Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. beindi nokkrum fyrispurnum við þessa umræðu til mín og hv. 8. þm. Reykn. Hv. 8. þm. Reykn. hefur nú svarað flestum þeim fyrirspurnum sem hér hafa komið fram og flutt skýringu á því hvers vegna félmrn. beindi þeirri ósk til nefndarinnar að flytja þær leiðréttingar sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni samhliða því frv. sem þá var til umfjöllunar í nefndinni. Reyndar kom sú ósk fram í Sþ., að mig minnir, þegar einn hv. þm. vakti athygli á því sem fram kom í sérprentun sem gefin hafði verið út að leiðrétta þyrfti. Þá greindi ég einmitt frá því að í undirbúningi væri að óska eftir því við félmn. deildarinnar að flytja slíkar brtt. Það lá auðvitað ljóst fyrir að hér var um ranga tilvísun að ræða sem ekki var veitt athygli í meðförum þingsins á málinu í þeirri sérprentun sem gefin var út til hagræðis fyrir þá sem þurfa á lögunum að halda. Var útgáfan gerð til hagræðis með hliðsjón af lagabreytingum sem gerðar hafa verið frá 1988. Þar var sérstaklega vakin athygli á þessu og einmitt til þess að benda á að leiðrétta þyrfti þessa greinatilvísun í 100. gr. laganna. Það kom fram um þessa grein við umfjöllun um frv. á þingi að ekki væri verið að breyta neinu varðandi það sem gilti áður en þau voru sett, en þar kom fram að þetta ákvæði væri samhljóða núgildandi lagaákvæði um þetta efni. Það var ekki verið að breyta neinu frá því sem var. Og auðvitað er ljóst að sérprentun hefur ekkert lagagildi og kom fram neðanmáls að það var einmitt verið að vekja athygli á því að ranglega væri vísað í þessa grein. Þess vegna hefur félmrn. borið fram þá ósk við nefndina að þetta yrði leiðrétt. Nú veit ég ekki betur en að hv. þm. óski eftir því að þessar greinar verði ekki afgreiddar og það hafi verið ósk a.m.k. sumra þingmanna Sjálfstfl. þegar þetta mál kom til umfjöllunar í Sþ. fyrir nokkru.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða efnislega um það sem fram hefur komið um mismuninn á þessari 100. og 101. gr. Það kom skýrt fram í máli frsm. félmn.
    Að því er varðar heilsuspillandi húsnæði fór fram efnisleg umræða um það þegar frv. var til umfjöllunar á síðasta þingi. Þá gerði frv. ráð fyrir því að sá lánaflokkur sem fjallar um heilsuspillandi húsnæði, sem þá var í Byggingarsjóði ríkisins, yrði lagður niður. Þar var líka vakin athygli á því að umsóknir um slík lán hefðu verið afar fáar og Byggingarsjóður verkamanna þjónaði því fyllilega að því er varðar útrýmingu á heilsuspillandi húsnæði. Einmitt af því að í þeim breytingum sem voru gerðar sl. vor þá væri verið að rýmka verulega ákvæði varðandi félagslegu íbúðirnar sem auðvelduðu þá sveitarfélögunum að kaupa leiguíbúðir í stað heilsuspillandi húsnæðis. Það voru ýmis ákvæði í því frv. sem að lögum varð sem rýmkuðu mjög og auðvelduðu sveitarstjórnum að koma upp leiguíbúðum í stað heilsuspillandi húsnæðis. Þess vegna var ekki talin ástæða til þess að hafa þennan lánaflokk frekar hjá Byggingarsjóði ríkisins.