Ferðaþjónusta
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál almennt, enda mér málið nokkuð skylt sem fulltrúa í þeirri nefnd sem undirbjó frv. En það var ræða hv. 2. þm. Reykv. sem er ástæðan fyrir því að ég bað hér um orðið. Ég heyrði hér hv. 13. þm. Reykv. gefa sig fram en ég ætla ekki að víkja að hennar máli, sem ég raunar hlýddi ekki á hér í deildinni en kannast eitthvað við þau sjónarmið sem hv. þm. kann að hafa viðrað varðandi málið. En sú efnislega ræða sem hv. 2. þm. Reykv. flutti er vissulega gott innlegg inn í þetta mál til umhugsunar og athugunar varðandi málið í nefnd. Það er búin að fara fram mikil umræða og mikil umhugsun í sambandi við stjórnunarþætti ferðamálanna í nefndinni sem undirbjó málið og þar á meðal varðandi ferðaþingið og tengsl þess við Ferðamálaráð og það sem þessu þingi er ætlað að gera, m.a. að kjósa fjóra fulltrúa af níu í Ferðamálaráð.
    Ég tel að þetta fyrirkomulag hafi marga kosti, vafalaust einnig einhverja galla. Það kerfi sem þarna er verið að setja á fót þyrfti auðvitað að fá reynslu ef lögfest verður og þá er alltaf hægt að breyta til. En ég hef ekki fyrir fram þær áhyggjur sem hv. 2. þm. Reykv. viðraði hér, að það þurfi að verða allt of laust í böndum og þunglamalegt að fara þessa leið. Ég vil benda á í þessu sambandi að ferðamálin eru mjög fjölskrúðugur atvinnuvegur með óvenjumörgum aðilum sem tengjast atvinnuveginum, ferðaþjónustu. Það er mjög freistandi að gefa hinum ýmsu samtökum í ferðamálunum möguleika á ekki aðeins að koma málum almennt að á ferðaþingi heldur einnig að eiga möguleika á að koma fulltrúum í Ferðamálaráð. Ég held að svona opinn vettvangur kalli á það að þeir sem beita sér þar og eru líklegir til áhrifa í þágu atvinnuvegarins þurfi að líta nokkuð breitt á sviðið ef þeir eiga að fá stuðning inn á þennan vettvang, Ferðamálaráð, og því geti það haft verulega kosti að ætla þessum vettvangi þessi áhrif sem er kjör í Ferðamálaráð. Reglugerðin sem yrði sett um þetta yrði að sjálfsögðu að mótast í tengslum við hagsmunaaðila. Þeir hljóta að gefa sig fram sem hafa áhuga á að eiga fulltrúa á þessum vettvangi eða sem fyndust þeir vera sniðgengnir þannig að þetta yrði vafalaust nokkuð fjölmennur vettvangur, ferðaþingið.
    Á bls. 32 í fylgiskjölum eru sýnd drög að reglugerð um ferðaþing en þó án þess að telja upp þá mörgu hagsmunaaðila sem koma þurfa við sögu í sambandi við þingið og eiga þar setu- og atkvæðisrétt. Það er alveg rétt til getið hjá hv. 2. þm. Reykv. að nefndarmenn höfðu nokkra hliðsjón af náttúruverndarþingi og því fyrirkomulagi sem þar hefur verið við lýði síðan lög voru sett um náttúruvernd 1971. Hafa líklega verið haldin sjö slík þing og ég er ekki alveg viss um að sú gagnrýni sé réttmæt sem ég hef vitanlega heyrt varðandi þann vettvang og þann hlut sem náttúruverndarþingi er ætlaður, því er reyndar ætlaður mun meiri hlutur en hér er gert í sambandi við Ferðamálaráðið. Náttúruverndarþing kýs alla í

Náttúruverndarráð fyrir utan formann sem er skipaður af ráðherra. En hér er það þó minni hluti Ferðamálaráðs sem ferðaþingi er ætlað að kjósa.
    Ég held að athugasemdirnar sem varða reynsluna af náttúruverndarþinginu séu kannski meira komnar frá embættismannahlið en hins vegar hafi það haft alveg ótvíræða kosti, félagslega séð, að veita jafnmörgum aðgang að náttúruverndarmálunum eins og gerist í gegnum náttúruverndarþingið. Ég er ekki að segja að þetta sé að öllu leyti sambærilegt en þetta er að sjálfsögðu skylt að vega og meta. Þetta fyrirkomulag gefur möguleika á því að halda því opnu að hluta til hverjir eiga fulltrúa í Ferðamálaráði, hverjir geta komið mönnum inn á þann vettvang. Hagsmunasamtökin eru svo margfalt fleiri en rúm er fyrir í Ferðamálaráði, ég tala nú ekki um miðað við þá fækkun sem hér er lögð til og raunar útilokað að ætla svona ráði að vera skipað fulltrúum allra þeirra mörgu hagsmunaaðila sem vafalaust hefðu áhuga á að koma að þeim vettvangi en hafa hins vegar möguleika á ferðaþinginu.
    Það var þetta, virðulegur forseti, sem ég vildi eingöngu gera að umtalsefni og ætla ekki taka frekari tíma af hv. þingdeild.