Jöfnunargjald
Föstudaginn 21. desember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegi forseti. Á fundi hv. fjh.- og viðskn. Nd. í morgun voru mörg mál afgreidd út úr nefndinni. Þeirra á meðal var að finna frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem þegar hefur verið afgreitt sem lög frá Alþingi og frv. um breytingar á lögum um jöfnunargjald sem hér er nú til umræðu. Við hvorugt þessara mála lýsti ég, sem á sæti fyrir hönd Kvennalistans í hv. nefnd, andstöðu. Hins vegar bregður svo við þegar nál. berast á borð þingmanna. að mitt nafn er ekki að finna undir því nál. Hlýt ég að líta svo á að stjórnin láti sig litlu varða hvort Kvennalistinn styður málin eða ekki og munum við kvennalistakonur sitja hjá í því máli sem nú er til umræðu líkt og við gerðum um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Jafnframt vildi ég þá mælast til þess að stjórnarliðar spöruðu sér yfirlýsingar um að það væri aldrei stuðning að finna við tekjuöflunarfrv.