Útflutningsráð Íslands
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. við þetta frv. sem birt er á þskj. 423. Ástæða þeirrar till. er að viðræður við ýmsa áhugaaðila um þetta mál hafa leitt í ljós að ástæða er til að draga úr gjaldskyldu fiskveiðanna með tilliti til þess að það er tekið gjald í Útflutningsráð samkvæmt tillögunni af fiskvinnslunni. Þess vegna þykir ástæða til að stofna nýtt gjaldþrep, 0,03%, fyrir fiskveiðarnar sérstaklega.
    Þá hefur líka komið fram að ástæða væri til að létta gjaldskyldunni af veitinga- og hótelrekstri og að því leyti til er þessi tillaga sama eðlis og sú brtt. sem hv. fjh.- og viðskn. hefur flutt.
    Ég mælist til þess við þingdeildina að hún taki þessa brtt. til greina og vona að með því móti sé hægt að ná víðtækri samstöðu um þetta mál. Ég nefni það líka að í c-lið er hér gerð tillaga um það að fyrir utan það að fella gjaldskylduna af veitinga- og hótelrekstrinum sé það valkostur fyrir aðila í öðrum atvinnugreinum en þeim sem tilgreindar eru í 3. gr., að kjósa sjálfir að gerast aðilar að Útflutningsráði og gjalda þá til þess 0,01% af aðstöðugjaldsstofni.