Útflutningsráð Íslands
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Útflutningsráð Íslands sem ætlað er að koma í stað gildandi laga, nr. 38/1986, um þetta efni með þeim breytingum sem á hafa orðið. Þetta frv. kemur eins og frv. um Iðnlánasjóð, sem fyrr var fyrir mælt, frá hv. Nd.
    Í gildandi lögum um Útflutningsráð eru ákvæði þess efnis að framlag sjávarútvegsins til ráðsins séu í formi tekna af útflutningsgjaldi en framlag iðnaðar sé í formi tekna af iðnlánasjóðsgjaldi.
    Svo vildi til að um líkt leyti og Útflutningsráð tók til starfa var tekjustofninn, útflutningsgjaldið af sjávarafurðum, lagt niður. Af þessum sökum var það ákveðið að framlag sjávarútvegsins til Útflutningsráðs á árunum 1987 -- 1989 yrði hluti af endurgreiddum uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi. Um áramótin 1989 -- 1990 var svo söluskattur lagður niður en virðisaukaskattur tekinn upp í hans stað. Þessi tekjustofn féll því niður og er enn óljóst hvernig sjávarútvegurinn greiðir framlag sitt til Útflutningsráðs á árinu 1990.
    Svo stendur einnig á að aðrir tekjustofnar ráðsins falla niður um áramót og ber því brýna nauðsyn til að ákveðinn verði nýr tekjustofn til að tryggja framlag atvinnuveganna til Útflutningsráðs og þess vegna er þetta frv. flutt. Það byggir í meginatriðum á tillögum nefndar sem utanrrh. skipaði sl. vor. Það ber að harma að álit nefndarinnar barst seint, þess vegna er þetta frv. svo seint fram komið. Ég mun gera hér nokkra grein fyrir helstu breytingum frá gildandi lögum. Ég tel þó ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um hverja grein í frv. heldur einungis þær þar sem verulegar efnislegar breytingar eru gerðar en eins og þingmenn geta séð þá er frv. heildarendurskoðun laganna um Útflutningsráð.
    Ég vík þá að 3. gr. sem fjallar um fjármögnun ráðsins. Við breytinguna falla niður tekjur af iðnlánasjóðsgjaldi, eins og deildinni var áður skýrt frá, og af útflutningsgjaldi, en eins og ég nefndi hefur Útflutningsráð reyndar aldrei fengið tekjur af síðarnefnda gjaldinu og má til sanns vegar færa að ráðið hafi verið heldur seinheppið með tekjustofna. En í þessari grein er nú gert ráð fyrir að öll fyrirtæki sem starfa í útflutningsgreinum greiði ákveðinn hundraðshluta af aðstöðugjaldsstofni sínum til ráðsins. Er það kannski til marks um seinheppni ráðsins að nú er mjög rætt um það að leggja þann gjaldstofn niður. Þó skal eigi undan því víkjast að flytja þetta frv. og ég mun gera nokkra grein fyrir því hvernig háttað verður þessari gjaldtöku sem nauðsynleg er til þess að tryggja framhald þessarar starfsemi.
    Eins og frv. kemur frá hv. Nd. er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að 0,05% renni til ráðsins af aðstöðugjaldsstofni fiskvinnslu, iðnaðar og byggingarstarfsemi. Í öðru lagi að 0,03% renni frá fiskveiðum af aðstöðugjaldsstofni þeirra. Og í þriðja lagi 0,01% af aðstöðugjaldsstofni flutninga á sjó og flugrekstrar, þó ekki fragtflutninga eða innanlandsflugs, og svo þeirra aðila í öðrum atvinnugreinum sem kynnu að kjósa

sjálfir að gerast aðilar að ráðinu.
    Ég tel að með þessu sé fullnægjandi grein gerð fyrir meginefni frv., að öðru leyti skýrir það sig sjálft, og tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um það og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.