Málefni aldraðra
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Nú á síðustu dögum þings fyrir jólafrí eru miklar annir eins og tíðkast yfirleitt á þessum tíma. Það er með ólíkindum hvernig þingstörfum er hagað. Þessi deild var svo til verkefnalaus í október og nóvembermánuði. Síðan gerist það að á síðustu stundu streyma öll frv., brtt. og annað án þess að þingmenn fái rönd við reist, án þess að þingmenn fái tækifæri til að kynna sér málin, skoða þau og setja fram skoðanir sínar. Ég tek því undir þær aðfinnslur sem koma fram hjá minnihlutamönnum. Þetta eru vinnubrögð sem mega ekki eiga sér stað og verður að breyta. Það er að vísu ekki ný bóla að svona sé málum hagað. Ég minnist þess að það tíðkaðist hér áður fyrr að hrúga inn frv. rétt fyrir þingslit að vori og varð það til þess að gerð var breyting á þingsköpum í þá veru að allmargir dagar yrðu að vera til þingslita þegar mál voru lögð fram. Það voru sett tímamörk á það hvenær mætti í síðasta lagi bera fram frv. Þetta var vissulega gert vegna þess að það var gengið á þetta lagið, þ.e. að viðkomandi ríkisstjórn lagði frv. fram sem allra næst þingslitum í trausti þess að geta rennt þeim í gegn án þess að menn gætu kynnt sér þau nægilega. Þingsköpunum var sem sagt breytt til að gefa mönnum rúm til þess að kynna sér málin.
    Til deildarinnar hafa streymt frv. núna fyrir jólin og brtt. sem ég tel að þyrftu meiri skoðunar við. Þingmenn eru alveg varnarlausir gagnvart þessu og það er spurning finnst mér hvort það ætti að setja ný tímatakmörk sem lúta þá að jólahléi. Ég vissi t.d. ekki um tilvist þessa frv. fyrr en ég kom á nefndarfund. Og ég er ekki að nefna þetta sem einsdæmi því það er venja hér í þinginu. Þingmenn gera allt of mikið af því að láta sér þetta lynda. Þingmenn þurfa að taka sig saman um það að koma á öðrum vinnubrögðum hér í þinginu þannig að afgreiðsla mála verði ekki með þeim hætti sem verið hefur. Vænti ég þess að stefnt verði að því að svo verði gert.
    Það var fjallað um skerðingu á Framkvæmdasjóði aldraðra og fleiri sjóðum. Það er ekki ný bóla. Þetta er nokkuð sem hefur gerst ár eftir ár og skiptir þá engu máli hvaða ríkisstjórn hefur verið við völd hverju sinni. Orðin ,,þrátt fyrir`` eru býsna algeng í lánsfjárlögum og annars staðar. Það er vegna þess að alþingismenn hafa samþykkt lög, fjölda laga með mörkuðum tekjustofnum, sem gera það að verkum að ef farið væri eftir því öllu saman þá væri ekkert til, þá væru engir peningar til annars og Alþingi hefði ekkert með fjárveitingar að gera. Þetta er uppsafnaður vandi, mætti segja. Þegar þarf að ná saman endum í fjárlagadæmi eða lánsfjárlögum þurfa menn að átta sig á því hvað er til skiptanna. Það hafa menn ekki gert. Hins vegar hafa þeir samþykkt hin aðskiljanlegustu frv. blindandi hverju sinni.
    Ég geri mér alveg grein fyrir því að Framkvæmdasjóður fatlaðra t.d. hefur aldrei fengið það fjármagn sem þingmenn samþykktu árið 1979 eða 1980 að sjóðurinn ætti að hafa. Og ég minni á það enn að það hefur ekki skipt máli hvaða ríkisstjórn er við völd

hverju sinni hvaða skerðingar hafa verið gerðar á sjóðnum. Hins vegar hefur það verið hlutverk þeirra sem taka á sig þá ábyrgð að ná saman endum að loka dæminu. Þess vegna er þetta gert.
    Ég er samþykkur áliti meiri hl. í þessu máli en játa að það er gert á þeim forsendum að reyna að ná endum saman. Ég tel aftur á móti að það hefði mátt skoða þetta mál betur og fleiri mál sem hér er rennt í gegnum þingið. Mér finnst líka að þeir sem gera brtt. séu eiginlega svona á næsta bæ við það að biðja um hærri skatta. Við verðum að líta á þetta sem eina heild, allt fjárlagadæmið. Það er ekki gert í þeim tilvikum þegar koma fram brtt. um ótilgreindar fjárhæðir sem eiga að fara til hinna ýmsu verkefna. Það er þægilegt og vinsælt að segja að markaðir tekjustofnar eigi að halda sér en því miður, vegna fjárvöntunar, hefur það ekki reynst unnt. Og enn minni ég á að það hefur ekki skipt máli til þessa hvaða ríkisstjórn hefur verið við völd hverju sinni.
    En ég ætla að ljúka máli mínu með því að árétta það að svona vinnubrögð ganga ekki. Ég á ekki við þetta sérstaka mál heldur öll mál sem fyrir deildum eru þessa dagana. Vinnubrögðin mættu vera markvissari og nýta hefði mátt tímann í haust betur en gert var.