Útflutningsráð Íslands
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara eins og fram kemur á því skjali sem hefur að geyma nefndarálitið. Ég tel bráðnauðsynlegt að setja þessi lög og breyta þeim nú fyrir áramótin og styð það að sjálfsögðu. En það er ekki hægt að komast hjá því að benda á að þessar umræður sanna það betur en nokkuð annað hvernig undirbúningi er háttað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um stjfrv. almennt. Hér þurfa hæstv. ráðherrar að ræðast við í þingdeild um brtt. sem kemur fram við frv. sem allt of seint er fram komið. Ég minni á að sömu sögu er að segja um önnur frv., til að mynda mjög stórt frv. sem er frv. um tryggingagjald þar sem í ljós kom að láðst hafði að breyta því frv. sem dreift var til samræmis við óskir Framsfl. Síðar kom í ljós, reyndar eftir að málið hafði verið rætt í nefnd um nokkurn tíma, að Framsfl. hafði ákveðið að fylgja ekki því frv. nema það tæki þeim breytingum sem nú hefur verið lagt til af meiri hl. hv. nefndar. Ég nefni þetta sem dæmi vegna þess að hæstv. forsrh., og reyndar hæstv. ráðherrar allmargir hafa látið í það skína á stundum að það sé verið að tefja þingstörf og það sé stjórnarandstaðan sem komi í veg fyrir það að mál fái afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi. Hér er ein órækasta sönnunin fyrir því hvernig unnið er að frumundirbúningi þingmála.
    Þrátt fyrir allt þetta sem ég hef sagt hér tel ég fulla ástæðu til þess að þetta mál fái afgreiðslu. Vona ég svo sannarlega að menn komi sér saman um það hvaða orðalag þeir vilja nota í þessari grein, enda hefur það efnislega þýðingu hverjir koma til með að greiða gjald til Útflutningsráðsins.