Átak gegn einelti
Föstudaginn 21. desember 1990


     Virðulegur forseti. Álit félmn. er á þskj. 325, svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um till. og mælir með samþykkt hennar með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj.
    Tillagan var upphaflega flutt á síðasta þingi. Þá var hún send til umsagnar fjölmargra aðila. Till. hlaut víðtækan stuðning og lýstu allir þeir sem tjáðu sig í umsögnum til nefndarinnar um efni till. yfir stuðningi við hana. Þar var um að ræða Kennarasamband Íslands, skólamálanefnd Hins íslenska kennarafélags, Samtök foreldra og kennara í Reykjavík (SAMFOK), fræðslustjóra Vesturlandsumdæmis, fræðslustjóra Suðurlandsumdæmis, fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra, fræðslustjóra Austurlandsumdæmis, Sálfræðideild skóla í Reykjavík, Unglingaheimili ríkisins, Sálfræðingafélag Íslands, Ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu Reykjanesumdæmis, kennsluráðgjafa fræðsluskrifstofu Austurlandsumdæmis og umhverfis- og friðarnefnd Fóstrufélags Íslands.
    Nefndin telur brýnt að sem fyrst verði skipaður sá samstarfshópur sem till. gerir ráð fyrir þannig að fljótlega liggi fyrir fyrstu tillögur um aðgerðir gegn einelti.``
    Á þskj. 326 er að finna tillögu frá félmn. um breytingu, að tillgr. orðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að gert verði átak gegn einelti meðal barna og unglinga og skipa í þessu skyni samstarfshóp kunnáttufólks til að gera tillögur um úrbætur.``