Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 21. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Frv. felur í sér breytingu á 94. gr. laga nr. 86/1988 sem fjallar um stimpilgjöld. Í frv. er lagt til að ekki sé greitt stimpilgjald af félagslegum íbúðum, hvorki af lánssamningum sem gerðir eru við framkvæmdaraðila vegna byggingar eða kaupa á félagslegum íbúðum né af skuldabréfum sem framkvæmdaraðili gefur út í verklok.
    Það frv. sem varð að lögum nr. 70/1990, um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, fól í sér ýmsar breytingar sem leiddu af sér kostnaðarhækkun fyrir lántakendur. Þar á meðal var hækkun vaxta á framkvæmdalánum. Á móti var hins vegar ákveðið að fella niður stimpilgjöld af félagslegum íbúðum en áður höfðu einungis afsölin verið stimpilfrjáls en ekki skuldabréf.
    Eftir að lög nr. 70/1990 voru afgreidd frá Alþingi komu aðrir framkvæmdaraðilar til sögunnar en sveitarfélögin. Á þeim tíma sem unnið var að frv. sem varð að lögum nr. 70/1990 tíðkaðist ekki að framkvæmdalánasamningi skyldi þinglýst og stimpilgjald var ekki greitt. Við samningu frv. var því ekki fjallað sérstaklega um stimpilgjöld vegna framkvæmdalánasamninga þar sem nægjanlegt átti að vera að kveða afdráttarlaust á um það að ekki skyldi greiða stimpilgjöld af skuldabréfum félagslegra íbúða. Skv. 2. mgr. 74. gr. laga nr. 86/1988, ásamt síðari breytingum, standa framkvæmdir sjálfar til tryggingar veittu framkvæmdaláni á hverjum tíma. Húsnæðismálastjórn setur nánari reglur um tryggingar.
    Með tilkomu annarra framkvæmdaraðila en sveitarfélaga fyrir byggingu félagslegra íbúða hefur húsnæðismálastjórn krafist raunverulegrar tryggingar fyrir framkvæmdaláni og það er því eftir setningu laganna nr. 70/1990 sl. vor sem farið er að þinglýsa framkvæmdalánasamningi og krafa kemur fram um að skuldabréf séu stimpilgjaldsskyld. Til að tryggja það að sú ákvörðun löggjafarvaldsins sem birtist í 94. gr. laga nr. 86/1988, sbr. lög nr. 70/1990, um að ekki skuli greidd stimpilgjöld af afsölum né skuldabréfum vegna félagslegra íbúða, sé í raun framkvæmd þykir nauðsynlegt að flytja þetta frv. Eftir að farið var að krefjast stimpilgjalds af lánasamningi við framkvæmdaraðila sl. sumar hafa félags - og fjármálaráðuneyti fjallað um þetta. Óumdeilt er að vilji löggjafans var sá að félagslegar íbúðir skyldu ekki bera stimpilgjald, hvorki skuldabréf vegna þeirra né afsöl.
    Frv. það sem hér er mælt fyrir kveður skýrt á um að ekki skuli greidd stimpilgjöld af framkvæmdalánasamningi. Í ljósi þess vilja sem Alþingi lét í ljósi sl. vor er lagt til að fjmrh. verði einnig veitt heimild til að endurgreiða stimpilgjald sem greitt hefur verið frá 1. júní 1990 af skjölum sem eru stimpilgjaldsfrjáls samkvæmt þessu frv. en félmrn. og fjmrn. eru sammála um að leggja til slíkt ákvæði.
    Jafnframt hafa í meðferð félmn. Ed. sem fjallaði um frv. verið teknar inn leiðréttingar vegna rangrar

tilvísunar sem er í lagagrein í 100. gr. laganna þar sem fjallað er um nauðungarsölu á félagslegum íbúðum. Einnig er um að ræða breytingu sem er leiðrétting á því sem fram kom við setningu laganna nr. 70/1990, að þá láðist að fella á brott ákvæði í lögum um Húsnæðisstofnun, en þá fækkaði lánaflokkum Byggingarsjóðs ríkisins um tvo. Lán til almennra kaupleiguíbúða voru felld undir Byggingarsjóð verkamanna, en lán til heilsuspillandi íbúða voru felld niður, sbr. 2. gr. laga nr. 70/1990 sem afnam 5. og 10. tölul. 11. gr. laga nr. 86/1988. Hins vegar voru viðeigandi ákvæði um fyrrgreind atriði í sjálfum efnisköflum laganna ekki felld brott og því er gerð tillaga um nýja grein í frv. sem ætlað var að bæta úr þessu.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að fjalla frekar um frv. en legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. félmn.