitar.
    Ég hygg að það sé því miður of algengt viðhorf að menn telji að ekki sé sama hvort á ferðinni sé Jón eða séra Jón. Ég er í það minnsta orðinn dálítið þreyttur á ásökunum um það að ráðuneytin svari ekki bréfum og að farið sé í manngreinarálit. Ég taldi þess vegna rétt að fá hrein svör frá hendi hæstv. fjmrh. í þessum efnum þannig að ég hefði það hjá mér til þess að geta gert mönnum grein fyrir því hver vinnuregla ráðuneytisins væri og vænti þess að það geti þó e.t.v. einnig verið fordæmisskapandi fyrir önnur ráðuneyti að þau geri sér grein fyrir þeirri alvöru að það er ekki líðandi ef ekki er staðið eðlilega að þessum málum.
    Ég ætla ekki að þreyta þingheim með lengri umræðu og vænti svars hæstv. ráðherra.