Lánsfjárlög 1991
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir síðustu orð hæstv. fjmrh. um breytta vinnutilhögun í þessum efnum en henni verður nú því miður ekki komið á nema með því að breyta stjórnarskrá lýðveldisins því að þar er kveðið á um að öll lög önnur en fjárlög og fjáraukalög skuli meðhöndlast í deildum þingsins. Hins vegar er það augljóst framfaramál að gera þessa breytingu þannig að öll ríkisfjármálin gangi til sömu nefnda hér í þinginu.
    Það er jafnframt rétt hjá hæstv. ráðherra að almennt séð er það mjög æskilegt að afgreiðsla lánsfjárlaga og fjárlaga haldist í hendur hér í þinginu þannig að þessi tvö veigamiklu mál séu afgreidd nokkurn veginn samhliða. En það er auðvitað háð því, virðulegi forseti, að frágangur beggja málanna sé með þeim hætti að Alþingi geti séð sér fært að afgreiða þau.
    Ég hef miklar efasemdir um það að frv. til lánsfjárlaga eins og það er nú komið frá Ed. sé komið í þann búning að þingið geti verið þekkt fyrir að afgreiða málið eins og nú standa sakir. Það er alveg ljóst að það eru verulega margir lausir endar í þessum málum sem auðvitað tengjast síðan afgreiðslu fjárlaganna. Það eru fjölmörg mál sem er skotið á frest, sópað undir teppið, í fjárlagaafgreiðslunni að því er virðist og mjög líklegt að afla þurfi frekari lánsfjárheimilda. Af þeim sökum einum væri skynsamlegt og eðlilegt að fresta afgreiðslu lánsfjárlaganna þar til þau mál liggja skýrar fyrir eftir áramótin.
    Ég minni á að hv. 1. þm. Norðurl. v., hinn góðkunni formaður fjh. - og viðskn., sagði í Þingsjá sl. mánudag í ríkissjónvarpinu að það hefði nú frekar verið venja en hitt að frv. til lánsfjárlaga biði fram yfir áramótin og afgreiðsla þess færi fram á eftir fjárlögunum og gaf mjög í skyn að sú kynni að verða raunin í þetta sinn. Ég er ósköp hræddur um að ég verði að vera honum sammála að því er þetta frv. varðar þó að ég sé á hinn bóginn á því að það sé góð vinnuregla að afgreiða lánsfjárlög samhliða fjárlögum. En þegar málin eru ekki betur frágengin, þegar lausir endar eru svo margir sem raun ber vitni, þá getur verið óhjákvæmilegt að fresta málinu eins og skilja mátti á formanni fjh. - og viðskn. sl. mánudagskvöld að óhjákvæmilegt væri í þetta sinn.
    Í Ed. gerðust þau undarlegu tíðindi að frsm. fjh. - og viðskn., formaður nefndarinnar, sem jafnframt er formaður eins þingflokks í stjórnarliðinu skrifaði undir nál. meiri hl. nefndarinnar, meiri hluta stjórnarflokkanna, með fyrirvara. Ég hygg að það sé nokkuð spaugilegt, eins og fjmrh. gefur í skyn hér með látbragði sínu, að þannig sé frá málum gengið. Þetta með öðru sýnir nú ástandið á þessu blessaða stjórnarheimili þegar sjálfur formaður fjh. - og viðskn., máttarstólpi ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki í Ed., treystir sér ekki til þess að skrifa undir frv. fyrirvaralaust. Og ræða hans í Ed. í gær um þetta mál sagði auðvitað meira en ég get sagt til að lýsa því ástandi sem þarna er upp komið. (Gripið fram í.) Fjmrh. skýtur því hér inn í mér til fróðleiks að þessi fyrirvari

hafi ekkert með frv. að gera. Ég verð nú að segja að þá botnar maður enn minna í þeirri hundalógik sem uppi er höfð meðal stjórnarliða í þessum málum öllum ef almenn andstaða við ríkisstjórnina er látin koma fram í fyrirvara formanns fjh. - og viðskn. við frv. til lánsfjárlaga. En ég hygg þó að hv. þm., formaður þingflokks Borgfl., hafi haft eitthvað til síns máls þegar hann var að gagnrýna málsmeðferð í þessu efni í Ed. og þær breytingar sem upp eru komnar á vegum ríkisstjórnarinnar.
    Það er oft svo þegar lánsfjárlögin eru til umræðu að menn beina umræðunni almennt að efnahagsmálum, einkum peninga - og vaxtamálum, og án þess að ég hyggist eyða löngu máli í þau atriði, þá finnst mér ástæða til að nefna það sem fram kemur í greinargerð Seðlabanka Íslands um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum, sem dags. er 4. des. sl. En þar segir á bls. 9 eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Vissar líkur benda því til þess að nú sé svikalogn á lánamarkaðnum og það geti breyst skyndilega þegar efnahagslífið kemst upp úr lægðinni. Því er afar brýnt að dregið verði úr lánsfjárþörf hins opinbera og einnig heimila svo að rúm skapist fyrir óhjákvæmilega lánsfjármiðlun til atvinnulífsins á ný. Hætt er við að stjórntækni á sviði peninga - og lánamála nægi ekki til að viðhalda jafnvæginu þegar efnahagshjólið fer að snúast hraðar, heldur verði að treysta á verulegt framlag ríkisfjármála í þeim efnum.``
    Hér er vissulega komið að nokkrum kjarna máls í sambandi við þessi málefni öll. Það er vissulega svo, eins og fjmrh. hefur hælt sér af, að lánsfjármögnun hins opinbera á innlendum lánamarkaði á þessu ári hefur gengið vel. Það er, svo langt sem það nær, ánægjulegt og auðvitað er ég honum sammála um það að að því marki sem halli kann að vera á ríkisbúskapnum, þá eigi að neyta flestra ráða til að fjármagna hann
innan lands. Það hefur tekist í stórum mæli á þessu ári og það eitt út af fyrir sig er ánægjuefni.
    Hins vegar liggur jafnframt fyrir að aðstæður í efnahagslífinu almennt eru nú þær að lánsfjáreftirspurn af hálfu atvinnuveganna hefur verið tiltölulega lítil. Það er m.a. vegna þess að það er lítið fjárfest í atvinnulífinu miðað við það sem oft hefur verið, en jafnframt vegna þess að atvinnufyrirtækin hafa í ríkari mæli aflað sér fjár til fjárfestingar með hlutafjárútboðum og annarri eiginfjármyndun. Hér er hins vegar bent á það hvað gerast kunni ef hjól atvinnulífsins fara að snúast hraðar heldur en verið hefur, ef fjárfesting eykst og eftirspurn atvinnulífsins eftir lánsfjármagni þar með. Þá er nú ansi hætt við að það hrikti í á þessum tiltölulega litla lánsfjármarkaði sem hér er. Það er auðvitað alveg rétt sem á er bent í þessari skýrslu að haldi ríkisvaldið uppteknum hætti varðandi eftirspurn eftir lánsfé, þá mun aukin eftirspurn atvinnulífsins hafa þau óhjákvæmilegu áhrif að vextir leiti upp á við. Þetta hygg ég að öllum sé ljóst. Þetta er hins vegar þróun sem ástæða er til að reyna að sporna við með því að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera. Það er ekki gert í því frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir. Þvert á móti hefur lánsfjárþörf ríkissjóðs sjálfs verið aukin í meðförum Ed., að undirlagi ríkisstjórnarinnar að sjálfsögðu, úr 11,8 milljörðum í rúmlega 14 milljarða að því er mér sýnist. Þar fyrir utan eru svo hin óleystu vandamál sem í fjárlagafrv. felast, vandamál hinna fjölmörgu lánasjóða ríkisins sem ekki er tekið á, hvorki í fjárlögum né lánsfjárlögum, en verður óhjákvæmilegt að gera á næsta ári með frekari lántökum. Og þá er nú hætt við, eins og segir hér í skýrslu Seðlabankans, með leyfi forseta: að ,,stjórntækni á sviði peninga - og lánamála nægi ekki til að viðhalda jafnvæginu`` eins og það er svo lystilega orðað.
    Nei, vitanlega er mikilvægt að menn fjalli um þessi mál af nokkurri ábyrgð og þeirri festu sem tilheyrir á þessu sviði. En þau lausatök sem hér hafa verið uppi höfð eru ekki traustvekjandi og vekja ekki vonir um það að komið verði í veg fyrir frekari hækkun raunvaxta sem óhjákvæmilega verður þegar líf færist á nýjan leik í fjárfestingar atvinnulífsins. Það er e.t.v. ekki langt að bíða þess að svo verði ef til að mynda áform ná fram að ganga um samning um byggingu nýs álvers. Þá má vænta þess strax og það liggur fyrir að fjölmörg fyrirtæki hugsi sér gott til glóðarinnar varðandi fjárfestingar og öflun tækja til þess að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem þar mun fara fram. Það er alveg ljóst að að öðru óbreyttu munu þau umsvif hafa áhrif til þess að beina vöxtum upp á við. Þess vegna verður mjög mikilvægt að ríkisfjármálastjórnin verði á þann veg að hún hamli gegn slíkri þenslu og að lánsfjáröflun á vegum hins opinbera minnki helst til samræmis til að skapa þarna aukið svigrúm. En það er ekkert sem bendir til þess, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin hafi hugsað fyrir þessu eða hugsað sér að grípa til einhvers konar ráðstafana til að reyna að mæta því sem þarna augljóslega blasir við og sem Seðlabankinn varar við og kallar svikalogn að því er varðar núverandi ástand á lánamarkaðnum. Þannig að þetta frv., sem nú er komið hingað til meðferðar frá Ed., ber öll einkenni þess að vera hluti af þessu svikalogni þar sem vandamálum er sópað til hliðar í augnablikinu til þess að geta afgreitt hér málin nánast til málamynda fyrir jólaleyfi þingsins og geta komið og sagt í upphafi næsta árs og jafnvel fram í apríl, fram að kosningum, að þessi mál séu nú í góðu horfi, hafi verið afgreidd á Alþingi fyrir jól o.s.frv. En þegar nánar er að gáð þá blasir við að lánsfjárvandanum hefur verið sópað á undan sér og ef að líkum lætur fram yfir kosningar.
    Þetta held ég að sé óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að fram komi hér við 1. umr. jafnframt því sem ég vil ítreka að eins og þetta mál er í pottinn búið, þá tel ég ógætilegt að freista þess að afgreiða það nú í skyndingu í Nd., afgreiða það í flýti í gegnum fjh. - og viðskn. Nd. og deildina alla.
    Á þessu augnabliki sitja bankaráð ríkisbankanna á fundi og ég þykist vita að hv. stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, 6. þm. Norðurl. e., bíði í nokkru ofvæni eftir því hvaða ákvarðanir kunna að koma frá þeim

fundum. En mér er ekki grunlaust um að þær breytingar sem þar kunna að vera í vændum staðfesti það sem ég hef hér vitnað til úr skýrslu Seðlabankans og kunni að vera aðeins byrjunin á því sem fram undan er ef það fer sem hér er spáð og sem auðvitað öll rök hníga til, að vextir muni hækka í landinu þegar atvinnulífið eykur sínar fjárfestingar nema ríkisvaldið dragi úr lántökum sínum á móti.
    Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að orðlengja frekar um þetta mál en ég vildi mælt hafa þessi viðvörunarorð hér jafnframt því sem ég ítreka það að Sjálfstfl. er reiðubúinn til samstarfs um að fresta þessu máli fram yfir áramót þannig að það megi fá vandaða meðferð en afgreiðslu að loknu jólahléi.