Málefni aldraðra
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Þó hér sé ekki um miklar eða háar tölur að ræða miðað við fjárlög og lánsfjáráætlun er hér um að ræða mál sem er geysilega þýðingarmikið, ,,prinsipalt`` séð, og snýr að þjónustu fyrir aldraða. Þess vegna held ég að það sé þess virði að hv. þm. fjalli um það með þeim hætti sem þeir hafa þegar gert og enn ítarlegar. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, 5. þm. Norðurl. e., sagði m.a. í ræðu sinni áðan að samkvæmt hennar túlkun væri framgangur þessa frv. tengdur því að skerðingarákvæði lánsfjárlaga varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra yrði fellt niður úr lánsfjárlögum. Eins og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, 6. þm. Reykn., kom inn á áðan var í gær afgreitt frv. til lánsfjárlaga af hálfu stjórnarliða með þeim hætti að skerðingarákvæðinu var haldið inni. Það er því mjög erfitt fyrir okkur hv. þm. að fóta okkur á því hver er raunveruleg ætlan stjórnarþingmanna í þessum efnum.
    En við höfum hins vegar lagt fram brtt., ég og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, sem felur það í sér að hv. þm. Ed. geta tekið af öll tvímæli, og einmitt með þeim hætti sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom inn á, um það að skerðingarákvæðið skuli falla niður. Það kemur fram í brtt. okkar hv. þm. Salome Þorkelsdóttur og mín. Á þskj. 406 segir svo, með leyfi forseta,
en það er 2. tölul. í þessari brtt.: ,,Við 1. gr. bætist ný mgr. svohljóðandi:
    4. tölul. 1. mgr. skal aðeins gilda árið 1991 en kemur því aðeins til framkvæmda að skerðingarákvæði lánsfjárlaga fyrir árið 1991 um sjóðinn falli brott.``
    Þarna erum við búnir að leggja fram brtt. sem hlýtur að vera rökrétt í framhaldi af ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur svo bæði hún og aðrir stjórnarliðar hér í deildinni hljóta að samþykkja. Í því felst auðvitað staðfesting á því að Framkvæmdasjóður aldraðra skuli fá sínar tekjur að fullu. Þetta er mjög mikilvægt og þýðingarmikið atriði og raunar prófsteinn á það hvort stjórnarliðar meina nokkuð með því sem þeir hafa verið að segja um þetta mál hér.
    Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta atriði, forseti. Ég tel að því sé vel borgið þannig að skerðingarákvæðin verði felld niður með því að þessi brtt. okkar verði samþykkt.
    Varðandi málsmeðferð alla í sambandi við þetta frv. verð ég að taka undir það sem aðrir hv. þm. hafa sagt að það er náttúrlega ekki forsvaranlegt að leggja mál fram á þingi með þeim hætti sem gert hefur verið í þessu máli. Það er náttúrlega ekki forsvaranlegt að hv. þm. og nefndarmenn í heilbr. - og trn. Ed. skuli ekki einu sinni sjá frv. áður en byrjað er að fjalla um þau í nefnd, en látum það vera í þessu tilviki. Hæstv. ráðherra reyndi aðeins að útskýra það fyrir okkur nefndarmönnum sem hann náði í og skal ég ekki ræða frekar um það. En það vekur náttúrlega furðu að einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, hv. 4. þm. Reykn. Karl Steinar Guðnason, skuli lýsa því yfir að

hann hafði ekki einu sinni hugmynd um að ætti að leggja þetta frv. fram, hvað þá að hann vissi um efni þess.
    En varðandi það sem sagt var hér áðan um afstöðu okkar og brtt., þar sem hv. þm. Karl Steinar sagði eitthvað á þá leið, að brtt. þær sem 1. minni hl. leggur fram feli í sér að það sé raunverulega verið að biðja um hærri skatta. Það er alger misskilningur. Það er ekki um það að ræða af okkar hálfu. Það sem við erum að leggja áherslu á er það að tekjur þær sem gert er ráð fyrir í lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra renni til Framkvæmdasjóðs. Það er hins vegar vandamál núv. ríkisstjórnar hvernig hún ætlar að fjármagna þann umframkostnað sem þegar hefur verið stofnað til vegna þessara mála í heimildarleysi. Ég geri mér grein fyrir því að hv. þm. Karl Steinar hefur greinilega ekki fengið í hendurnar það plagg sem við fengum á nefndarfundi vegna lögmætrar fjarveru og veikinda. Það er um hvernig er búið að ráðstafa raunverulega meiri peningum vegna þessara mála en heimildir eru fyrir hendi. En skv. þeim plöggum sem við fengum kemur fram að svokölluð rekstrarkostnaðaraukning vegna málefna aldraðra á árinu 1989 var 105,6 millj. Auk þess liggur enn ekki alveg ljóst fyrir hvað hún kann að vera mikil á þessu ári en áætlað er að hún sé líklegast um 126 millj. Þeir sem hafast að í þessum málum með þessum hætti, og þar er auðvitað átt við heilbr. - og trmrh., hafa raunverulega verið að framkvæma hluti, sem ég vildi segja að væri ekki heimild fyrir, þrátt fyrir skerðingarákvæði lánsfjárlaga fyrir árin 1990 og 1989. Það er því ekki gott mál eins og hv. þm. Karl Steinar sagði hér og greip fram í fyrir mér. Þess vegna er það mjög varhugavert inn á hvaða brautir er farið í sambandi við þennan sjóð. Okkur minnihlutafólki virðist að nú sé valin sú leið sem sé mjög óheppileg og óæskileg miðað við hlutverk Framkvæmdasjóðs. Það er stöðugt verið að ganga á þann megin - og grundvallartilgang sjóðsins sem er í fyrsta lagi að styrkja byggingu þjónustumiðstöðva, dagvistar - og þjónustuhúsnæðis aldraðra og hjúkrunarrýmis fyrir aldraða. Þetta er megintilgangur og meginhlutverk sjóðsins. En með því að taka fé úr sjóðnum, bæði með skerðingarákvæðum og með því að bæta inn því atriði að veita tímabundið rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða sem hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst, er verið að ganga á þennan sjóð og tímaspursmál hvenær allt það fé sem á að renna til sjóðsins er orðið að rekstrarfé. Það ætti þá að sjálfsögðu að vera í fjárlögum að mati þingmanna á hverjum tíma. Hér er því verið að fara bakdyramegin inn í Framkvæmdasjóð til að fjármagna rekstur og kostnaðaraukningu sem engar heimildir eru fyrir. Síðan er verið að koma með þetta frv. eftir á til að leiðrétta fortíðina og skapa möguleika fyrir framtíðina. Ég vara, virðulegi forseti, mjög alvarlega við þessari stefnu sem er í fyrsta lagi, að mínu mati, á mörkum þess að vera lögleg fyrir utan það að hún mun skaða mjög stöðu Framkvæmdasjóðs aldraðra og þessi málefni í heild.
    Ég vil síðan ítreka það við hv. þm. að brtt. 1. minni hl. eru þess eðlis að ef þær verða samþykktar,

þá mun staða Framkvæmdasjóðsins styrkjast að nýju og jafnframt verður komið í veg fyrir það að það sé verið að efna til rekstrarkostnaðaraukningar á þessu sviði og Framkvæmdasjóður notaður sem nokkurs konar endurtryggingaratriði til þess að staðið sé við þær skuldbindingar sem hæstv. ráðherra hefur samþykkt í sambandi við þessi mál.