Fangelsi og fangavist
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. minni hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar var nefndin ekki sammála um afgreiðslu þessa máls og ég hef skilað minnihlutaáliti á þskj. 386 þar sem þetta kemur fram. Það kemur einnig fram í nál. mínu að ég er sammála þeirri brtt. sem kemur fram hjá meiri hl., að úrskurða skuli í kærumáli innan tveggja sólarhringa, og að sjálfsögðu styð ég einnig a - og c - lið 2. gr. frv. um brottfall 1. málsl. 3. mgr. og að 6. mgr. falli brott eins og segir í frv., en ég flyt hins vegar brtt. við 1. gr. og b-lið 2. gr. Þær brtt. flyt ég ásamt hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni og Kristínu Einarsdóttur og eru þær á þskj. 387.
    Ég eyði ekki dýrmætum tíma hv. deildar í að lesa þessar brtt. frá orði til orðs en þær fela það í sér að ákvörðun um einangrun fanga eða agaviðurlög sæti ekki kæru beint til dómsmrn. heldur verði að kæra fyrst til Fangelsismálastofnunar.
    Ég vil í þessu sambandi vísa til bréfs sem formanni allshn. var sent frá fangelsismálastjóra, Haraldi Johannessen. Það bréf er dags. 23. nóv. sl. Þar fer hann fyrst nokkrum orðum um þau ákvæði sem enginn ágreiningur er um, og ég hleyp yfir þann kafla bréfsins, en svo segir í bréfinu, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hins vegar er í fyrirliggjandi lagafrv. gert ráð fyrir því að fangi geti skotið ákvörðun forstöðumanns fangelsis beint til dómsmrn. fram hjá Fangelsismálastofnun. Vegna þessarar málskotsleiðar vill stofnunin benda á að skv. lögum nr. 48/1988 fer Fangelsismálastofnun með daglega yfirstjórn fangelsismála, þ.e. rekstur allra ríkisfangelsanna, fullnustu refsidóma og öll mál sem varða fanga.
    Stofnunin leyfir sér að leggja til við hv. allshn. neðri deildar Alþingis að þær breytingar verði gerðar á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, að fangi geti skotið ákvörðun forstöðumanns fangelsis fyrst til Fangelsismálastofnunar en hafi jafnframt heimild til að skjóta ákvörðun stofnunarinnar til dómsmrn. sem fer með yfirstjórn fangelsismála. Þannig gæti fangi ekki skotið ákvörðun forstöðumanns fangelsis beint til ráðuneytis eins og ráð er fyrir gert í fyrirliggjandi frv.
    Tillögur Fangelsismálastofnunar byggjast á því að skapa eðlilega, rétta og umfram allt hraðvirka málskotsleið vegna stöðu og verkefna stofnunarinnar í fangelsiskerfinu og að málefni er varða stofnunina berist henni fyrst. Slíkt hlýtur að teljast rétt opinber stjórnsýsla.``
    Þetta vildi ég nú taka fram úr bréfi fangelsismálastjóra. Og mínar tillögur sem ég flyt, eins og ég sagði áðan, ásamt hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og Friðjóni Þórðarsyni, hníga í þá átt að taka tillit til þessara ábendinga fangelsismálastjóra.
    Ég vil aðeins til viðbótar því sem kemur fram í bréfi fangelsismálastjóra bæta við nokkrum atriðum sem hníga í þessa átt. Fangelsismálastofnun ríkisins var sett á fót með lögum nr. 48 frá 19. maí 1988, um fangelsi og fangavist. Þessi lög öðluðust gildi 1. jan. 1989 og þá tók Fangelsismálastofnun við verkefnum

fangelsismáladeildar dómsmrn. og verkefnum Skilorðseftirlits ríkisins. Fangelsismálastofnun eru mörkuð meginverkefni í 2. gr. laga nr. 48/1988 og jafnframt í reglugerð nr. 569 frá 30. des. 1988, um upphaf og lok fangavistar, og reglugerð nr. 119 frá 9. mars 1990, um bréfaskipti, símtöl og heimsóknir til afplánunarfanga. Skilorðseftirlit ríkisins, sem stofnsett var 1. apríl 1974 með reglugerð nr. 20 frá 21. jan. 1974, var lagt niður og sameinað Fangelsismálastofnun. Með 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 569/1988 voru felldar brott starfsreglur fyrir fangelsismáladeild dómsmrn. og verkefni deildarinnar færð undir Fangelsismálastofnun. Þar með voru verkefni færð undir sjálfstæða ríkisstofnun sem áður voru í höndum annarra aðila.
    Eins og ég sagði áðan eru Fangelsismálastofnuninni mörkuð meginverkefni í 2. gr. laganna nr. 48/1988. Þar er kveðið á um að Fangelsismálastofnun annist daglega yfirstjórn á rekstri fangelsa, sjái um fullnustu refsidóma, annist félagslega þjónustu við fanga og þá sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun eða frestun afplánunar, en það er jafnframt hlutverk stofnunarinnar að annast eftirlit með þeim. Þá sér stofnunin um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta svo sem heilbrigðisþjónusta, prestsþjónusta o.s.frv.
    Í 4. gr. reglugerðarinnar sem ég minntist hér líka fyrr á, nr. 569/1988, er Fangelsismálastofnun falið að annast veitingu reynslulausnar skv. 40. gr. almennra hegningarlaga. Í 5. gr. reglugerðarinnar er jafnframt kveðið á um að stofnunin taki á móti umsóknum um náðun af refsingu og undirbúi náðunartillögur.
    Íslenska ríkið á öll fangelsi hér á landi og ber kostnað af rekstri þeirra. Það er um að ræða sex ríkisfangelsi. Dómsmrh. fer með yfirstjórn fangelsismála og ákveður staðsetningu, gerð og rekstrarfyrirkomulag fangelsanna, en Fangelsismálastofnun annast daglega yfirstjórn á rekstri fangelsanna eins og áður sagði. Fangelsismálastofnun var m.a. sett á fót til að sameina hjá einu stjórnvaldi þau mál sem áður voru í fangelsismáladeild dómsmrn. og hjá Skilorðseftirliti ríkisins.
    Með þessari kerfisbreytingu var komið á fót lægra settu stjórnvaldi sem ábyrgð ber á öllum þeim málum er lögum samkvæmt heyra undir stofnunina. Fangelsiskerfið er þannig byggt upp samkvæmt fangelsislöggjöfinni að forstöðumenn ríkisfangelsanna bera ábyrgð á rekstri sinna fangelsa og ákvörðunum sínum gagnvart Fangelsismálastofnun. Stofnunin skiptir sér ekki dags daglega af rekstri fangelsanna eða daglegum ákvörðunum forstöðumanna þeirra. Fangelsislöggjöfin sýnist byggð þannig upp að jafnmikið stjórnarfarslegt bil er á milli Fangelsismálastofnunar og hinna einstöku fangelsa annars vegar og Fangelsismálastofnunar og dómsmrn. hins vegar.
    Þess vegna vaknar sú spurning hver þau rök séu nú að breyta þessari kerfisuppbyggingu sem lögin settu á í þá átt að ákvörðunum forstöðumanna fangelsanna verði ekki skotið fyrst til Fangelsismálastofnunar í þeim málum sem hér um ræðir heldur fram hjá

henni gengið og farið beint til dómsmrn. Hér er beinlínis gengið gegn tilgangi laganna og uppbyggingu þeirra á fangelsiskerfinu að því er mér sýnist og spurning er hvort ekki sé verið að koma hér á seinvirkara og ótraustara kerfi með þeirri breytingu sem lögð er til. Þá vaknar líka sú spurning hvert hlutverk Fangelsismálastofnunar í fangelsiskerfinu er þá orðið og hver staða hennar er gagnvart fangelsunum sem undir hana heyra ef það verður ofan á að unnt sé að ganga fram hjá stofnuninni og beint til ráðuneytisins.
    Mér sýnist að með þessu móti sé verið að færa hlutverk Fangelsismálastofnunarinnar aftur til ráðuneytisins. Ég vil fullyrða að það teljist eðlileg stjórnsýsla að þessum málum eins og öðrum verði í fyrstu atrennu skotið til stofnunarinnar en ákvörðun hennar verði síðan hægt að skjóta til æðra stjórnvalds, þ.e. til dómsmrn.
    Tillaga er svo gerð um að frestur til slíks málskots sé ekki lengri en tveir sólarhringar. Við gerum ráð fyrir í okkar tillögu að það sé einn sólarhringur hjá hvorum aðila, einn sólarhringur hjá Fangelsismálastofnun og einn sólarhringur hjá dómsmrn., en í tillögu meiri hl. nefndarinnar er gert ráð fyrir að dómsmrn. hafi tvo sólarhringa til þess að úrskurða þannig að tíminn er sá sami.
    Það er ekki ágreiningur um það í nefndinni að nauðsyn beri til að fella brott það ákvæði að einangrun lengi refsitímann og það er heldur ekki um það deilt hver sé eðlileg og rétt stjórnsýsla í því fangelsiskerfi sem Alþingi hafði hugsað sér að byggja upp, alla vega eins og ég skil lögin frá 1988.
    Því hefur verið haldið fram og var haldið fram í nefndinni að Fangelsismálastofnun sé í of mikilli nálægð við ákvarðanir forstöðumanna fangelsanna til að geta talist óhlutdrægur aðili við málskot. Þetta eru ekki rök að mínu viti sem fremur eiga við hér en almennt gengur og gerist um opinbera stjórnsýslu. Forstöðumennirnir annast daglegan rekstur fangelsanna undir yfirstjórn stofnunarinnar en eru ekki beint starfsmenn hennar eða hafa þar aðsetur. Ég held því hins vegar fram að þessi málskotsleið, sem við leggjum hér til, muni frekar auka réttaröryggi fanga og veita forstöðumönnum fangelsanna meira aðhald heldur en hitt. Því má jafnframt halda fram að meira öryggi um samkvæmni, sanngirni og réttaröryggi sé fólgið í því að skjóta málum fyrst til Fangelsismálastofnunar, sem hefur á hendi flestallt er fangelsismál varðar, fremur en til ráðherra sem koma og fara. Mér sýnist í raun og veru að við séum að takast hér á um það hvernig skilja beri fangelsislöggjöfina hvað varðar málskot til lægra setts og æðra setts stjórnvalds og hvaða reglur gilda í dag um það efni. Því miður er það svo að þingmenn, alla vega þeir sem eru í hv. allshn., eru ekki um það sammála. Það má líka segja að það sé tekist á um það hver ætti að vera eðlilegust stjórnsýsla í því efni og ég ítreka að mér sýnist að það fari best á því að málum verði fyrst skotið til Fangelsismálastofnunar og ákvörðun stofnunarinnar verði skotið til dómsmrn. og allt innan þessara ákveðnu tímamarka sem tillögur okkar gera ráð fyrir.

    Ég þarf ekki, herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum. Mér er ljóst að það skiptir máli að hraða fremur en hitt afgreiðslu þessa máls en ég legg afar mikla áherslu á að tillögur okkar þriggja þingmanna á þskj. 387 verði samþykktar. Mér sýnist satt að segja vera ekki til of mikils mælst að hv. allshn. taki þetta mál til frekari yfirvegunar á milli 2. og 3. umr. Að vísu ræddi nefndin þetta á nokkrum fundum. Því miður átti ég ekki kost á að mæta á þeim öllum. Ég gat t.d. ekki verið á þeim fundi nefndarinnar þar sem fulltrúi frá félagssamtökunum Vernd mætti, en ég skil það svo að hann hafi lagst mjög eindregið gegn þessum hugmyndum um málskot til Fangelsismálastofnunar. Ég heyrði ekki röksemdir hans og á þess vegna kannski verra með að skilja hvers vegna hann hefur lagst gegn þeirri málskotsleið. En með fullri virðingu fyrir þessum félagssamtökum þá sýnist mér alveg ljóst að þau koma ekkert inn í ákvarðanir hinnar opinberu stjórnsýslu. Þetta er líknarfélag áhugafólks, og allt gott um það að segja, en það er ekki hluti af stjórnsýslunni og ber auðvitað enga ábyrgð að lögum. Þess vegna sýnist mér vandséð hvernig þau félagssamtök eiga að hafa afgerandi áhrif á þessa ákvörðun.
    Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta frekar en ítreka þessar tillögur okkar. Við leggjum mikla áherslu á að þær verði samþykktar.