Virðisaukaskattur
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Meginefni þessa frv. er að styrkja þann þátt virðisaukaskattslaganna sem miðar að því að tryggja innheimtu og traustara eftirlit. Komið hefur í ljós við athuganir að mjög skortir á að fyrirtæki og rekstraraðilar séu með sjóðvélar eða önnur reikningsskilakerfi. Könnun sem skattrannsóknarstjóri framkvæmdi í sumar leiddi í ljós að tíunda hvert fyrirtæki var án sjóðvéla. Hafi fyrirtæki ekki slíkan búnað er nánast ógjörlegt fyrir þau að geta metið rétt hvaða skatti þau eiga að skila í ríkissjóð. Skort hefur heimildir til þess að tryggja framkvæmd reglugerðar sem skyldar fyrirtæki til þess að vera með sjóðvélar eða svipuð reikningsskil. Er í þessu frv. lagt til að fjmrn. og önnur yfirvöld fái sambærilegar heimildir í þessum efnum og ef fyrirtæki standa ekki skil á skatti.
    Það hefur komið fram hjá aðilum viðskiptalífsins að þeim er það mikið kappsmál að öll fyrirtæki sitji við sama borð og þess vegna sé það eðlilegt að fyrirtæki hafi þann búnað sem tilskilinn er. Þá sé tryggt að samkeppnisstaða fyrirtækja sé ekki skert með því að sumir komi sér undan skilum með því að hafa ekki tiltekinn búnað.
    Þetta frv. var afgreitt samhljóða í hv. Nd. og ég mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn.