Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Föstudaginn 21. desember 1990


     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Kristinn Pétursson) :
    Hæstv. forseti. Nefndin hefur rætt frv. sem felur í sér að færeysk og grænlensk fiskiskip verði undanþegin ákvæðum laga er banna erlendum fiskiskipum að landa afla sínum í íslenskum höfnum nema með sérstöku leyfi ráðherra.
    Fyrir nefndinni lágu umsagnir um frv. frá 110. þingi frá Sjómannasambandi Íslands, Farmanna - og fiskimannasambandinu, Félagi ísl. fiskmjölsframleiðenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Fiskifélagi Íslands.
    Nd. afgreiddi þetta frv. til Ed. á síðasta þingi, en þar var samþykkt að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Meiri hl. nefndarinnar mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Minni hl. skilar séráliti.
    Guðni Ágústsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.
    Hæstv. forseti. Ég vil minna á það að samþykkt frv. gefur möguleika á auknum þjóðartekjum og auknum samskiptum erlendra fiskiskipa við íslensk þjónustufyrirtæki, svo sem í iðnaði og verslun, og í því sambandi nefni ég sérstaklega skipasmíðaiðnað sem hefur átt í erfiðleikum eins og kunnugt er. Ég leyfi mér því að mæla eindregið með samþykkt þessa frv.