Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Föstudaginn 21. desember 1990


     Frsm. minni hl. sjútvn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér álit frá minni hl. sjútvn. á þskj. 384. Þar kemur fram að minni hl. álítur að skip frá Grænlandi og frá Færeyjum geti í hvert sinn fengið heimild til löndunar hér á Íslandi þegar þau þess óska. Það er rétt að áliti minni hl. að láta breytingar á ákvæðum um löndunarrétt þessara þjóða bíða uns náðst hafa frekari samningar um gagnkvæma nýtingu sameiginlegra fiskstofna því telja verður að löndunarréttindi muni skipta verulegu máli í viðræðum um nýtingu þessara stofna milli þjóða í alþjóðlegum samningum. Það geti veikt samningsaðstöðu okkar ef við hefðum í raun einhliða afsalað okkar ákvörðunarrétti í þessu efni.
    Minni hl. leggur því til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er framsögumaður einn sem stendur að þessu minnihlutaáliti. Undir það ritar Jón Sæmundur Sigurjónsson.